- Advertisement -

ÁPÁ: Staðreyndir minna á krepputíma

Ávarp Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, skrifar áramótaávarp í Morgunblaðið í dag.

Hér eru valdir kaflar þess:

Hefur umgjörð frelsis brugðist

„Það er eðlilegt við þessar aðstæður að fólk spyrji sig hvort sú umgjörð frelsis, mannréttinda, frjálsra viðskipta og alþjóðasamvinnu sem við höfum búið okkur hér á landi og í Evrópu hafi brugðist.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svar okkar jafnaðarmanna er neitandi. Við eigum að mæta þessum erfiðu úrlausnarefnum með þá samstöðu að leiðarljósi sem hefur tryggt velsæld, mannréttindi og frið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ekkert af því er sjálfgefið, hvorki fyrir okkur né aðra. Willy Brandt sagði einu sinni: Friður er ekki allt, en allt er einskis virði án friðar. Það er rétt.“

Eftir að í óefni var komið

„Það þarf að læra margt af röngum áherslum undanfarinna ára. Ríki heims hefðu getað tekið fyrr á flóttamannavandanum. Veitt fé til mannúðaraðstoðar í nágrannaríkjum Sýrlands og skipulagt kerfi fyrir móttöku flóttafólks, sem hefði veitt fólki raunverulega lífsvon og komið í veg fyrir að fólk hætti lífi sínu og barna sinna á manndrápsfleytum á Miðjarðarhafinu. Nú þarf að bregðast við með öflugra landamæraeftirlit á ytri landamærum Evrópu og stuðningi við nágrannaríki Sýrlands. Því þarf jafnframt að fylgja stefna um að hleypa flóttafólki til Evrópu eftir löglegum leiðum og þá verða öll ríki að leggja af mörkum.

Íslensk stjórnvöld eru meðal margra annarra sem aðeins tóku við sér eftir að allt var komið í óefni og bjóða þá fram lausnir sem engan veginn duga. Glíman við loftslagsvandann er sama marki brennd. Hún vinnst ekki nema allir leggi af mörkum, en viðbrögð íslenskra stjórnvalda hafa einkennst af hálfvelgju, undanbrögðum og hiki. Hér þarf að koma fram af meira hugrekki og myndugleik, og sýna í verki skilning á sammannlegri ábyrgð andspænis flóknum úrlausnarefnum sem ógna friði og velsæld allra – okkar líka.“

Snúa þróuninni við

„Það vekur þungar áhyggjur að þótt við séum komin vel fyrir vind skuli ýmsar hagtölur og staðreyndir í félagslegum aðbúnaði minna meira á krepputíma heldur en uppgangsár. Brottflutningur af landinu er með því mesta sem þekkst hefur, framhaldsskólanemum fækkar, biðlistar eru eftir lífsnauðsynlegum lyfjum, fólk á besta aldri bíður á annað ár eftir mjaðmaskiptum með tilheyrandi sársauka, vinnutapi og fjárhagstjóni og ekki verið minna gert í uppbyggingu hjúkrunarheimila frá hruni. Barnabætur og fæðingarorlof rýrna ár eftir ár og sífellt færri njóta þeirra og eldri borgarar og öryrkjar voru látnir sitja eftir þegar kom að hækkun lífeyris til samræmis við lægstu laun.

Mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á að vera að snúa þessari þróun við. Við þurfum að nýta sóknarkraft íslensks atvinnulífs til að fjölga vel launuðum þekkingarstörfum, svo unga fólkið sjái sér hag í að byggja sér framtíð á Íslandi. Við getum ekki bæði boðið upp á lægri laun og hærri húsnæðisvexti en í nágrannalöndunum og líka upp á að hér sé fæðingarorlof, barnabætur og opinber húsnæðisstuðningur til muna lakari en þar. Í opnum heimi erum við í samkeppni við önnur lönd um fólkið okkar.“

Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: