- Advertisement -

Var ráðningin refisverð?

Ekki verður annað séð en athæfið sé refsivert og eykur það alvöru málsins að væntanlega er um ásetningsbrot er að ræða.

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur skrifar:

Var ráðning Lilju Alfreðsdóttur á flokksmanni brot á stjórnsýslulögum – auk jafnréttislaga? Er þá ráðningin ógildanleg og málsmeðferðin ámælisverð og jafnvel refsiverð skv. hegningarlögum?

Fram kemur í úrskurði Kærunefndar jafnréttismála að hæfnisnefnd ráðuneytisins hafi vanmetið Hafdísi Ólafsdóttur og ofmetið Pál Magnússon. Forsendur hæfnisnefnda við ráðningar í opinberar stöður hafa ekki verið með jafn beinum hætti véfengdir áður og markar málið því tímamót. Þetta er mjög alvarleg ásökun af því að opinberir starfsmenn hafa ekki heimild til að vera óheiðarlegir. Um störf þeirra og úrskurði gildir réttmætisregla stjórnsýsluréttarins og störf þeirra verða að vera forsvaranleg. Að öðrum kosti er ákvörðun hins opinbera valds ógildanleg.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef ákvörðum framsóknarráðherra á ráðningu flokksmenns brýtur núna í bága við lög og er ógildanleg – of ef hún verður ógilt – er ekki aðeins komið að tímamótum, heldur má segja að „gamla Ísland“ hafi keyrt á vegg. En Hafdís þarf að kæra ráðninguna og krefjast ógildingar hennar.

Þá er spurning um hvort ámælisvert eða refsivert athæfi hafi átt sér stað. Vanmat og ofmat eru viljaverk og spurning hver er ábyrgur. Ef ráðherra veit af þessu er hún ábyrg – jafnvel má hugsa sér að hún hafi hvatt til þessarar stjórnsýslu sem yki þá mjög á ávirðingar hennar – en ef hún veit ekki af þessu eru nefndarmenn í hæfnismefndinni ábyrgir. Þá er eðlilegt að veita þeim áminningu eða reka þá. Starfsmenn stjórnsýslunnar komast ekki upp með að brjóta stjórnsýslurétt.

Ekki verður annað séð en athæfið sé refsivert og eykur það alvöru málsins að væntanlega er um ásetningsbrot er að ræða. Þá er embættismönnunum eða ráðherranum, þ.e. þeim aðila sem ábyrgð ber, hvorum þeirra sem er, ekki sætt.

Í úrskurðarorðum kærunefndarinnar segir: „Með hliðsjón af öllu framangreindu telur kærunefndin að kærði hafi vanmetið kæranda samanborið við karlinn varðandi menntun hennar, reynslu hennar af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika hennar og hæfni hennar til að tjá sig í riti, en allt voru þetta fortakslaus skilyrði sem birtust í starfsauglýsingu kærða.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: