Verðmætasköpunarhaustið var ekki hafið þegar það breyttist í vetur vorrar gremju, svo ég vísi í Shakespeare.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Alþingi „Það hefur ekki gengið vel með meginmarkmið þessarar ríkisstjórnar enn sem komið er. Þegar það rann upp fyrir hæstvirtum forsætisráðherra nú nýverið boðaði hæstvirtur ráðherra verðmætasköpunarhaust. Verðmætasköpunarhaustið var ekki hafið þegar það breyttist í vetur vorrar gremju, svo ég vísi í Shakespeare. Allt leggst á eitt: Enn hækkar verðbólgan. Það eru hópuppsagnir í sjávarútvegi, eins og spáð hafði verið fyrir um vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Komur skemmtiferðaskipa dragast gríðarlega saman með miklum áhrifum fyrir byggðir í kringum landið. Flugfélagið Play fór í þrot. Staða PCC á Bakka, sem hefur verið nefnd hér, er ekki batna, fólk er byrjað að flytja frá Húsavík. Vélfagi á Akureyri og Ólafsfirði er haldið í stöðugri óvissu af hálfu ráðherra þessarar ríkisstjórnar. Tveir þriðju hlutar Norðuráls eru núna stopp. Lánamarkaðurinn er í uppnámi. Og ekki einu sinni fjölmiðlar sleppa við þennan vetur ríkisstjórnarinnar, eins og sjá má á stöðu Sýnar sem virðist þurfa að draga saman seglin í beinu framhaldi af því að ríkisstjórnin ákvað að ráðstafa stuðningi við fjölmiðla til annarra og þóknanlegri miðla,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Hann hélt áfram og sagði: „Þess vegna spyr ég hæstvirtan. forsætisráðherra: Hvað stendur til að gera til að bregðast við þessum aðstæðum? Og nú er ég ekki að biðja um nýjan frasa, nýtt heiti á komandi mánuði. Ég er ekki að biðja um innihaldslaust tal. Ég er að biðja hæstvirtan forsætisráðherra að lýsa því fyrir okkur hvernig ríkisstjórnin hyggist bregðast við, hvernig hæstv. forsætisráðherra hyggist bregðast við. Hvað ætlar hæstvirtur forsætisráðherra að gera til að laga þetta ástand?“
„Ég vil segja í upphafi að þegar það eiga sér stað áföll og ófyrirséðir atburðir í íslensku samfélagi skiptir tvennt mestu máli, annars vegar fyrst að byrja á því að meta stöðuna rétt áður en maður getur tekið þau skref að bregðast við. Staðan sem upp er komin núna hjá Norðuráli er auðvitað grafalvarleg. Það dylst engum. Það er enn þá verið að komast til botns í því máli. Það er eðlilegt að við veitum þeim smá vinnufrið til að meta aðstæður. En það breytir því ekki, eins og hér hefur komið fram í máli hæstvirts atvinnuvegaráðherra, að stjórnvöld hafa verið í þéttu sambandi við fyrirtækið og svæðið og nú síðast í morgun var tekin sú ákvörðun að setja á fót hóp starfsmanna innan ráðuneytisins sem hefur gagngert það hlutverk að vera í þéttu sambandi við svæðið og við fyrirtækið til að geta brugðist við þegar við náum utan um hvað raunverulega gekk þarna á,“ sagði Kristrún Frostadóttir.
„…til að reyna að ýta undir verðmætasköpun í íslensku þjóðlífi.“
Næst sagði forsætisráðherra: „Varðandi PCC á Bakka er nýkomin út skýrsla á vegum forsætisráðuneytisins þar sem kemur fram að forsætisráðuneytið hefur tekið þátt í því að liðka fyrir samtölum m.a. við sex fjárfesta sem hafa áhuga á svæðinu. Núna er á lokametrunum ráðningarferli sem snýr að verkefnastjóra stórfjárfestinga sem mun sitja í forsætisráðuneytinu og vera tengiliður við atvinnulífið út af stórum fjárfestingum sem gætu komið til landsins til þess að ýta undir styrk atvinnulífs víða um land en sérstaklega á þessum stöðum þar sem er brothætt staða. Það er ýmislegt í gangi en auðvitað er erfitt að búast við svona áfalli fyrir fram, fólk er enn þá að átta sig á stöðunni. Þetta, leyfi ég mér að fullyrða, er með alvarlegri atburðum sem við höfum séð í stóriðjunni. Við tökum þessu alvarlega. En fyrst þurfum við að ná utan um vandamálið áður en við getum brugðist nákvæmlega við en það er fjöldinn allur af öðrum aðgerðum nú þegar til staðar í stjórnsýslunni og Stjórnarráðinu til að reyna að ýta undir verðmætasköpun í íslensku þjóðlífi.“
„…forsætisráðherra er nýbúinn að heimsækja fólk í Sandgerði…“
Sigmundur steig í pontu á ný og sagði þá: „Þetta svar hæstvirts ráðherra var að mestu leyti keimlíkt svari hæstvirtur atvinnuvegaráðherra áðan: Það er margt í mörgu og við erum að skoða þetta. Ég ætla ekki að gera aðra tilraun til að biðja hæstvirtan forsætisráðherra að lýsa aðgerðum sem ég hefði talið að ætti að kynna í dag og helst miklu fyrr til að bregðast við þróuninni í íslensku efnahagslífi. Ég ætla hins vegar að spyrja hæstvitan ráðherra út í forgangsröðun. Hæstvirtur ráðherra segist vilja kynna sér hvernig liggi í málinu til að geta þá brugðist við því en hvernig verður forgangsröðunin? Verður forgangsröðunin á íslenskt efnahagslíf, atvinnulíf og verðbólgu, það sem boðað var fyrir kosningar, eða verður aðalforgangsatriði þessarar ríkisstjórnar áfram að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, eins og virðist hafa verið megináherslan og birtist með ýmsum hætti síðustu misseri? Hæstvirtur forsætisráðherra er nýbúinn að heimsækja fólk í Sandgerði og hefur kannski fengið að heyra af því hvað fólk þar a.m.k. vill sjá. Var einhver sem lagði áherslu á að ríkisstjórnin einbeitti sér að því að koma Íslandi í Evrópusambandið eða eru það aðrir hlutir sem almenningur á Íslandi hefur mestan áhuga á að ríkisstjórnin sinni?“
„…við erum algerlega búin að vera með augun á boltanum“
Kristrún svaraði: „Efnahagsmálin eru forgangsmál nr. eitt, tvö og þrjú hjá þessari ríkisstjórn. Það hefur verið alveg skýrt að við höfum lagt okkur öll fram við það að ná afkomu ríkissjóðs réttum megin við, núllið eins og sést í núverandi fjárlögum, eins og sést líka í fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Ég vil líka segja að við erum algerlega búin að vera með augun á boltanum varðandi forgangsmál sem snúa t.d. að því að liðka fyrir orkuöflun í landinu, að liðka fyrir einföldun regluverks. Það hefur farið talsverður tími í að móta atvinnustefnu sem atvinnulífið hefur verið mjög ánægt með, þar með talin Samtök iðnaðarins og fleiri slíkir aðilar, vegna þess að þetta er einmitt það sem atvinnulífið hefur óskað eftir, fyrirsjáanleiki, og við náum utan um hvers konar atvinnulíf við viljum vera með í landinu og hvernig stjórnvöld vinna með atvinnulífinu. Þetta er það sem er búið að vera á öllum ríkisstjórnarfundum þessarar ríkisstjórnar frá upphafi. Það hefur ekki borið mikið á umræðu um Evrópusambandið, nei, enda er ekki búið að ákveða hvenær sú atkvæðagreiðsla mun eiga sér stað, nema hún mun eiga sér stað fyrir lok árs 2027 og það er það sem hefur verið rætt um. En forgangsmálin hafa verið atvinnulífið og efnahagsmálin. Það er það sem við höfum verið að ræða undanfarið.“