- Advertisement -

Gabríel strauk til að hitta vinina: „Ég sá að löggurnar sem voru í dómnum voru bara sofandi“

„Ég ætlaði bara að hitta strákana og svo fara aftur inn,“ segir Gabríel Douane Doama, sem strauk frá lögreglunni í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði.

Málið vakti mikla athygli, ekki síst vegna þess að lögreglan hafði tvívegis afskipti af röngum dreng þegar verið var að leita að Gabríel. Hann ræddi flóttann í útvarpsþættinum Veislan á FM957. Þar fullyrti Gabríel að lögreglan hafi hreinlega ekki staðið sig á vaktinni og veitt sér nægjanlega athygli. Því hafi flóttinn í raun verið auðveldur.

„Ég sá að löggurnar sem voru í dómnum voru bara sofandi þannig að ég tók bara sénsinn og ég vissi að ég myndi ná að flýja, Þetta var bara „win win“ því ég vissi að ég myndi ekki fá dóm fyrir þetta,“ sagði Gabríel sem faldi sig í skotti bifreiðar og fór upp í sumarbústað með vinum sínum.

Þann 22. apríl fannst Gabríel í sumarbústað á höfuðborgarsvæðinu. Þar var hann handtekinn og færður í afplánun í fangelsið á Hólmsheiði. Skömmu síðar var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir rán við Kjarvalsstaði í fyrra. Hótaði hann þar manni lífláti og fékk viðkomandi til að millifæra á sig 892 þúsund krónur.

Sjálf vill Gabríel ekki meina það að hann sé hættulegur glæpamaður. „Nei, alls ekki. Ég er bara slakur gæi. Ég er almennilegur við alla sem eru almennilegir við mig.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: