- Advertisement -

Viðvörunarmerkin hrannast upp

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í gær að þær hagtölur sem birst hafa á undanförnum dögum hafi áhrif á fjárlagagerð og áætlanir fjármálaráðherra. „Það liggur nú fyrir að þrátt fyrir orð nýrrar ríkisstjórnar um annað þegar hún tók við þá tók hún við gríðarlega góðu búi. Það er staðfest að það var 3,5% hagvöxtur á árinu 2013, sem var drifinn áfram af útflutningi, og viðskiptajöfnuður var jákvæður í fyrsta sinn frá árinu 2002 þrátt fyrir versnandi viðskiptakjör. Þetta er einstakur árangur í hagstjórnarlegu tilliti.“ Árni Páll sagði einnig að nú berist tölur um að „…hagvöxtur þessa árs gæti orðið undir spám. Við munum að við lok fjárlagagerðar í fyrra bættust fjármálaráðherra óvæntir sláturkeppir í betri afkomutölum sem greiddi fyrir frágangi fjárlaga, en núna bendir sem sagt flest til að hagvöxtur verði minni en gert var ráð fyrir. Það sem meira er, viðvörunarmerkin hrannast upp. Hagvöxturinn að því leyti sem hann er fyrir hendi er drifinn áfram af einkaneyslu og innflutningi. Framleiðsla í hagkerfinu er undir væntingum. Íbúðafjárfesting eykst, en það er líka ákveðið einkenni um hættu á bólumyndun. Ég vil þess vegna spyrja fjármálaráðherra hvort ekki sé ástæða til að endurmeta forsendur fjárlaga. Vissulega segir í forsendum fjárlaga að
byggt sé á því að hagvöxtur næstu ára sé drifinn áfram af einkaneyslu, það er auðvitað áhyggjuefni út af fyrir sig, en þegar við sjáum svona hraðan viðsnúning og svona mörg viðvörunarmerki teikna sig upp er þá ekki ástæða til að grípa til aðgerða og forðast nýja bólumyndun og stemma á að ósi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: