- Advertisement -

BB: Laun hækkað umfram framleiðniaukningu

Ávarp Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fer víða í áramótaávarpi sínu sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Hér er hluti þess:

Skuldir heimila lækka

„Ráðstöfunartekjur landsmanna hafa þannig aukist og eru enn að aukast. Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri, hvort sem um er að ræða launafólk eða lífeyrisþega og atvinnuleysi er hverfandi. Skuldir heimilanna fara stöðugt lækkandi og eignir þeirra aukast. Við höfum búið við mikilvægan stöðugleika í efnahagslífinu á þessu kjörtímabili, sem birtist meðal annars í því að verðbólga hefur nú samfleytt verið undir viðmiðunarmörkum Seðlabanka Íslands í tæp tvö ár.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Krefjandi verkefni að verja kaupmáttaraukninguna

„Á árinu höfum við glímt við erfið verkföll og kjaradeilur þar sem knúin var fram niðurstaða sem tíminn verður að leiða í ljós hvort innistæða verður fyrir í hagkerfi okkar. Fyrir liggur að laun hafa hækkað langt umfram framleiðniaukningu. Það verður því krefjandi verkefni að verja þá kaupmáttaraukningu sem nú mælist.

Ríkjandi fyrirkomulag við kjarasamninga, með ítrekuðu höfrungahlaupi, skilyrðingum og forsenduákvæðum um að enginn annar fái betri niðurstöðu síðar og ósamrýmanlegri kröfugerð einstakra aðila hefur fyrir löngu gengið sér til húðar.

Samkomulag sem SALEK, samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga, undirritaði í haust vekur vonir um að breyta megi og bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga og hefja nýjan kafla á íslenskum vinnumarkaði.

Við höfum það í hendi okkar að gera betur. Það er þolinmæðisverk að breyta rótgrónum vinnuaðferðum. Það mun ekki gerast án framlags frá öllum þátttakendum og mun kosta málamiðlanir og eflaust langar fundasetur en til mikils er að vinna fyrir aukinn stöðugleika og þar með styrkari grunn að frekari sókn í efnahagsmálum.“

Á ábyrgð okkar allra að bjóða nýju borgara velkomna

„Í haust ákvað ríkisstjórn Íslands að veita tvo milljarða króna til að bregðast við breyttum aðstæðum, stórauka framlög til alþjóðastofnana, styrkja stofnanir okkar og undirbúa það að taka á móti flóttamönnum til landsins. Nauðsynlegt var að bregðast skjótt við stórauknu álagi á stjórnkerfið vegna mikillar fjölgunar umsókna. Miklu skiptir að raunsæi, festa og skýrleiki sé í meðferð þessara mála en ekki síður að vel sé tekið á móti flóttafólki en sú móttaka fer ekki eingöngu fram á vegum stjórnvalda heldur samfélagsins alls. Það er á ábyrgð okkar allra að bjóða þessa nýju borgara landsins velkomna.“

„…að ríkissjóður beri engar hreinar skuldir innan 10 ára.“

„Lengi hefur legið fyrir að stærsta einstaka efnahagsmál okkar væri afnám hafta. Stór áfangi náðist á árinu 2015 með því að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja gerðu nauðasamninga og gengust undir stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Undirbúningur stendur yfir að næstu aðgerðum og er stefnt að afnámi fjármagnshafta á næsta ári. Áhrifin af stöðugleikaframlögunum eru verulega jákvæð fyrir ríkissjóð en samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir um 350 milljarða afgangi á rekstrargrunni á næsta ári.

Allt bendir til að bein útgjöld ríkissjóðs vegna falls bankanna og endurreisnar þeirra verði að fullu endurheimt, þar með talið tap Seðlabanka Íslands sem kallaði á styrkingu eiginfjár hans.

Einstakt tækifæri gefst með þessu til að létta mikilli skuldabyrði ríkisins á næstu árum og vandfundin dæmi um jafn kraftmikinn viðsnúning og hraða skuldalækkun og stefnir í hér á landi. Við getum nú sett raunhæf markmið um að ríkissjóður beri engar hreinar skuldir innan 10 ára.“

Fyrirsöng og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: