- Advertisement -

Almenningur stendur varnarlaus gagnvart auðmönnum

Frelsis-og sjálfstæðisbarátta almennings er það sem koma skal.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Auðmenn eru þeir einu sem hafa raunverulegt frelsi á Íslandi. Þeir hafa frelsi til að valsa með peninga, þvo peninga, fela peninga, flytja þá í skattaskjól, fela eignarhald á peningum, stela peningum, selja auðlindir landsins, stela arðinum af auðlindunum, svindla á lögum og reglum, svíkja undan skatti, stela af launafólki á ýmsan máta, reka fólk og ráða að eigin geðþótta, leggja byggðarlög í rúst að eigin hentisemi með því að flytja starfsemi á milli staða eða til útlanda. Og það þó hráefnið sem þeir eru að græða á eigi að vera í eigu þjóðarinnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Almenningur stendur varnarlaus gagnvart þessu. Hefur ekkert að segja. Hefur ekkert frelsi. Þessu verður að linna. Sjálfstæðis-og frelsisbarátta almennings þarf að hefjast. Það þarf að brjóta þetta gerspillta kerfi niður og færa fólki frelsi til að lifa og dafna í landinu okkar sem er svo ríkt af gæðum að allir geta haft það gott og notið sameiginlega arðsins af auðlindunum. Hvernig getur staðið á því að allt of margir lifa við fátækt? Hvernig getur staðið á því að fólk hefur ekki þak yfir höfuðið? Það nístir inn að beini að vita til þess að í þessu kerfi okkar lifa þúsundir bara við fátækt. Ekki peningar til fyrir jólamatnum, heldur þurfa mamma og pabbi að bíða í röð hjá góðgerðarstofnunum til að geta haldið jól. Er þetta frelsið sem við viljum? Nei ég held ekki.

Frelsis-og sjálfstæðisbarátta almennings er það sem koma skal. Þannig að fólk hafi raunverulegt frelsi til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt, hafi raunverulegt val, og hafi frelsi frá fátækt og erfiðum aðstæðum. Hafi raunverulegt frelsi frá því að vera peð sem fært er til á taflborði eftir hentisemi auðvaldsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: