- Advertisement -

Það er ótrúleg þröngsýni og skammsýni að sjá ekki þessi tækifæri!

Ég hvet ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að fjárfesta í framtíðinni með því að sjá til þess að sem flest fyrirtæki komist í gegnum hamfarastorminn

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Einar Þorsteinsson spurði í Kastljósi hvort aðstoð ríkissjóðs við fyrirtæki (í ferðaþjónustunni) þurfi ekki að vera á viðskiptalegum forsendum. Svar mitt er hreint út sagt NEI. Stuðningur ríkissjóðs þarf á vera á þeim forsendum sem best er fyrir Ísland til framtíðar. Kristrún Mjöll Frostadóttir, hagfræðingur, skýrði þetta vel út í Kastljósi í kvöld, en mig langar að bæta við.

Meðfylgjandi er tafla sem sýnir tekjur ferðaþjónustunnar sem hluta af þjónustuviðskiptum við útlönd síðustu fjögur ár. 76-81% af árlegum þjónustutekjum hafa komið í gegn um íslensku flugfélögin og innlenda ferðaþjónustu. Núna stefnir í að þetta fari niður í frekar lága upphæð á þessu ári og ætla ég ekki að gerast spámaður um hver sú upphæð gæti orðið. Ef við viljum að fyrri tölur birtist aftur, þá þarf Icelandair og innlend ferðaþjónusta að vera til staðar og tilbúin að taka við keflinu. Fórnarkostnaður ríkissjóðs að styðja við fyrirtæki sem lentu í hamfarastormi (e. Perfect Storm) sem gerði þau tekjulaus (m.a. vegna ákvarðana stjórnvalda) verður að skoðast í samhengi við þær tekjur sem þau hafa skaffað ríkissjóði undanfarin ár og þær tekjur sem ríkissjóður gæti vænst til að hafa af þeim þar til næsti stormur skellur á. Framlag ríkissjóðs yrði því fjárfesting í framtíðarskatttekjum.

 Ha, getur ríkissjóður fjárfest í framtíðarskatttekjum?

Ríkisstjórnunum sem voru við völd eftir hrun, gekk illa að skilja þessa hugsun. Ha, getur ríkissjóður fjárfest í framtíðarskatttekjum? Þess vegna dró ríkissjóður lappirnar í allt of langan tíma að aðstoða illa farin heimili og sættu sig við það að á annan tug þúsunda fjölskyldna misstu heimili sitt oft ofan á atvinnumissi. Enn eru stórir hópar sem ekki hafa náð sér upp úr Hruninu og eru því ekki jafn góðir skattgreiðendur og þeir voru fyrir Hrun. Ríkisstjórnunum mistókst að sjá tækifærin í að „fjárfesta“ í framtíðarskatttekjum. Þeim mistókst að átta sig í arðsemi þess að hjálpa fólki að halda heimilum sínum, að vera virkt á fjárfestingamarkaði, að halda úti rekstri fyrirtækja sinna sem útveguðu ríkinu skatttekjur eftir fjölbreyttum leiðum.

Núna stöndum við í sömu sporum, vegna þess að fólkið sem ekki sá tækifærin í að fjárfesta í framtíðarskatttekjum er enn og aftur við völd og hefur ekkert lært af reynslunni. Það óttast að einhver sem ekki er verðugur fái eitthvað sem viðkomandi á ekki skilið eða sér ofsjónum yfir útgjöldum sem eiga eftir að skaffa ríkissjóði margfalt meiri tekjur.

Ég hvet ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að fjárfesta í framtíðinni með því að sjá til þess að sem flest fyrirtæki komist í gegnum hamfarastorminn. Í þessum fyrirtækjum liggur hluti framtíðar Íslands. Gera verður ráð fyrir að fyrst um sinni þurfi fyrirtækin að draga saman seglin, en þó þau komi út úr storminum með þó ekki væri nema helming þjónustuteknanna í töflunni fyrir neðan, þá munu þau útvega ríkissjóði 100 ma.kr. í skatttekjur strax á næsta ári og svo kannski 200 ma.kr. eftir 3 ár. Þurfi fyrirtækin að byrja frá byrjun, þá munu þessar tölur lækka skarpt. Kannski niður í 30 ma.kr. og 60 ma.kr. Tap ríkissjóðs af því að fjárfesta ekki í framtíðinni yrði (miðað við þessar tölur) á þriðja hundrað milljarðar. „Fjárfestingarkostnaður“ ríkissjóðs mætti því vera ansi hár til þess að hann skilaði sér ekki til baka á stuttum tíma. Það er ótrúleg þröngsýni og skammsýni að sjá ekki þessi tækifæri!

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: