- Advertisement -

Smáskammtalækningar breyta engu

Tímabundin staða ríkissjóð er ekki það sem skiptir megin máli, heldur að lina höggið eins mikið og hægt er.

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Jæja, nú dugar engar smáskammtalækningar hjá ríkissjóði. Á nokkrum mánuðum haustið 2008 og fram á ár 2009 tók ríkissjóður á sig útgjöld upp á líklega um 500 milljarða til að bregðast við vanda fjármálakerfisins. Það hafði komið sjálfu sér í ófyrirgefanlegan vanda og þó svo að gömlu bönkunum hafi ekki verið bjargað, þá var fjármálakerfinu bjargað. Stjórnvöld fóru þá í alls konar smáskammtalækningar vegna atvinnulífsins og heimilanna og við vitum öll hvernig það endaði.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er byrjuð að kynna aðgerðir sem hafa litla þýðingu fyrir þær atvinnugreinar, sem stefnir í að komi verst út vegna kórónaveirunnar. Þá er ég að tala um ferðaþjónustuna, hótel- og veitingageirans, alls atburða-, menningar- og samkomufyrirtækja og íþróttastarfsemi. Þessir aðilar sjá fram á algjört hrun í tekjum. Sum jafnvel 100%. Þau verða því tekjulítil eða tekjulaus næstu mánuði, jafnvel fram á haust. Að gefa greiðslufrest á staðgreiðslu, virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum mun ekki hafa afgerandi áhrif. Breyta kolsvartri stöðu í svarta stöðu eða dökk-dökk gráa. Tekjugatið mun áfram vera til staðar og stærsti hluti útgjaldanna líka. Smáskammtalækningar munu engu breyta.

Ríkið þarf jafnvel að leggja þessum fyrirtækjum til rekstrarfé.

Ríkisstjórnin hefur boðað að fyrirtæki geti fært fólk í hlutastörf gegn því að það fái atvinnuleysisbætur á móti. Talað hefur verið um að starfshlutfall geti farið niður í 50-80% og atvinnuleysisbætur dekki þá 20-50% á móti. Það er ekki nóg. Snúa þarf þessu við og bjóða að ríkið greiði 80% launakostnaðar fyrirtækja, sem koma verst út, í 3 – 6 mánuði. Ríkið þarf jafnvel að leggja þessum fyrirtækjum til rekstrarfé á sama tíma gegn mjög ströngum aðhaldsaðgerðum. Ef þetta verður ekki gert, þá fara þessi fyrirtæki einfaldlega í gjaldþrot og ástandið frá haustinu 2008 og næstu ár á eftir endurtekur sig. Við þurfum að hafa þessi fyrirtæki í startholunum, þegar lífið á Vesturlöndum færist aftur í sinn vanagang.

Ferðaþjónustan með hótel- og veitingageiranum byggðu upp gjaldeyrisforða þjóðarinnar eftir að Eyjafjallajökull gerði Ísland heimsfrægt. Nú er komið að því að stjórnvöld sýni þakklæti sitt og bjargi þessum greinum frá fjöldagjaldþrotum. Björgunarpakki upp á 20 milljarða á mánuði er eins og upp í nös á ketti. Björgunarpakkinn verður að vera í hlutfalli við það áfall sem er að dynja yfir. Hann verður koma strax, ekki eftir einhverja mánuði. Hann verður að vera bera vott um framsækni og djörfung íslenskra stjórnvalda. Að þau skilji vandann og vilji að þessi fyrirtæki verði tilbúin, þegar ferðalög hefjast að nýju. Að stjórnvöld átti sig á því, að ferðaþjónustan er mikilvægur aðili í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar til framtíðar. Markaðsátak í sumar eða haust gagnast eingöngu, ef enn eru starfandi sterk ferðaþjónustufyrirtæki í landinu.

Því miður er þetta svona dejavú, því í október og nóvember 2008 skrifaði ég margar greinar í svipuðum dúr. Við munum komast í gegn um vandann, það efast ég ekki um. Spurningin er bara hve langan tíma tekur það og hve mörg fyrirtæki verða fórnarlömb ástandsins. Haustið 2008 var ákveðið að láta uppbyggingu samfélagsins í hendur á bönkunum og þeir eru enn að greiða úr sumum málum. Við höfum ekki tíma til slíks núna. Við getum ekki leyft okkur að bíða í 4 – 5 ár, hvað þá 10 – 12 eftir síðustu úrlausnum. Og þó jörð skjálfi við Grindavík, þá væri betra að þar gjósi ekki. (Yrði svo sem stórkostlegt fyrir ferðamenn á leið til Íslands að fá útsýnisflug yfir gosstöðvar í aðflugi til Keflavíkurflugvallar.)

Hér fjalla ég bara um eitt atriði. Mörg önnur þarf líka að skoða. Mín skilaboð til stjórnvalda eru: Hugsið stórt. Hugsið í lausnum fyrir atvinnulífið og heimilin. Hugsið til framtíðar fyrir Ísland. Tímabundin staða ríkissjóð er ekki það sem skiptir megin máli, heldur að lina höggið eins mikið og hægt er.

Greinin birtist á Faebooksíðu Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: