- Advertisement -

Auðvaldið missti ekki nein völd í hruninu

Gunnar Smári skrifar:

„Þannig einangrar kapítalisminn auðinn, lætur hann rotna þar sem hans er síst þörf á meðan fjöldinn býr við æ minni völd og afl til að móta líf sitt og samfélag.“

Kapítalisminn er kerfi sem étur samfélögin að innan. Virkni hans er sú að flytja linnulaust fé frá þeim sem lítið sem ekkert eiga til þeirra sem mikið eiga. Þetta veldur því að fé er linnulaust flutt milli kynslóða, frá ungu fólki og barnafjölskyldum til hinna elstu, þeirra sem hafa náð að greiða skuldir sínar og losna undan því að vera blóðmjólkuð daginn út og daginn inn.

Á línuritinu má sjá hvernig auður fólks eldra en sjötugt hefur vaxið sem hlutfall af landsframleiðslu í Bandaríkjunum frá 1990, þegar nýfrjálshyggjan hafði sigrað og allar aðgerðir til að vinna gegn auðsöfnun innan kapítalismann verið felldar niður (skattar á auð lækkaðir, erfðafjárskattur lækkaður og ýtt undir auðsöfnun i stað þess að vinna gegn henni). Eftir Hrunið 2008 hefur auðurinn vaxið hraðar. Þótt nýfrjálshyggjan hafi dáið sem hugmyndastefna í Hruninu, þá hefur auðvaldið ekki misst nein völd og samfélagið gengur enn út á að þjóna því. Meira en áður.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Gunnar Smári:

Aldrað fólk er fyrirlitið, það sem ekki er auðugt má lepja dauðann úr skel.

Súlurnar til hægri sýna hvernig þessi auður mun dreifast á næstu árum, að lang stærstu leyti sem svo til óskattlagður arfur til erfingja, sem vanalega eru komnir á sjötugsaldurinn þegar þeir fá arfinn. Þannig einangrar kapítalisminn auðinn, lætur hann rotna þar sem hans er síst þörf á meðan fjöldinn býr við æ minni völd og afl til að móta líf sitt og samfélag. Auð fylgir ógnarvald og samfélag þar sem auðurinn og valdið liggur hjá hinum allra elstu er eitthvað allt annað samfélag en það sem almenningur barðist fyrir á síðustu öld.

Auður hinna elstu er misskiptur. Megnið af auðnum sem línuritið sýnir hrannast upp er eign 1% hinna öldruðu, þar af mest í eigu 0,1%. Við erum því ekki í samfélagi þar sem öldungar ráða eða þar sem virðing er borin fyrir aldri og reynslu. Aldrað fólk er fyrirlitið, það sem ekki er auðugt má lepja dauðann úr skel. Við búum í samfélagi sem ber ekki virðingu fyrir neinu nema auð. Og þess vegna gengur allt kerfið út á að láta hann hrannast upp hjá hinum auðugu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: