- Advertisement -

Upplausn breskra stjórnmála: Kjósendur flýja gömlu flokkanna

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Fjórðungur kjósenda stóru flokkanna í Bretlandi, Íhalds- og Verkamannaflokksins, í kosningunum 2017 hafa nú snúið baki við þessum flokkum. Í kosningunum var samanlagt fylgi þeirra 85% en er nú aðeins 59% samkvæmt könnunum og hefur ekki mælst minna síðan Guð má vita hvenær, síðan fyrst var farið að mæla fylgi flokka í skoðanakönnunum um seinna stríð. Báðar flokkarnir hafa tapað miklu fylgi; Íhaldsflokkurinn 15 prósentustigum og Verkamannaflokkurinn 11 prósentustigum. Og mest af niðursveiflunni hefur átt sér stað á síðustu mánuðum algjörrar Brexit-upplausnar þar sem möguleikinn á að niðurstöðu verður æ ólíklegri eftir því sem ríkisstjórnin og þingið djöflast meira; síðasta hálfa árið hefur Íhaldsflokkurinn tapað 12 prósentustigum og Verkamannaflokkurinn 7 prósentustigum. Við erum að horfa á upplausn breska stjórnmálakerfisins eins og við höfum þekkta það. Ég þarf ekki að hafa neinn fyrirvara á því, það er enginn á lífi sem man aftur fyrir það kerfi sem við hin ólumst upp við og höfum reynt að skilja. Nú er nýr raunveruleiki tekinn við. Og þó ekki. Því þótt gamla kerfið sé augljóslega að hrynja þá er óljóst hvað tekur við.

Fram að síðustu mánuðum hélt Íhaldsflokkurinn betur í fylgi sitt en Verkamannaflokkurinn, sem byrjaði að tapa frá sér fylgi strax haustið eftir kosningarnar 2017. En með stofnun Brexit-flokks Nigel Farage er flóttinn orðinn algjör. Í könnun YouGov fyrir The Times mælist sá flokkur með 12% fylgi til viðbótar við 4% fylgi breska Sjálfstæðisflokksins, UKIP. Samanlagt fylgi þessara flokka er 16%, tvöfalt fylgi Frjálslyndra demókrata. Á sama tíma mælist fylgi Íhaldsflokksins 29%. Stuttu eftir að Theresa May boðaði kosningar snemma vors 2017 mældist fylgið allt að 45-50%. Þá mældist fylgi UKIP um 5-10% í könnunum. Samanlagt fylgi Íhaldsins og harðra Brexit-flokka var því í kringum 55% en mælist nú um 45%. Þrátt fyrir rakettufylgi Brexit-flokks Farage er því ekki hægt að túlka umbreytingarnar í breskum stjórnmálum sem hægri sveiflu.

Uppstokkun í breskum stjórnmálum.

Óháðir Evrópusinnar sem flúið hafa bæði Verkamanna- og Íhaldsflokkinn, Change UK, mælist með 3% fylgi. Ef við leggjum það saman við fylgi Frjálslyndra demókrata eru þessir Evrópusinnuðu flokkar með 11% fylgi sem er álíka og Frjálslyndir demókratar mældust með þegar May boðaði til kosninga 2017. Upplausn stjórnmála vegna Brexit hefur því ekki skapað sóknarfæri fyrir Evrópusinnaða flokka.

Verkamannaflokkurinn mælist nú stærri en Íhaldsflokkurinn, með 30% fylgi á móti 29%. Því er örugglega fagnað með temmilegri gleði í herbúðum Jeremy Corbyn. Flokkurinn fékk rúmlega 41% í kosningunum 2017 og hefur því misst frá sér meira en fjórðung af fylgisfólkinu. Það þarf miklar rannsóknir á því hvar fylgi nýrra framboða liggur til að átta sig á hver sætaskipan yrði á þinginu ef þessi yrðu niðurstaða kosninga; Íhaldið 29% og Verkamannaflokkurinn 30%. Það er fræðilegur mögulegt að Verkamannaflokkurinn gæti náð meirihluta þingmanna úr einmenningskjördæmakerfinu breska með svona litlu fylgi, ef fylgi annarra flokka dreifðist þannig; en það yrði örugglega enginn friður um slíka stjórn. Í raun verður enginn friður um nokkra stjórn í Bretlandi á næstu árum og áratugum; stjórnmálakerfið þar er að leysast upp eins og það hefur þegar gert á Ítalíu, á Spáni, í Frakklandi og mun örugglega einnig gerast í Þýskandi. Jafnvægið sem skapaðist eftir stríð í stjórnmálum stóru landanna í Evrópu er horfið. Það er ein af afleiðingum nýfrjálshyggjuáranna tvo til þrjá áratugina fyrir Hrunið 2008. Nýfrjálshyggjuárin leystu upp samfélagssáttmála eftirstríðsáranna og þegar nýfrjálshyggjan afhjúpaðist í Hruninu tók upplausn og glundroði við.

Eitt af einkennum þessa glundroða er ólík afstaða kynslóðanna. Það sést til dæmis á því á Brexit-flokkur Farage nýtur meira fylgis meðal fólks 65 ára og eldri en Verkamannaflokkurinn. Hjá eftirlaunafólki er flokkur Farage næst stærsti flokkur Bretlands, með 18% fylgi á meðan Verkamannaflokkurinn er með 15% og Íhaldið 40%. Hjá foreldrakynslóðinni, fólki á aldrinum 25 til 49 ára, nýtur Verkamannaflokkurinn 40% fylgis, Íhaldið 23% og Brexit-flokkurinn 8%; aðeins sjónarmun meira en Frjálslyndir demókratar eða Græningjar.

Meðal yngstu kjósendanna, 18 til 24 ára, er Verkamannaflokkurinn með 43% fylgi, Íhaldið með 21%, Frjálslyndir demókratar með 15%, Græningjar með 9%, Change UK með 6% og Brexit-flokkur Farage með 3%.

Meðal yngstu kjósendanna, 18 til 24 ára, er Verkamannaflokkurinn með 43% fylgi, Íhaldið með 21%, Frjálslyndir demókratar með 15%, Græningjar með 9%, Change UK með 6% og Brexit-flokkur Farage með 3%.

Hvernig breskir stjórnmálamenn ætla að byggja brýr á milli kynslóða og milli stórborganna og dreifðari byggða má Guð einn vita. Það virkar sem óyfirstíganlegt verkefni fyrir gömlu flokkanna og gamla stjórnmálakerfið. Að ætla að gera það með Brexit sem aðalréttinn á matseðlinum er auðvitað vita vonlaust. Von róttækari hluta Verkamannaflokksins er að handan við Brexit sé umræða um þau brýnu samfélagslegu verkefni sem fall nýfrjálshyggjunnar skilur eftir; vaxandi og nagandi ójöfnuður, niðurbrot velferðarkerfis og innviða, yfirgengileg misnotkun kapítalismans á náttúrugæðum, fólki og samfélagi. Von Verkamannaflokksins byggir á að hann lifi af næstu mánuði þannig að þegar Brexit loks linnir sé flokkurinn í þokkalegu standi til átaka við hægrið annars vegar, sem hefur ekkert nema Brexit og framlengingu alræðis auðvaldsins undir nýfrjálshyggjunni, og frjálslyndu miðjuna, sem hefur ekkert nema framlengingu nýfrjálshyggjunnar og andúð sína á Brexit, þeim sem unnu Brexit fylgi og þeim sem kusu með Brexit og gegn stefnu Evrópusambandisns, sem einkennist æ meir af þjónkun við hið alþjóðlega auðvald og hefur mistekist algjörlega að móta stefnu gegn helstu vá okkar tíma; auknum ójöfnuðu, eyðingu kapítalismans á náttúrugæðum og valdaframsali almennings til hinna ríku sem drottna bæði yfir hinum svokallaða markaði og yfir stjórnmálunum, ríkisvaldinu og öðrum almenningi í krafti auðs síns.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: