- Advertisement -

Íslensk stjórnmál eru gerspillt

Ef þú neitar að horfast í augu við spillinguna eru íslensk stjórnmál óskiljanlegt rugl.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Margt fólk vill ekki trúa að íslenskir stjórnmálamenn gangi fyrir mútum svipað og það stjórnmálafólk, sem eigendur Samherja mútuðu í Afríku. Samt lætur íslenskt stjórnmálafólk Samherja fá kvóta fyrir brot af því verði sem spilltu ráðherrarnir í Afríku þó innheimti fyrir almenning í sínu land, fólkið sem treysti stjórnmálafólkinu til að gæta almannaeigna. Hvernig stendur á þessu? Að fólk neiti að horfast í augu við eitthvað sem blasir við? Er það vegna þess að svo margt byggir á að slíkt eigi ekki að vera til, megi ekki vera til? Að fólk óttist að samfélagshugmynd þess hrynji? Að fólk kjósi fremur að lifa við lygi, en að taka áfallinu af sannleikanum? Hvað skal segja. Mannkynssagan er full af sambærilegum dæmum. Illvirki hafa sí og æ verið framin í skjóli valds, stöðu og trausts, sem er misnotað; spilling, níðingsverk, þjófnaður, ofbeldi … allt dafnar þetta í skjóli valds og stöðu. Hin valdamiklu hafa meiri möguleika á ódæðisverkum en hin valdalausu, og sagan sýnir að þau nýta þau tækifæri. Og að helsta tæki þeirra er skjólið sem við gefum þeim með því að fallast á hugmyndir þeirra um eigið mikilvægi og flekkleysi, og tilhneiging okkar til að taka ávallt stöðu með hinum valdamiklu. Með því höfum við ekki aðeins byggt upp spillt valdakerfi sem brýtur gegn almannahagsmunum, en þjónar sjálfum sér og hinum fáu, ríku og valdamiklu; heldur samfélag þar sem brot gegn hinum veikstæðu og valdalitlu fá og hafa fengið að grassera; brot gegn börnum, konum, innflytjendum, leigjendum, öldruðum, öryrkjum, fötluðum … öllum sem standa veikt, ekki bara gagnvart þeim sem misnotar vald sitt hverju sinni heldur samfélagsgerðinni allri sem ávallt vill láta hina valdamiklu njóta alls vafa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hin ríku múta dómaranum.

Er ekki kominn tími til að hætta þessu? Þetta er ósiður sem er fólki ekki sæmandi. Hættið þessu. Það er ekkert að óttast. Segið upphátt: Íslensk stjórnmál eru gerspillt. Þegar þið hafið gert það nokkrum sinnum er auðveldara að skilja hvers vegna stjórnvöld fara gegn meirihluta almennings í öllum málum sem einhverju skipta. Það er vegna þess að það er svindlað í leiknum. Hin ríku múta dómaranum. Þess vegna tapar almenningur alltaf. Fólkið sem þykist vera að vinna fyrir þig er á launum hjá öðrum. Ef þú reiknar með mútum gengur dæmið upp. Ef þú neitar að horfast í augu við spillinguna eru íslensk stjórnmál óskiljanlegt rugl.

Staðreyndirnar eru þessar: 1. Eigendur Samherja múta stjórnmálafólki og nota til þess aflandsreikninga. 2. Það hefur komið í ljós að það er algengara að íslenskt stjórnmálafólk eigi aflandsreikninga en stjórnmálafólk í öðrum löndum. 3. Íslenskt stjórnmálafólk leigir eigendum Samherja kvóta gegn miklum mun lægra gjaldi en það stjórnmálafólk sem hefur sannanlega tekið við mútum frá fyrirtækinu.

Það er engin leið að draga aðra ályktun af þessu en að íslenskt stjórnmálafólk þiggi mútur fyrir að leigja útgerðarmönnum kvóta fyrir aðeins um 6 prósent af því sem útgerðarmenn leigja hver öðrum. Almenningur verður af um 70 milljarða króna tekjum árlega af þessum sökum.

Samherjaskjölin færa sönnunarbyrðina til. Nú verður stjórnmálafólkið að sanna að það gangi ekki fyrir mútum ef það vill leigja kvótann, eigur almennings, fyrir 6 prósent af virði hans. Ef það getur ekki sannað það, til dæmis með rannsókn óháðra aðila á bókhaldi allra stærstu útgerðarfyrirtækjunum og öllum þeirra aflandsfélögum í leit að mútum, peningaþvætti og skattsvikum; ef það framkvæmir ekki slíka rannsókn verður stjórnmálafólkið að leigja kvótann gegn fullu verði. Fram að því göngum við út frá því að það þiggi mútur fyrir að fórna almannahagsmunum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: