- Advertisement -

Hanna Katrín um auðlindagjöldin: „Höfum teygt okkur mjög langt“

„Er ekki skynsamlegt að staldra við og vinna málið aðeins betur núna á sumarmánuðum og leggja það aftur fram í meiri sátt í haust?“

Ingibjörg Isaksen.

„Í ljósi framangreindrar gagnrýni og þeirra athugasemda sem borist hafa spyr ég hæstvirtan atvinnuvegaráðherra hvort það sé ekki hreinlega skynsamlegt að fresta afgreiðslu frumvarpsins og nýta næstu mánuði til að vinna málið betur og ígrunda afleiðingar þess áður en áfram er haldið,“ sagði Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknar.

Í svari Hönnu Katrínar atvinnuvegaráðherra kom þetta fram:

„Það er svo sem engu við það að bæta öðru en að það er búið að vísa þessum fullyrðingum og þessari gagnrýni til föðurhúsanna á þann hátt sem hægt er með framlagningu gagna, með því að bregðast við og með því að svara ítrekað röngum fullyrðingum og ásökunum um að greiningar skorti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…langflestir landsmenn borgi sína skatta og skyldur…

Síðan langar mig líka að benda á eitt. Þegar við leggjum af stað í þessa vegferð var ætlunin að fara í þessa leiðréttingu, að láta raunverulegt aflaverðmæti ráða för um útreikning veiðigjalda eins og ég held að fyrir mörgum hafi verið ætlunin á sínum tíma. Það lá ekkert fyrir hver hækkunin yrði. Það er aðferðafræðin sem á að laga og henni erum við að breyta hér með. Það er síðan þannig að í meðförum meiri hluta atvinnuveganefndar var komið með breytingartillögur sem ég styð. Mér finnst þær góðar og þær mæta mjög vel faglegum áhyggjum þeirra aðila og málefnalegri gagnrýni lítilla og minni útgerða um að þetta sé íþyngjandi leiðrétting á rekstri þeirra. Því er mætt með breytingartillögum, þannig til að súmmera upp svarið:  Nei, ég tel að við höfum teygt okkur mjög langt í þessari vinnu til að koma á móts við málefnalega gagnrýni og við munum halda áfram með málið.“

Ingibjörg kom aftur í ræðustól:

„Nefndin virðist hafa áttað sig á því að hin svokallaða norska leið er ónothæf en heldur henni samt til streitu en nú með 20% afslætti. Ég spyr því að nýju í ljósi þessa: Er ekki skynsamlegt að staldra við og vinna málið aðeins betur núna á sumarmánuðum og leggja það aftur fram í meiri sátt í haust?“

Hanna Katrín sagði svo:

„Ég veit ekki betur en að langflestir landsmenn borgi sína skatta og skyldur eins og þeim ber að gera af því að þeir vilja byggja hér upp samfélag þess eðlis að hér sé grunnþjónusta okkar og samfélagsinnviðir í lagi. Það sem verið er að gera með þessu máli er að segja: Við viljum líka að atvinnugrein sem hefur aðgang, án endurgjalds að mestu leyti, að takmarkaðri auðlind sem þjóðin á taki þátt í því með okkur.“

langflestir landsmenn borgi sína skatta og skyldur


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: