- Advertisement -

Auðvaldið á og rekur flesta flokka á Íslandi

Gunnar Smári skrifar: Kosturinn við að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu er að þá gæti fólk kosið um stefnu Orkuveitunnar, Strætó, Sorpu og annarra slíkra byggðasamlaga eða fyrirbrigða sem í dag er stjórnað af fulltrúum sveitarstjórna en án aðhalds kjósenda. Í raun ætti ekki að vera til neitt opinbert vald án þess að kjósendur hefðu þar beint aðgengi að. Stór hluti valdsins í dag, og æ stærri hluti þess, er falið í stofnunum sem flokkarnir tilnefna stjórnarfólk til en eru í reynd valdamiðstöðvar utan aðhalds kjósenda. Þetta á jafnt við um Strætó og Ríkisútvarpið, Bankasýsluna og Landsvirkjun o.s.frv. Samstarf sveitarfélaga um verkefni sem þau eru of smá til að ráða við hafa búið til fleiri slík valdabatterí utan færis kjósenda og munu að óbreyttu gera það í enn ríkari mæli næstu árin og áratugina.

Gallinn er með sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fer valdið enn fjær fólkinu. Íbúar fámennustu sveitarfélaganna eru miklu síður til í sameiningu vegna þess að þeir hafa enn tilfinningu fyrir áhrifum sínum. Íbúar fjölmennari sveitarfélaganna upplifa það ekki og kjósa því hagræðingu stærðarinnar, eru í raun búnir að gefast upp fyrir lýðræðislegum áhrifum sínum en hafa trú á að kerfið virki betur ef það er stærra.

Til að fá kostina frá hvoru tveggja ætti að breyta höfuðborgarsvæðinu í fylki eða sýslu sem íbúarnir kysu stjórn yfir. Til að missa ekki allt vald í stóra einingu ætti síðan að halda hverfisstjórnum Seltjarnarness og Mosfellsbæjar og innleiða þær í hverfi Reykjavíkur (og kljúfa kannski Hafnarfjörð og Kópavog í tvennt eða þrennt). Það væri rakið að slembivelja í hverfisstjórnirnar svo þær endurspegluðu íbúanna og héldu áhrifum auðvaldsins frá stjórnmálunum, en auðvaldið á og rekur flesta flokka á Íslandi, sem í öðrum löndum. Hverfisstjórnir gætu rekið skólana og nærþjónustu, tryggt áhrif íbúanna á sitt nærsamfélag. Fylkið sæi síðan um þá þjónustu sem hverfin ráða ekki við. Mín vegna mætti slembivelja fylkisþingið en kjósa framkvæmdastjórnina.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Lýðræðissamfélag

Við eigum að stefna á lýðræðissamfélag. Eftir því sem auðvaldið hefur náð betri tökum á kosningakerfinu og sveigt lýðræðisvettvanginn undir eigin hagsmuni, því minni hafa völd almennra íbúa orðið. Við eigum að auka þau völd, ekki minnka þau. Og þótt fylkisstjórnin ræki strætó er ekkert að því starfsfólk og farþegar kysu í stjórn þess fyrirtækis.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: