
Magnús R. Einarsson skrifar:
Það er hins vegar nokkur huggun í því að vestræn menning hefur staðið af sér stærri ógnir en þá sem Miðflokkurinn elur nú á.
Facebook: Þegar ég bjó fyrir nokkrum áratugum í litlu þorpi á Ítalíu norður við Lugano vatn þá fór ég á sumrin út í skóg til að safna eldivið fyrir veturinn því húsið sem við leigðum var einungis kynnt með einni kamínu og arni. Með mér í þessum skógarhöggsferðum var stundum nágranni minn Sandro að nafni. Sandro var pensjónisti frá Napólí, alkóhólískur dugnaðarforkur. Það var ekki auðvelt að skilja Sandro, hann talaði sína mállýsku með broguðum hætti, hálftannlaus og alltaf rakur.
Eitt sinn þegar við tókum okkur pásu í skóginum þá hóf hann torskiljanlega ræðu um lifur og hjarta. Þegar á leið fór mér að skiljast hvert hann var að fara því hann tók í hönd mér og benti á hring sem ég bar á baugfingri hægri handar. Inntak ræðunnar var á þá leið að hring ætti maður ekki að bera á hægri hönd því hægrið er óhreint eins og lifrin. Maður á að bera hring á baugfingri vinstri handar því vinstrið á að vera hreint eins og hjartað. Loks fattaði ég að Sandro var að segja mér með allegórískum hætti að hann væri sósíalisti.
Þetta er nú sennilega frumlegasta pólitíska stefnuræða sem ég hef heyrt. Þegar hægriöfgamönnum vex ásmegin hér á Fróni þá hugsa ég stundum til Sandros sem hefði sennilega sagt að að þessir heiftarfullu og rangskreiðu menn væru að fylgja sinni óhreinu lifur. Nú berast þær fréttir vestan um haf að þar fari fram mikil vakning meðal þarlendra lifrarmanna. Þeir ku trúa því að núverandi forseti þeirra sé smurður af guði til að boða endurkomu frelsarans sem hefur látið eftir sér bíða í heil tvö þúsund ár.
Þessi ört vaxandi hreyfing kallast „New Apostolic Reformation“, nýja postullega siðbótin, hvorki meira né minna. Endurkomu frelsarans hefur oftisinnis spáð en aldrei ræst og vonbrigðin hingað til verið mikil meðal trúmanna. Nú er hinsvegar mikil trú lifrarmanna vestan hafs á því að forsetinn sé einskonar skírari sem boði endurkomu Krists sem á einmitt að verða á kjörtímabili forsetans.

Einn ákafasti lifrarmaðurinn var skotinn til bana fyrir nokkrum vikum, en hann var sérstakt átrúnaðargoð nýkjörins varaformanns Miðflokksins. Sá samdi klökk minningarorð og bað drottinn að geyma hinn fallna og fjölskyldu hans. Varaformaðurinn er sumsé í hópi trúaðra sem vonast eftir endurkomu frelsarans á næstunni. Enda ekki vanþörf á ef marka má varaformanninn því hrun vestrænnar menningar vofir yfir að hans sögn og ekki er það hugguleg framtíðarsýn. Það er hins vegar nokkur huggun í því að vestræn menning hefur staðið af sér stærri ógnir en þá sem Miðflokkurinn elur nú á.
Má þar nefna þrjátíu ára stríðið, hundrað ára stríðið, fyrri og seinni heimstyrjaldirnar, lénsskipulagið, reformasjónina og nazismann svo fátt eitt sé nefnt. Þessir íslensku lifrarmenn, eða liffar svo notað sé nútímalegt táknmál, óttast aðkomufólk eins og pestina. Einum þeirra var gert að segja sig úr stjórn hjá Miðflokknum vegna rasisma. Sá heldur því fram að genetískt séð séu Íslendingar miklu framar fólki í fjarlægum heimsálfum eins gáfulegt og það nú er. Það er hins vegar í anda þjóðernisstefnu sem var í tísku fyrir hundrað árum í Þýskalandi.
Elsta trixið í pólitík er að spila á ótta og ala á sundrung, deila og drottna. Þetta snarvirkar ef rétt er á haldið. Þetta trix eru liffarnir og rasistarnir (rassarnir) að nota með nokkrum árangri með aðstoð nytsamra og óttasleginna sakleysingja. Þegar kjörtímabili andlegs leiðtoga þeirra í Hvíta húsinu lýkur án endurkomu frelsarans þá hjaðnar væntanlega, vonandi þeirra lifrarbólga.