- Advertisement -

Ótrúlega grimmt sjónarspil

Kristinn Hrafnsson skrifaði:

Það er þung upplifun að sitja á palli í réttarhöldum og horfa á Julian Assange í glerbúri, við hlið tveggja fangavarða að reyna af veikum mætti fylgjast með málflutningi um framtíð sína – líklegast um líf og dauða.
Hann er berjast gegn framsali til Bandaríkjanna.
Glæpurinn er blaðamennska.
Á mánudag hófst þetta ótrúlega grimma sjónarspil sem stendur enn. Málflutningurinn er í réttarsal sem er við hliðina á Belmarsh, aðal öryggisfangelsi Bretlands, þar sem Julian er fangelsaður en undirgöng tengja fangelsið og dómhúsið.
Þetta er réttarsalur fyrir hryðjuverkamenn og stórglæpamenn.
Á degi eitt, á mánudag var hann handjárnaður 11 sinnum, berstrípaður í líkamsleit tvisvar sinnum, settur í 5 mismunandi biðklefa og þegar hann fór til baka í fangelsið voru öll lögfræðigögn tekin af honum.
Hvaða rugl er þetta !?
Ég sit með erlendum þingmönnum, frá Þýskalandi, Frakklandi, Írlandi, Evrópuþinginu, ásamt eftirlitsmönnum frá Blaðamönnum án landamæra (RSF), Amnesty, norska PEN og formanni Breska blaðamannafélagsins (NUJ). Það á engin orð yfir því sem við erum vitni að.
Síðdegis sauð upp úr. Dómarinn spurði hvort Julian væri orðinn þreyttur og þyrfti hlé. Milliliðalaust reyndi hann að tjá sig við dómarann í gegnum rifu á glerbúrinu.
„Hvernig á ég að geta fylgst með? Ég heyri varla nokkuð, ég á erfitt með að tala við lögmenn mína án þess að fulltrúar bandarískra stjórnvalda heyri hvað okkur fer á mill. Ég er eins og áhorfandi á Wimbeldon. Á enga aðild!“
(það eru þrír bandarískir fulltrúar í réttarsalnum, í beinu talsambandi við breska málaflutningsmanninn sem er að vrinna fyrir þá – í boði breska ríkissaksóknarans og skattgreiðanda í Bretlandi).
Dómarinn þaggaði niður í Julian og heimtaði að hann talaði við réttinn í gegnum lögmanninn.
Þegar sá tók til máls endurflutti hann boðin frá Julian – með beiðni um að honum yrði leyft að yfirgefa glerbúrið og sitja með lögmönnum sínum í réttarsalnum, til þess að geta milliliðalaust verið í beinu sambandi við eigin lögmenn og málflytjendur í þessu flókna máli.
Dómarinn hélt nú ekki. Hún hefði ekki vald til að leyfa slíkt, né meta þá almannahættu sem skapaðist ef Julian yrði hleypt út úr glerbúrinu. Ed Fitzgeraland, lögmaður Julians benti á að við værum ekki að tala hér um mann þekktan af ofbeldi heldur friðsaman mann og hugsuð. Dómarinn hristi hausinn yfir þeirri fáránlegun hugmynd að útgefandinn, blaðamaðurinn – og með rólyndari mönnum sem ég hef kynnst -, yrði hleypt út úr glerbúrinu. Hún gékk svo langt að spyrja ákæruvaldið (Breskan lögmann Bandaríkjanna) hvað honum fyndist og hvort það væru fordæmi fyrir slííku!
John Lewis, málaflutningsmaður Ameríku, varð hálf vandræðalegur og varð að viðurkenna að vissulega væru fordæmi fyrir því að ákærðir menn í varðhaldi sætu með lögmönnum sínum í réttarsalnum sjálfum, – en var fljótur að bæta því við að stundum væru þeir hlekkjaðir við fangavörð ef um ofbeldisglæpi var að ræða.
Enn var dómarinn ekki sannfærð og heimtaði lögbókarstuðning – frá saksóknaralögmanninum, andstæðingi Julians, til stuðnings því að hann fengi óhindrað aðgengi að lögmönnum sínum, í réttarhaldi um eigið líf og dauða. Hún bað ekki um slíkan rökstuðning frá verjendunum.
Einhvers staðar þarna gaf ég upp alla von um að nokkurt réttlæti væri að fá þessum réttarsal. Kafkaískt, er klisja en á hérna sannarlega við.
Við erum hér að tala um forvera minn í starfi, sem birti upplýsingar um stríðsglæpi, mannréttindabrot gegn föngum í Guantanamo Bay, þyrluárásarmyndbandið frá Bagdad (í samstarfi við RUV).
Sá sem fletti ofan af stríðglæpunum, mannréttindabrotunum og öðrum óhæfuverkum er á gapastokki.
Ekki þeir sem frömdu glæpina – bara sá sem sagði frá.
Reiðin svellur í manni yfir öllu þessu hróplega misrétti og þeirri ógeðslegu grimmd sem felst í þessu hatri sem þarna birtist og aumkunarverðir þjónkun breskra yfirvalda, -stjórnmálamanna og dómstóla, gagnvart grimmdarkröfunum og ofbeldinu.
Ég fæ fjölmargar stuðningskveðjur frá Íslandi og þykir vænt um þær. Illugi Jökulsson stingur upp á því að Íslensk stjórnvöld bjóði honum hæli. Það væri vel – en ekki líklegt í núverandi umhverfi ultra-hægri stjórnar á Íslandi.
Þetta er slagur sem á eftir að taka tíma, slagur við eitthvað óhreint og myrkt sem er að læðast yfir okkur öll, smám saman. Það er ekki hægt að hlaupa úr víglínunni því hún er mörkuð hér, – í ömurlegu úthverfi Lundúna.
Þetta er framlína þar sem barist er, ekki bara um líf Julian Assange, heldur um framtíð blaðamennskunnar. Þessarar sem núna er jöfnuð við njósnir og ógn við þjóðaröryggi og krafist er 175 ára fangelsis yfir þeim sem hana ástunda.
Þetta er styrjöld um grundvallarréttindi borgaranna, fyrir aðgangi að upplýsingum, fyrir aðhaldi gagnvart ógeðfelldu, freku og ofbeldisfullu valdi, fyrir sannleikann og vonandi meðfylgjandi réttlæti.
Þetta er mín borgarastyrjöld.

(Craig Murrey, fyrrverandi sendiherra Breta og uppljóstrari situr í réttarsalnum méð okkur. Hann bloggar daglega um hvað gerist. Góð yfirferð. Hér er hlekkur á dag tvö í gær. Finna má umfjöllun um mánudaginn á síðunni hans og væntanlega kemur blogg um dag þrjú síðar í kvöld eða nótt).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: