- Advertisement -

Eru dómstólar ekki fyrir fólkið í landinu?

Eru dómstólarnir ekki fyrir fólkið í landinu? Eru þeir kannski bara hugsaðir fyrir stórfyrirtæki og yfirstéttina og lögmenn og dómara? Þannig spyr Jörgen Ingimar Hansson rekstrarverkfræðingur í glænýrri bók, Réttlæti hins sterka. Þetta segir í viðtali Sunnudagsmoggans, eftir Orra Pál Ormsson. Viðtalið er upplýsandi. Hér á eftir fara stuttir kaflar úr þessu forvitnilega viðtali.

– Þú fullyrðir í bókinni að það fari betur um sterka manninn í þessu kerfi? „Já, ég geri það. Allur umbúnaður er þannig enda frá þeim tímum þegar fínir menn voru annars vegar og lubbar hins vegar. Lögin og dómskerfið í heild voru sniðin að sterka manninum sem hefur margt umfram lubbann og mun fleiri verkfæri á hendi. Fyrir vikið á sá síðarnefndi ekki mikla möguleika. Ef á þarf að halda eru mál bara látin bólgna út þangað til almenning brestur úthald.“

Dómsmál eru allt of dýr fyrir allan þorra fólks í landinu, að sögn Ingimars. „Samt greiðir það megnið af öllum einstaklingssköttum í landinu, hlutfallslega um fjórðungi hærri skatta að meðaltali en ríkustu 5%. Byggist það á því að á um 25 árum hafa skattar lækkað um nálægt 30% á þá tekjuhæstu og hækkað um það bil um 30% á almenning auk þess sem skattar á fyrirtæki hafa helmingast,“ segir hann.

Ingimar gerir sér fulla grein fyrir því að einhverjir eigi eftir að ypta öxlum og velta fyrir sér hvað rekstrarverkfræðingur og atvinnurekandi um árabil sé að vilja upp á dekk. „Því er til að svara að bókin er ekki um breytingar á lögum, heldur rekstur á kerfi og ég er háskólamenntaður í því að skipta mér af rekstri. Þess vegna fann ég hvað til míns friðar heyrði og byrjaði að greina. Þetta er niðurstaðan.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: