- Advertisement -

Veit Eyjólfurs Árni hvaða ár er?

Sólveig Anna Jónsdóttir:

„Á vef Fréttablaðsins svara ég grein Eyjólfs Árna, formanns Samtaka atvinnulífsins sem birtist í vikunni, en í henni reynir hann að láta eins og fullyrðingar mínar um andstöðu SA við að stjórnvöld uppfylli eitt mikilvægasta loforð hinna svokölluðu Lífskjarasamninga, um að gera launaþjófnað og kjarasamningsbrot refsiverð, séu ósannar. Hann lætur ekki þar við sitja, en heldur því jafnframt fram að það sé vegna skemmdarverkastarfsemi Alþýðusambandsins að ekki hafi tekist að ná niðurstöðu í málið. Grein Eyjólfs er tilraun til einhverskonar „gaslýsingar“ gagnvart verkafólki og fulltrúum þeirra; í stað þess að viðurkenna sök SA í málinu sem er algjör er stillt upp blekkjandi tímalínu og ósönnu narratívi. Eyjólfur Árni fullyrðir að samstarfshópur félagsmálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði hafi í janúar 2019 skilað skýrslu með tillögum er varða févíti og auknar heimildir til refsinga en hið sanna er að enginn árangur náðist í málinu. Líkt og kemur fram í skýrslunni sem Eyjólfur vísar til!

Kannski hefur Eyjólfur ekki réttar upplýsingar. Kannski er fólkið sem vinnur fyrir hann að rugla í honum. Eða kannski finnst honum bara ekkert að því að búa á landi þar sem hundruðum molljóna er á ári hverju stolið frá verka og láglaunafólki, fólkinu sem knýr áfram hjól atvinnulífsins og skapar með vinnu sinni arðinn sem Eyjólfur og félagar lifa í vellystingum af. Ég get ekki svarað því hverjar ástæður Eyjólfs eru. En ég veit að Efling mun ekki gefast upp fyrr en launaþjófnaður hættir að vera sjálfsagður hlutur á Íslandi.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. 

„Í stað þess að gangast við skömm sinni og samtakanna sem hann leiðir fræðir Eyjólfur Árni lesendur kotroskinn um nefnd eina. Nefnd þessi lauk störfum löngu áður en Lífskjarasamningarnir voru undirritaðir og er þeim óviðkomandi. Hún var skipuð í október 2018 og skilaði skýrslu í janúar 2019, þremur mánuðum fyrir undirritun samninga. Nefndin ræddi aldrei um innleiðingu sektarheimilda við kjarasamningsbrotum.

Formaður SA heldur því sem sagt fram að loforð sem gefin voru í apríl 2019 hafi í reynd verið uppfyllt með árangurslausum störfum ótengdrar nefndar þremur mánuðum fyrr. Skrif Eyjólfs Árna vekja þá spurningu hvort hann viti hvaða ár er. Vart má á milli sjá hvort er pínlegra, þekkingarleysi formanns SA á eigin kjarasamningagerð eða sú staðreynd að samtök hans ganga grímulausra erinda launaþjófa og samningsbrjóta.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: