- Advertisement -

Yfirvofandi kjaraskerðing

Láglaunafólk, öryrkjar, fátækt eftirlaunafólk og annað fátækt fólk, bíður enn bóta vegna síðasta hruns.

Gunnar Smári skrifar:

Á 1. maí læddi evran sér yfir 160 kr. og er nú rétt undir 161 kr. Frá upphafi kórónakreppunnar um 20. febrúar hefur evran hækkað um tæp 17% og þar með innflutt vara almennt um sambærilegt hlutfall. Sú hækkun mun leiða til um 6,5-7,0% hækkunar verðlags. Fólk á lægstu launum, 335 þús. kr. á mánuði fyrir fulla vinna, mun verða fyrir um 17.500 kr. mánaðarlegri kjaraskerðingu af þessum sökum. Að öðru óbreyttu. Olíuverð hefur fallið á heimsmarkaði, það sama á við um aðra hrávöru og verðbólga er engin víðast hvar, frekar verðhjöðnun. Það má því vera að eitthvað af þessum verðlækkunum verði flutt inn, og áhrifin af falli krónunnar verði minni.
Eftir sem áður er ljóst að aðgerða er þörf fyrir fólk með lágar tekjur. Og þá dugar ekki að kippa lánskjaravísitölunni úr sambandi, þótt hún hætti að mæla verðbólguna þá mun verðbólgan halda áfram að grafa undan kaupmætti. Öryrki á strípuðum bótum er í dag með 223.162 kr. útborgaðar. Áætluð verðbólga vegna falls krónunnar mun skerða þessu skammarlegu upphæð um 15 þús. kr. til viðbótar (í raunkrónum talið), upphæð sem öryrkinn má síst við að missa.
Eftir Hrun 2008 þróaðist umræðan svo að allur fókus fór á tapað eigið fé almennings í húsnæði sínu þegar lán hækkuðu en raunverð húsnæðis lækkaði (nafnverð stóð í stað en verðbólgan át af raunvirði eigna en verðtryggingin verndaði raunvirði lána). Þetta var ekki að ástæðulausu, það er óforsvaranlegt að áföll ríði aðeins yfir raunhagkerfið, þar sem venjulegt fólk býr, en fjármálakerfið sé varið öllum áföllum. En þessi fókus á eign skyggði á það mikla tekjutap, og síðan kaupmáttarskerðingu vegna verðbólgu þar á ofan, sem meginþorri almennings varð fyrir og beit auðvitað harðast þau sem fyrir voru með lægstar tekjur.
Þetta var flest fólk sem ekkert átti og það fékk því engar bætur út úr svokallaðri leiðréttingu, sem var afrakstur eignarréttarhluta Búsáhaldabyltingarinnar. Þetta fólk, láglaunafólk, öryrkjar, fátækt eftirlaunafólk og annað fátækt fólk, bíður enn bóta vegna síðasta hruns, liggur enn óbætt hjá garði þegar næsta hrun er að ríða yfir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: