- Advertisement -

Almenningur fellst ekki á svona þvælu

Gunnar Smári skrifar:

Með hefðbundinni framsetningu væri sagt að 62% væri á móti 3ja orkupakkanum en 38% með, þ.e. ef gert er ráð fyrir að hin óákveðni skiptist eins og þau sem tekið hafa skýrari afstöðu. Þetta mál sýnir því eins og svo mörg önnur en stjórnmálastéttin, fjölmiðlarnir og aðrir fulltrúar valdastéttanna eru í litlu ef nokkru sambandi við almenningi; leggja áherslu á mál sem skipta almenning litlu eða mál sem mikill meirihluti almennings er andsnúinn en sinna engu því sem skiptir almenning miklu og sem almenningur leggur mikla áherslu á að séu afgreidd sem fyrst.

Undanfarnar vikur hafa stjórnvöld, mikill meirihluti Alþingis og svo til allir fjölmiðlar reynt að gera lítið úr andstöðu við 3ja orkupakkann; litað þau sem ekki fallast undir stefnu stjórnvalda sem illa upplýst fólk, aldrað og úr sér gengið, algjöran jaðarhóp í samfélaginu. Þessi könnun sýnir að elítan sem telur sig geta stjórnað umræðunni á Íslandi í gegnum stöðu sína í stjórnkerfinu, í fjölmiðlum eða innan fyrrum fjöldahreyfinga, sem stjórnmálaflokkarnir voru, er jaðarhópur í samfélaginu, illa upplýst lið um vilja, hagsmuni og þrár almennings, ruglukollar á jarðsambands sem eru hættulegir lýðræðinu, fólk sem vinnur gegn völdum almennings með því að telja sig yfir almenning hafið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Annað sem þessir könnun sýnir að ekki er hægt að sannfæra almenning um áríðanleika þess að breyta lögum með þeirri kynningu að sú breyting breyti engu, að nauðsynlegt sé að taka um orkustefnu Evrópusambandsins sem miðar að því að samkeppnis-, markaðs- og einkavæða orkugeirann með því fororði að það sé alls ekki ætlunin að taka upp orkustefnu Evrópusambandsins. Þótt verið sé að setja lög þar um, að samhliða samþykkt stefnunar séu settir fyrirvarar sem eigi að tryggja að stefnan hafi engin áhrif. Blessunarlega er meginþorri almennings ekki svo firrtur að hann fallist á svona þvælu.

Uppfært frá höfundi:

Það kemur síðan fram í þessari frétt hvernig þeir fjölmiðlar, sem beitt hafa sér af miklu afli til að fá almenning til að fallast á nauðsyn hans, ganga frá sínum fréttum. Í stað þess að gera hið vanalega, að kynna niðurstöður könnunar á einfaldan og skýran máta er hlaðið á það allskonar; t.d. látið í það skína að andstaða við orkupakkann sé í samhengi við hversu illa fólk hefur kynnt sér hann og tilvitnanir í lögfræðinga og stjórnmálafólk hengdar aftan við, jafn óskiljanlegar og fyrr.


Það er meirihlutaandstaða við orkupakkann í öllum „þekkingarhópum“. Þetta sést hér (hafið í huga að flokkað er í andstöðu, fylgjandi og hvorki né, svo um helmings andstaða er í reynd andstaða um 2/3 sem taka afstöðu):
„Helmingur þeirra sem hafa kynnt sér málið vel og þeirra sem hafa hvorki kynnt sér það vel né illa er andvígur samþykkt þriðja orkupakkans. Þá eru 46 prósent þeirra sem hafa kynnt sér málið illa og 45 prósent þeirra sem ekki hafa kynnt sér það andvíg samþykkt þess.“
Andstaðan er því jöfn og yfirgnæfandi, sama hversu fólki finnst það hafa kynnt sér málin vel. Helsta breytan er sú að fólk er líklegra til að gera meira úr þekkingu sinni ef það er einarðir stuðningsmenn pakkans. Fólk sem efast um eigin yfirburðaþekkingu er líklegra til að vera á móti pakkanum, að gleypa ekki pakkann ef það sér ekki tilganginn með honum.
Fréttablaðið og fréttastofa RÚV hafa lagt mikið undir í umfjöllun um orkupakkann og útlistað andstæðinga hans sem ómarktækan jaðarhóp. Það er mannlegt að þessir miðlar reyni að sannfæra sig og aðra um þeir hafi samt haft rétt fyrir, þótt kannanir sýni að svo sé ekki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: