- Advertisement -

VG viðheldur yfirgengilegri spillingu

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Til þess að fá að gera það var flokksforystan tilbúin til að gerast pólitískur „endurhæfingaraðili“ hins gjörspillta Sjálfstæðisflokks, ríkis-framkvæmdastjóra íslensks auðvalds.

Við erum hætt að undrast.

Í kjölfar alþingiskosninganna 2017 ákvað flokksforysta VG að ekkert skipti meira máli en að flokkurinn fengi að halda í valdataumana. Til þess að fá að gera það var flokksforystan tilbúin til að gerast pólitískur „endurhæfingaraðili“ hins gjörspillta Sjálfstæðisflokks, ríkis-framkvæmdastjóra íslensks auðvalds, flokksins sem á endanum hefur aðeins eitt hlutverk; að tryggja að rétta fólkið eigi Ísland og arðinn sem hér verður til. Katrín Jakobsdóttir fékk stól forsætisráðherra svo að hún og flokkurinn hennar gætu baðað sig í ljóma þess háa embættis og Bjarni Benediktsson settist í stól fjármálaráðherra til að ráða þar örlögum fólks; hver skulu halda áfram að fokka sér og hver skulu halda áfram að auðgast svívirðilega á kostnað samfélagsins okkar.

Við erum auðvitað fyrir löngu hætt að leita svara við því hvernig VG gat afborið að leggja í þessa vegferð. Það er orðið öllum augljóst, svarið er ósköp einfalt; löngunin í völd. Til að fullnægja henni var hægt að samþykkja að Bjarni fengi fjármálaráðuneytið, Guðlaugur Þór utanríkisráðuneytið til að frílista sig með níðingunum Pence og Pompeo, Áslaug Arna dómsmálaráðuneytið til að tryggja að hér væri áfram rekin rasísk útlendinga-pólitík og Kristján Þór, útsendari Samherja, sjávarútvegsráðuneytið til að tryggja að góðvinir sínir og flokksins yrðu áfram algjörlega ósnertanlegir á meðan þeir sölsuðu undir sig samfélagsleg verðmæti og auðlindir. Allt þetta og meira til var hægt að samþykkja svo að Katrín Jakobsdóttir fengi að gerast forsætisráðherra.

Við erum hætt að undrast en þó er það svo að í hvert sinn sem fréttir eins og þessar berast vaknar spurningin í stutta stund: Hvernig í ósköpunum afber fólkið í VG að leyfa að flokkurinn sinn sé notaður í að viðhalda þessari yfirgengilegu spillingu, þessu ömurlega rugli? Og við þurfum að enn á ný að svara: Vegna valdanna, vegna loforðsins um forsætisráðherrastólinn. Löngunin í völd bar allar stefnu og alla pólitík VG ofurliði.

Og vegna þess að það er eina og rétta svarið hlýtur þessi spurning að vakna: Hvers virði var þá eiginlega pólitík þessa fólks til að byrja með?

Villt um fyrir Alþingi

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur stóð að ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Hún sagðist sömuleiðis ætla að leggja áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi.

Spilling:

Með vinnslu og framsetningu hennar er augljóslega verið að villa um fyrir Alþingi og almenningi.

Þessi loforð virka hjákátleg þegar skýrslan sem birt var í vikunni er lesin. Með vinnslu og framsetningu hennar er augljóslega verið að villa um fyrir Alþingi og almenningi. Það dettur varla nokkrum í hug að það auki traust á stjórnmál og stjórnsýslu að þingmenn geti ekki óskað eftir skýrum upplýsingum um hvað er í gangi í landinu. Að ráðherra standi í vegi fyrir því að þær upplýsingar séu teknar saman.

Hvað er svo í gangi í landinu? Það sem er í gangi er að frá 1997 hafa þeir sem fá að halda á kvóta í eigu þjóðar haft heimild til að veðsetja hann. Það gerði að verkum að til varð meiri auður en nokkru sinni áður á Íslandi, og ofurstétt sem sópaði honum til sín.

Það sem er í gangi er að frá hruni og út árið 2018 batnaði eiginfjárstaða útgerða landsins, samkvæmt Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte, um 376 milljarða króna. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um að minnsta kosti 479,2 milljarða króna frá 2009. Til samanburðar greiddu útgerðirnar um 70 milljarða króna í veiðigjöld á þessu tímabili. Í fyrra greiddi þau 4,9 milljarða króna í þau, sem er minna en greitt var í tóbaksgjald á því ári.

Þessa fjármuni hafa margir eigenda útgerða notað til að auka ítök sín í óskyldum greinum, og samhliða aukið völd sín um framgang og þróun íslensks samfélags.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: