- Advertisement -

Á Íslandi eru allir í máli við alla

„Launamál Más Guðmundssonar er ákaflega klaufalegt mál,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær, þegar talið barst að mál Más Guðmundssonar og Seðlabankans.

Sigurður sagði að bankaráðið hafi kanna hvort bankinn hafi verið bundinn af ákvörðun kjararáðs, um að lækka við hann laun bankastjórans, frá því sem um hafði verið samið þegar hann var ráðinn.

„Þeir fá álit frá lögmanni út í bæ, sem segir að það sé ekki hægt að lækka launin. Bankaráðið virðist ekki hafa þorað standa á þessu og þá virðist afráðið að Már fari í mál við bankann til að fá úr þessu skorið. Bankastjórinn ræður lögmanninn, sem áður vann álitið fyrir bankann, til að gæta sinna hagsmuna. Bankaráðið þarf því að ráða lögfræðistofu utan úr bæ til að berjast gegn sjálfu sér. Áður var komið álit, álit sem bankinn fékk, sem sagði að bankaráðið mætti ekki lækka laun Más og hann varð að fara í mál við bankann og fékk til þess lögmanninn sem vann álitið. Í hnotskurn er þetta ruglið á Íslandi eftir hrun, hér eru allir í málaferlum við alla.“

Sigurður efast um að lögmenn og dómstólar ráði við öll þau mál sem nú eru uppi á borðum.

„Sömu lögmennirnir eru ýmist að vinna fyrir slitastjórnir og áður unnu fyrir bankana, eða voru lögmenn stórfyrirtækjanna. Núna eru þeir lögmenn slitastjórnanna og eru að sækja á fyrirtækin sem eru í þroti. Það er stundum sagt að bankakerfið hafi verið of stórt fyrir íslenskt efnahagslíf fyrir hrun. Nú finnst mér málsóknargleðin og saksóknaragleðin of stór fyrir íslenskan lögmannastétt og dómskerfið. Það eru nánast allir í málaferlum við alla og aldrei er spurt hvort viðkomandi lögmaður sé hæfur til að sinna málum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: