- Advertisement -

Skerandi neyðaróp „pilsfaldakapítalista“

Bein eftirgjöf af skuldum fyrirtækis er „gjöf“ til hluthafa þess.

Ragnar Önundarson skrifar:

Skerandi neyðaróp „pilsfaldakapítalista“ á hjálp berast nú úr öllum áttum. „Ríkið“ er í þeirra huga uppspretta peninga sem enginn á og upplagt er að seilast í. Góðgjarnir landsfeður bregðast við. Þeir vilja rétta hinum hungruðu brauðið. Rétt er að staldra við og rifja upp grundvallaratriði.

Á tímum sem þessum er fyrirtækjum skipt upp í tvo hópa, svonefnd „kerfislæga mikilvæg“ og „önnur“ fyrirtæki. Eftir Hrunið 2008 þótti eðlilegt að afskrifa skuldir hinna fyrrnefndu, en skuldir hinna síðarnefndu voru innheimtar með skuldum heimilanna. Bein eftirgjöf af skuldum fyrirtækis er „gjöf“ til hluthafa þess, og kemur sér þá vel að sá sem gjöfina veitir hafi sömu tilfinningu fyrir henni og þiggjandinn, þetta fé sé ókeypis og enginn eigi það. Gefin voru hundruð milljarða til valinna aðila eftir hrunið í þessu hugsjónaskyni, að bjarga þessum „kerfislæga mikilvægu“ fyrirtækjum. Eitt skýrasta dæmið er útgerðarfélag sem fékk 20 milljarða eftirgjöf, sömu fjárhæð og félagið notaði síðar til að kaupa ráðandi hlut í öðru stærra í sömu grein, sem ófullnægður hluthafi hefur nú sölsað undir sig.

Mistök skulu ekki endurtekin.

Tvennt er grátbroslegt við þetta: Annars vegar að ráðherrann sem var gerandinn er staðfastur sósíalisti, sem vill bera hag almennings sérstaklega fyrir brjósti. Hins vegar að til eru aðferðir til að vernda kerfislæga mikilvægan rekstur, án þess að gefa eigendum hans peninga. Hlálegt og neyðarlegt er að íslenska ríkið hafði einmitt beitt slíkum aðferðum við björgun bankanna í október 2008. Þær ábendingar komu utan frá og rötuðu inn í NEYÐARLÖGIN, en stjórnsýslan náði þó ekki að tileinka sér aðferðina.

Í ljósi reynslunnar

Aðstoða má fyrirtæki með ýmsu móti og þarf það ekki að fela í sér gjöf eða styrk. Ekki er réttlætanlegt að stjórnvöld færi hluthöfum gjafir, en á hinn bóginn þarf að huga að hagsmunum starfsmanna og samfélagsins. Markaðsbúskapur þýðir að ríkisábyrgðir° og styrkir eiga að vera liðin tíð. Engar léttar lausnir eru til. Valdar lausnir eiga að virða leikreglur frjáls framtaks og markaðar. Það væru röng skilaboð til atvinnulífsins og slæmt fordæmi gagnvart öðrum fyrirtækjum, að láta glannafengna athafnamenn ekki bera tekna áhættu. Sumir þeirra sem hæst kveina hafa fjármagnað rekstur sinn með ógreiddum reikningum og fyrirframgreiðslum viðskiptavina. Samhliða því að leiða þetta hjá sér þurfa stjórnvöld að líta til með þeim hluta umsvifanna sem eru í þágu lands og þjóðar. Mistök skulu ekki endurtekin.

Gengi krónunnar er nú fallandi og lánaþjónusta við heimili og fyrirtæki er skorin við nögl. Nú kemur sér vel að eiga fjársterka banka, sem hafa nýlega velt við hverjum steini í sínu útlánasafni. Lítum svo á að þetta sé styrkur, sem við þurfum að fara vel með, treina okkur og láta duga til frambúðar og endurreisnar. Óveðursskýin hafa hrannast upp og með veirunni hefur hætta á harðri lendingu raungerst. Sem betur fer er vilji og skilningur staðar hjá stjórnvöldum til að létta undir. Það mun reynast ómetanlegt í harðindum, ekki síst ef tímasetja má þær þannig að sem best mæti lægðinni.

Sjálfskaparvítin

Fálmandi leit þeirra eftir annarra manna fé.

Enn einu sinni hafa athafnamenn færst of mikið í fang. Þegar fjárstreymi fyrirtækja er hætt að vera frjálst til útborgunar til hluthafa falla hlutabréf jafnan í verði. Þetta þýðir að hlutafé margra félaga er nú þegar orðið verðlaust og við slík skilyrði eru fyrirtæki fallvölt og berskjölduð fyrir yfirtöku eða gjaldþroti. Fálmandi leit þeirra eftir annarra manna fé, til að bæta sér sjálfskaparvítin, má ekki bera árangur. Maklegt er að eigendur og stjórnendur viðkomandi fyrirtækja glími við þau. Stjórnvöld þurfa að gæta íslenskra hagsmuna í því ferli. Hvorki má aðstoða þannig að í því felist gjöf né hagnaður.

Ábendingar um aðgerðir

Gera verður greinarmun á rekstri og hlutafélagi kringum hann. Hlutafélagið sjálft er aldrei kerfislæga mikilvægt, það er bara reksturinn sem getur verið það. Aðferðin, kölluð „hive – down“ á ensku er þessi:

Reksturinn sem vernda á er færður úr félaginu sem er að komast í þrot í sérstakt nýtt dótturfélag. Viðskiptabanki félagsins lánar félaginu fyrir hlutafjárframlagi til hins nýja dótturfélags, gegn handveði í hlutafénu. Þar sem nýtt lán fylgir er gerningurinn ekki riftanlegur. Búa þarf svo um hnútana að bankinn geti leyst hlutaféð til sín án uppboðs, að uppfylltum skilyrðum. Hvort sem nýja félagið leigir eða kaupir eignir og rekstur verður að gæta þess að tilfærslan gerist á eðlilegu verði, svo hún verði óriftanleg. Stefna ber að viðskiptalegum aðskilnaði strax í framhaldinu, svo skilja megi á milli félaganna án fyrirvara. Flutningur viðskiptanna í ný félög yrði ekki heldur riftanlegur af því að gerningurinn yrði kröfuhöfum móðurfélagsins í hag. Ástæðan er sú að eigið fé þess stæði þá eftir til stuðnings þeirra kröfum eingöngu.

Mistakist þær tekur bankinn félagið yfir.

Sjálfs er höndin hollust

Eigendur og stjórnendur móðurfélagsins þeirra fái að þessu gerðu ráðrúm til að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu móðurfélagsins. Þeir þekkja eignir og skuldir þess best og eiga sjálfir mikilla hagsmuna að gæta. Hér eiga við gamlar og góðar reglur: Sjálfs er höndin hollust, sá veit best hvar skórinn kreppir sem ber hann á fætinum og hver er sinnar gæfu smiður. Oftast fer félag í þessari stöðu í umleitanir um nauðasamninga og það eykur líkurnar á samþykkt þeirra að reksturinn hafi verið „valdaður“ eins og hér er lýst. Mistakist þær tekur bankinn félagið yfir, lýkur endurskipulagningunni og selur það.

Gert verði alveg ljóst að íslensk stjórnvöld muni ekki koma að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja, að öðru leyti en því að veita viðskiptabönkum svigrúm með lausu fé, eftir því sem á þarf að halda. Þeir verða að annast kerfislæga mikilvæg fyrirtæki og gæta þess að mismuna ekki viðskiptavinum sínum.

Lærum af reynslunni

Með þessari grein er vakin athygli á að leiðir finnast til að takmarka það högg sem almenningur verður fyrir, þegar áföll verða í atvinnulífinu. Atvinnuleysi er mesta bölið, en af því að þeir sem atvinnurekstur stunda ætla launþegum og almenningi ekki hlut í gróða sínum er hvorki sanngjarnt né eðlilgt að þeim sé gefið almannafé.. Huga ber að þessu áður en ákvarðanir eru teknar. Mistök skulu ekki endurtekin.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: