- Advertisement -

Ég á pillubarn, þrjú lykkjubörn, og eitt planað

Fólkið í Eflingu. Mynd og texti Alda Lóa: „Ég var ný orðin 10 ára þegar ég byrjaði að vinna fyrir mér. Mín fyrsta vinna var að passa börn, tvö systkini frá klukkan átta á morgnana til klukkan þrjú á daginn yfir sumartímann, ég kom mér sjálf frá smáíbúðahverfinu og alla leið vestur í bæ.

Þegar foreldrar mínir skildu gerðist mamma dagmamma, fram að því hafði hún verið heimavinnandi, saumað, eldað og þrifið af okkur, mér og sjö systkinum mínum og pabba. Hún keypti hús sem var í niðurníðslu sem við systkinin hjálpuðum henni að endurbyggja. Þá var ég tólf ára gömul og bar út dagblaðið eftir skóla í öll hús á Laufásveginum og gætti systkina frá hálf fjögur til hálf sjö á kvöldin. Ég safnaði laununum í umslag og fannst gaman að sjá þegar það var orðið svo fullt að það var ekki hægt að loka því. Það var ekkert sem gladdi mig eins mikið og að færa síðan mömmu umslagið.

Ætlaði að læra sjúkraliðann

16 ára fór ég á vertíð í Eyjum, það var góður og skemmtilegur tími. Þegar ég kem heim aftur að hausti þá fer ég að vinna á Landakoti, stefndi á að læra sjúkraliðann og flakkaði á milli deilda. Á þessum tíma hlýtur að hafa verið heilahimnubólgu faraldur því ég man eftir því þegar ég ásamt sjúkraliða og hjúkrunarfræðingi vorum fengin til þess að halda börnunum undir mænustungu, það var bara of mikið, ég jafnaði mig ekki á því og ekkert varð úr sjúkraliðanáminu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Átján ára flyt ég norður á Akureyri með kærasta mínum og réði mig á leikskóla. Ég var þar í rúm tvö ár og eignaðist yndislegan dreng sem er elsta barnið mitt, fyrsta af fimm, en ég á pillubarn, þrjú lykkjubörn, og eitt planað, og undan þessum hóp komu síðan átta yndisleg barnabörn sem eiga hug minn og hjarta.

Ég kom aftur í bæinn og prófaði ýmislegt, ég var deildarstjóri á leikskóla, eitt ár rak ég sjoppu í Einholti og tók ég við rekstri á bakaríinu í Hagkaup í Kringlunni sem var skemmtileg vinna, krefjandi og mikil áskorun og alltaf nóg að gera. Ég er þessi manneskja sem þarf helst alltaf að vera að, finna lausnir á hlutum og bæta og breyta.

Til Noregs

Ég og fjölskyldan mín, fluttum til Larvik í í Noregi árið 2010 og bjuggum við þar í tvö ár. Það er mikill munur á laununum hér heima og í Noregi. Húsaleigan er lægri líka, reglan er sú að húsaleigan eða afborganir af fasteign sé aldrei meiri en sem nemur, einum þriðja eða einum fjórða af laununum. Ég fékk starf sem móðurmálskennari fyrir íslensku börnin, þrátt fyrir enga norsku kunnáttu, þá vildu þau samt sem áður fá mig í starfið. Ég hafði ekkert val um annað en að læra að skrifa og tala norskuna á ótrúlega stuttum tíma, einum og hálfum mánuði, og það tókst.

Launin fyrir kennsluna komu mér vissulega gleðilega á óvart. Ég var með 7600 íslenskar krónur á tímann. Þessi kennsla var hlutastarf svo ég fyllti upp í það með því að vinna hjá verksmiðjunni Steni AS. Launin hjá þeim voru 3800 íslenskar krónur á tímann.

Norðmenn leggja mikið upp úr því að öll börn hafi áhugamál og sinni þeim. Þeir segja, ef börnin stunda sín áhugamál þá sé árangur og áhugi fyrir náminu miklu meiri. Ég kem seint til með að gleyma því þegar skólinn hringdi í mig einn daginn og sagði mér að sonur minn sem var þá 10 ára væri mjög góður teiknari og hefði einnig áhuga á tónlist og spurði mig hvort að þau mættu senda hann í grafíska teiknun og gítarkennslu, allt færi það í gegnum skólann þó svo að hann muni sækja þessa tíma fyrir utan skólatíma, skólinn sæi alfarið um kostnaðinn. Ég samþykkti það auðvitað, en ég hafði aldrei þekkt svona lagað og var svo hissa að skólinn hefði áhuga og sinnti þörfum barnsins míns. Það var rosalega mikið lagt upp úr því að krakkarnir stundi áhugamál og það er talið auka líkurnar á því að þeim gangi betur í skólanáminu.

Aftur heim

Skólinn útvegaði allt nema skólatöskuna og skriffæri.
Dóttir mín fór í menntaskóla, hún fékk allar bækur og fartölvu og fartölvutösku sem hún gat einnig notað undir bækurnar sínar. Skólinn sá um allt viðhald á tölvunni og hún gat valið um að kaupa tölvuna á 500 kr. eða skila henni að námi loknu. Ástæðan fyrir því að skólinn útvegaði tölvu fyrir skólanámið var vegna þess að þau þurftu að sækja hluta af náminu á netinu.

Við hins vegar fluttum aftur heim 2012 þegar það kom í ljós að húsið sem við leigðum var alþakið í myglusveppum. Það gekk ekkert að leita að húsnæði sem hentaði okkur svo ég sá ekki fram á annað en að við yrðum að flytja heim aftur, þar sem við höfðum öruggt húsnæði. Einhverra hluta vegna þá hugsaði ég ekki út í það að leita að húsnæði í næsta bæjarfélagi, því miður. Það var mikil gæfa að komast til Noregs og ég sé alltaf eftir því að hafa komið aftur heim. En börnin eru flutt að heiman og farin að búa hérna, og ég gæti aldrei hugsað mér að vera svo langt frá þeim og barnabörnunum.

Ég sótti um vinnu á hjúkrunarheimili og líkaði mér þar mjög vel, yndislegur staður að mínu mati, þar sem mikið er lagt upp úr félagslífi fyrir heimilisfólkið og alltaf verið að hvetja starfsfólkið til þess að afla sér þekkingar í starfinu. Ég var hlaupari, hljóp á milli deilda þar sem þörfin var mest, það er mikið álag að vinna á svo mörgum deildum og vita sjaldnast á hvaða deild maður lenti og átti til með að vinna daginn eftir. Ég var svo heppin að hafa mjög góðan yfirmann sem skapaði góðan vinnuanda.

Aðhlynning er erfið vinna

En það kom því miður að því að ég þurfti að segja upp vegna þess að yfirmaðurinn var á móti reykingum á vinnustað og það gengur ekki upp til lengdar að vera laumast út til að reykja, maður getur ekki boðið sjálfum sér upp á það. Ég sem fullorðin kona fer ekki að laumast út til að reykja eins og hver annar unglingur.

Ég sagði við yfirmann minn að ég teldi mig vera meiri manneskju en svo að ég þyrfti að leggjast svo lágt og fara á bak við hana til að fara út að reykja. Það er orðin nokkuð slæmt þegar það á að fara taka ráðin af fullorðinni manneskju og taka ákvarðanir fyrir hana í hvað hún notar frítímann sinn. Ég fékk alveg að vita það að allir í húsinu væru mjög ánægðir með störfin mín og vel það, það eina sem skyggði á var hvernig ég notaði minn eigin kaffitíma.

Ég réð mig á annað hjúkrunarheimili þar sem ég vinn í dag, og reykingarnar eru ekki eins mikið atriði. Aðhlynning á hjúkrunarheimili er erfið vinna og að sama skapi mjög gefandi starf. Það fellst miklu meira í þessu starfi en að veita aðstoð og aðhlynningu. Félagslegi þátturinn, nándin, skilningurinn og að kunna að hlusta, sýna virðingu og aðgát er mjög þýðingarmikill þáttur.

Er hætt í vaktavinnu

Ég vinn alla virka daga vikunnar frá átta til fjögur en frí um helgar. Ég er hætt þessari vaktavinnu, vegna þess að ég vil geta verið meira með krökkunum mínum og sótt barnabörnin á leikskólann og verið með þeim þegar foreldrarnir vinna fram eftir.

Það má svo sannarlega segja að það er ekki hægt að lifa á þessum launum sem eru í boði hér heima, nema þú sért með maka og þannig á það alls ekki að vera. Það er löngu orðið tímabært að við förum að lifa eins og fólk. Við eigum að bera nógu mikla virðingu fyrir sjálfum okkur til þess að gera kröfu um að við séum ekki rænd sjálfsvirðingunni með því að þvinga okkur til að lifa við fátækt og eða við fátæktarmörk.

Til þess að launin væru ásættanleg þarf að hækka skattleysismörkin. Ég fæ útborgað 240 þúsund að meðaltali eftir skatt og og þarf að borga reikningana, byrja á því sem tryggir öryggi mitt sem er húsnæði, rafmagn og hiti og þá situr nánast ekkert eftir. Ég get til dæmis ekki séð fyrir mér hvernig ég ætti að geta þetta ein, hvað þá einstæðir foreldrar. Ég bý með barnsföður mínum og sem betur fer getum við látið enda ná saman með góðu skipulagi en það er heldur ekki meir en það.

Hafa þetta einsog í Noregi

Ég minntist á það við mann að öll verkalýðsfélögin ættu að taka sig saman og fara fram á að persónuafslátturinn myndi hækka, þannig að það yrði ekki tekin skattur af launum undir 300 þúsund krónum. Hann var góður með sig og sagði, „það verður að vera raunhæft, það yrði aldrei samþykkt að gera þetta nema í þrepum!“ Ég sagði, jæja, og telur þú það mjög raunhæft að ég eigi að lifa af 240 þúsund krónum á mánuði? Hann svaraði „Nei það er ekki raunhæft.“
Skattakerfið á að nýtast lágtekjufólkinu en ekki hátekjufólki eins og það hefur gert hingað til. Það er komið að okkur í dag.

Við þurfum að vera eins og fólk og taka Norðurlöndin okkur til fyrirmyndar. Við ættum að hafa þetta eins og í Noregi, einn þriðji eða einn fjórði af launum færi í greiðslur af lánum eða húsaleigu. Verðtryggingin tekin af sem myndi valda því að íbúða- og húsaleiguverð myndi lækka töluvert. Vextir yrðu raunhæfir eins og það gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Samfélagið hérna býður ekki upp á það að fólk eigi sér líf, ég vil geta lifað lífinu lifandi og notið þess með maka, börnum og barnabörnum. Það er minn réttur og þinn líka.

Við sem þjóð erum svo sofandi, það vantar alla samstöðu, við látum svo mikið yfir okkur ganga. Stjórnmálamenn halda sætinu sínu þrátt fyrir allar sínar gjörðir, og hvert fara peningarnir? ekki fara þeir í að byggja upp gott samfélag.“

Hjördís B. Ásgeirsdóttir er félagsliði á hjúkrunarheimili og félagi í Eflingu. #fólkiðíeflinguSjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: