- Advertisement -

Vladimir Putin og rússneska ríkið

Þröstur Ólafsson:

Rótgróin virðist sú tilfinning vera sem segir að Rússland muni glata sinni eigin sjálfsmynd, færi það að herma eftir Vesturlöndum. Vestræna samfélagsmódelið var óvinurinn, hvort heldur það sneri að veraldlegum, póltískum stofnunum eða trúarlegum innviðum.

Út um allt er verið að giska á hvað þurfi til að Pútín fallist á vopnahlé og friðarsamninga, sem allir vita að hann muni ólíklega standa við þegar fram í sækir eða veikleikar í vörnum Úkraínu verði sýnilegir. Samband hans og rússneska ríkisins verður trauðla útskýrt með skynsamlegum rökum. Leita verður á vit villugjarnar sögu landsins. Skyggnast þarf bak við leiktjöld hennar við að leita að rótum valdeðlis þeirra afla sem einkenna og móta svo mjög rússneska sögu síðustu alda. Rússland hefur um langan aldur verið sérkapítuli í sögu Evrópu. Það virðist engu breyta hvort Rússar bjuggu við forpokað harðræði alræðiskeisara Romanoffættarinnar eða gerðu byltingu gegn stjórnskipan hennar og settu á fót ráðstjórn verkamanna. Alltaf var niðurstaðan sú sama.

Einangrun landsins, alræði og kúgun þegnanna sem síðar var gjarnan fylgt eftir með innrás.

Margir sagnfræðingar hafa glímt við ráðgátuna og leyndardóminn Rússland. Söguleg sjálfsmynd rússnesku þjóðarinnar var og er ill skiljanleg. Í sögulegri vitund þeirra hnýtast saman raunsaga og goðsaga, því uppruni Rússa byggist á goðsögn. Þessi goðsögn varð mýtan um yfirburði rússneskrar siðmenningar og hinnar rússnesku rétttrúnaðarkirkju. Var þetta ekki arfleifð tvö hundruð ára mongólskra yfirráða og einangrun Rússa frá vestari hluta Evrópu ?

Goðsögnin varð sú að Rússland væri heilagt land.

Þetta leiddi m.a. til framandleika gagnvart ótta við þá þjóðfélagsgerð sem var að þróast vestan landamæra Rússlands. Allar götur síðan, ef valdatími Péturs mikla er undanskilinn, hefur þjóðernishyggja Rússa verið beint gegn vestrinu og nú síðast gegn Nató, bandalagi þessara þjóða. Rótgróin virðist sú tilfinning vera sem segir að Rússland muni glata sinni eigin sjálfsmynd, færi það að herma eftir Vesturlöndum. Vestræna samfélagsmódelið var óvinurinn, hvort heldur það sneri að veraldlegum, póltískum stofnunum eða trúarlegum innviðum. Frjókornin að fyrirmyndinni um rússneska ríkið má rekja langt aftur í aldir (ca 800 e.Kr.) þegar rómverska kirkjan klofnaði í tvær megin fylkingar. Rétttrúnað (orþódox) og almenna (kaþólska). Sú fyrr nefnda heyrði beint undir veraldlega keisara sem, eins og kirkjan sem þeim var undirgefin, voru heilagir. Þetta varð hluti af ríkisskilningi þeirra, meðan sú síðarnefnda (kaþólska) deildi áhrifum og völdum með veraldlegum pótintátum. Þarna er rót skiptingar í fjölræði fyrir vestan en einræði fyrir austan. Goðsögnin varð sú að Rússland væri heilagt land. Hið guðlega og hið veraldlega vald fléttaðist óaðskiljanlega saman. Rússar litu á sig sem einstakan andlegan heim óspilltan af vestrænu frjálsræði og siðleysi. Þar þurfti því að kippa þeim nágranna þjóðum sem látið höfðu vestrænt frjálsræði glepja sig aftur til baka í faðm óspillts rússnesks menningarheims. Innrás Pútíns í Úkraínu er því samkvæmt þessu björgunarleiðangur í augum margra Rússa. Auk þessa bar Úkraína ábyrgð á hruni Sovétríkjanna, sem fyrsta landið sem lýsti yfir sjálfstæði frá þeim. Um hvað á Pútín þá að semja ?

Hann er í stríði gegn nútímanum.

Sífellt virðist rússneskur almenningur móttækilegur fyrir heimsveldisboðskap einræðisherra, þótt það kosti kúgun,mikla fátækt og réttleysi heima fyrir. Skyldi það vera svo að Rússar sem þjóð, í okkar skilningi, sé ekki til – hún sé bara langlíf farandsögn ? Þess vegna sé hún ófær um að rísa upp og segja NEI.

Rússnesk stjórnmál snúast fyrst og fremst um rússneska ríkið, gera það sem sterkast, alrátt, því aðeins ríkið – ekki þjóðin – geti tryggt framgang og veldi rússneskra menningargilda, þar sem trú og ríki eru eitt. Smithættan ógnvænlega er frjálsræðið og frelsið sem ganga þarf milli bols og höfuðs á. Stríð Pútíns snýst um vestræna siðmenningu og frjálslynt lýðræði sem ógna sál Rússlands. Slík stríð snúast um allt eða ekkert. Hann er í stríði gegn nútímanum. Er hægt að semja um takmörkun á útbreiðslu vestræns nútíma? Hvernig gæti sú málamiðlun litið út? Við þann gjörning þarf hann aðstoð að Vestan. Kannski hann sé nú loksins í sjónmáli.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: