- Advertisement -

Ruddalegar stjórnarathafnir

Fjármálaráðherra víkur fjórum skattstjórum úr starfi og skipar flokksmenn sína í stöðurnar.

Vilhjálmur Hjálmarsson skrifaði þetta laugardaginn 27. október 1962:

Vilhjálmur Hjálmarsson.

Síðustu embættaveitingar rikisstjórnarinnar, skipun fjögurra skattstjóra, hafa vakið þjóðarathygli — og ekki án verðskuldunar. Rutt er til hliðar flestum þeim mönnum, sem áður höfðu gegnt skattstjórastörfum á viðkomandi stöðum, en settir í stöðurnar menn sem lítt eða ekki hafa við skattamál fengizt. Framkvæmd þ«ssara „refsiaðgerða“ er og með endemum og öll meðferð skattamálanna í höndum núverandi ríkisstjórnar með óvenjulegum hætti. Það var frá upphafi baráttuog stefnumál „viðreisnarstjórnar“ að setja ný skattalög til að tryggja betri og einfaldari skattheimtu, eins og það mun hafa heitið. Stjórnin kvaddi til að undirbúa löggjöfina einlita hjörð stjórnarliða. Hin stjórnskipaða nefnd hafði í enga samráð við þá, sem undanfarin ár höfðu einkum unnið að framkvæmd skattalaga, hvorki einstaklingana né stéttarfélagið, hvorki um efnisatriði né framkvæmda. Er slíkt þó viðtekin regla, þegar um hliðstæðar lagasetningar er að ræða.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Gunnar Thoroddsen var fjármálaráðherra árið 1962.

Skömmu eftir staðfestingu laganna á síðastliðnu vori, auglýsti ráðherra stöður skattstjóranna lausar til umsókna. Ríkisskattstjóri var skipaður snemma í vor. Umsóknarfrestur um hinar stöðurnar var til 7. ágúst. Litlu síðar, eða um miðjan mánuð, voru veitt fjögur af níu embættum umdæmisskattstjóra. — En aldrei voru nöfn umsækjenda birt almenningi, hvernig sem á því hefur staðið!

Þegar hér var komið sögu gerist sá hæstvirti hikandi. Gunnari fjármálaráðherra nægja ekki minna en sex vikur til að undirbúa næstu aðgerðir. Hinn 29. september berst fjórum skattstjórum tilkynning um það, að nýir menn hafi verið skipaðir í stöður þeirra, enda skyldu hinir nýju taka við störfum næsta virkan dag, þ. e. 1. október. Ráðningatími flestra gömlu skattstjóranna var útrunninn fyrir nokkrum mánuðum. En launagreiðslum til þeirra var haldið áfram þegjandi og hljóðalaust meðan Gunnar lá „undir feldi“ og þeim engin bending gefin um breyting una fyrr en þann dag, 29. sept., er þeim var gert að hverfa frá starfi á stundinni.

Það getur hver og einn stungið hendi í eigin barm og gert sér ljóst, hversu þénanlegt þetta muni vera fyrir viðkomandi menn og þeirra fjölskyldur, og þarf ekki orðum að því að eyða. Þó tekur fyrst í hnúkana, þegar aðgætt er, hverskonar „mannakaup“ hér hafa átt sér stað. Austfirðingum verður eðlilega fyrst að líta á það, sem þeim stendur næst.

Vilhjálmur Sigurbjörnsson hefur verið skattstjóri í sjö ár. Þar af full sex í Neskaupstað. Enginn hefur véfengt hæfm hans í starfi, jafnvel ekki æsnustu andstæðingar hans í pólitík og hefur þó ekki skort hörku á þeim vettvangi hér um slóðir. Þvert á móti er það almannarómur, að hann hafi rækt starf sitt af miklum myndarskap. Hann uppfyllir og þær hæfniskröfur laganna, sem leggja að jöfnu verulega starfsreynslu og nánar tiltekin háskólapróf.

En nú kemur annar maður fram á sjónarsviðið, Páll Halldórsson, og ekki með öllu ókunnugur Austfirðingum, sem vel muna þá tíð, er sami Páll dvaldist þeirra á meðal sem sérlegur útsendari íhaldsins. Skyldi hann þá rita „Þór“ að hálfu móti Thuliniusi, 1—1 1/2  síðu í hálfum mánuði, en hvarf á braut, þegar ljóst varð, að hann þoldi ekki svo mikið álag. Aldrei hefur Páll sýslað við skattamál, svo vitað sé og ekki trúlegt, að mikil áherzla hafi verið lögð á íslenzkan skattarétt á því námskeiði viðskiptafræðinga vestur í Kanada, sem með vafasömum rétti kom daufum sérfræðingsstimpli á Pál.

Eftir sérlegan samanburð, sem virðist hafa staðið um sex vikna skeið, fellir Gunnar Thor. sinn Salómonsdóm og veitir Páli starfið.

Menn eru orðnir vanir pólitísk um embættaveitingum á landi hér. En eitt er það að setja hæfan flokksmann í stöðu, sem stendur auð og annað hitt að flæma mann úr starfi, sem hann hefur rækt með prýði um árabil og veita það öðrum, sem hefur flokkslitinn svo að segja einan verðleika. — Þeir starfshættir eru fordæmdir af öllum þorra manna. — íslenzkt almenningsálit er þó ekki komið neðar en það — ekki enn þá. Þess vegnri hlýtur veiting skattstjóraembættisins á Austurlandi og sams konar bolabrögð á öðrum landshornum verðuga fyrirlitningu. Sá hæstvirti hefur eins og til smekkbætis tekið upp þá nýlundu í sambandi við veitingar skattstjóraembættanna, að setja þá til eins árs, sem hafa verulega reynslu í starfinu s.s. skattstjórana á Ísafirði og Siglufirði, en skipa hina, sem hvergi hafa komið nærri skattamálum, sbr. P. H. og hina aðra nýsveina. — Mun þetta eiga að tryggja í reynd þann tilgang laganna að bæta vinnubrögðin og auka afköstin!! En til frekara öryggis kveðst ríkisskattstjóri ætla að láta það verða sitt fyrsta verk, að semja „kennslubók“ fyrir skattstjóra!

Flestir kannast við „Vistaskipti“ Einars Kvaran. — Það var Steina litla á Skarði torráðin gáta hvernig það mátti verða, að Þorgerður húsmóðir hans væri í senn guðhræddust allra kvenna og þó verst þeirra allra En þetta vill enn við brenna.

Núverandi fjármálaráðherra er sléttmáll og blíðmáll umfram flesta aðra stjórnmálamenn okkar. Nú hefur hann ratað í það að fremja einhverja hraklegustu misbeitingu í embættaveitingum.

Hér er ekki aðeins vegið að þeim einstaklingum, sem bolað er úr starfi, heldur og fjölskyldum þeirra. En það er dálítið meinleg tilviljun, að sömu dagana sem Gunnar formaður í Norræna félaginu flytur þar eina af sínum kunnu „helgiræðum“, þá sker Gunnar ráðherra skattstjóranum í Neskaupstað þá sneið, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. En fjölskylda Vilhjálms Sigurbjörnssonar er einmitt tákn þess samnorræna anda, sem ráðherrann lofaði svo mjög í helgiræðunni góðu!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: