- Advertisement -

Djöfull er það ömurlegt

Ég er sorgmædd yfir hinu einbeitta áhugaleysi sem ávallt mætir konunum sem gæta barnanna okkar.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Engar álagsgreiðslur og ekki forgangur í bólusetningar. Bara endalausar kröfur um meiri vinnu undir meira álagi. 

Ég hef unnið á leikskóla og ég veit hvað það veldur miklu uppnámi þegar óboðnir gestir eins og lús og njálgur troða sér inn í leikskólalífið. Einn veturinn upplifðum við njálgs-faraldur, ógeðið kom aftur og aftur; við gerðum ekkert annað en að sótthreinsa og þrífa og passa upp á hreinlætið hjá börnunum. Þurftum að taka leikföng úr umferð, og í hvíld hættum við að nota kodda, lök og teppi á dýnurnar til að draga úr smithættu. Þetta tók ótrúlega mikið á. Endalaus aukaverkefni ofan á öll þau verkefni sem við gátum auðvitað ekkert sleppt. Bara hlupum hraðar, unnum meira. Fyrir nákvæmlega sömu skíta-launin. Við reyndum að eiga samtal um það hrikalega aukaálag sem fylgir svona utanaðkomandi ömurleguheitum við borgina í samningaviðræðunum, aukaálagið sem lendir á umönnunar-konunum sem gæta barna samfélagsins og annast gamalt fólk. Við töluðum um að við vildum fá inn „njálgs-álag“ til að ná að grína svolítið í þeim klikkuðu aðstæðum sem þessar samningaviðræður sannarlega voru. Ég get sagt ykkur að það var ENGINN áhugi á að eiga þetta samtal við okkur. 

Og nú eru umönnunar-manneskjur þessa samfélags, láglaunakonurnar okkar, búnar að standa vaktina svona lengi í þessum hrikalega faraldri. Búnar að sinna sínum skyldum af ótrúlegri skyldurækni. Búnar að hólfaskipta og nándartakmarka og svo framvegis endalaust. Inn í vinnuástandi sem var eitt það mest álagsvaldandi á landinu áður en Covid kom í óboðna heimsókn. 

Fólk er neytt til að leggja sjálft sig í hættu. Ómissandi starfsfólk sem hefur EKKERT VAL um að vinna heima. Ómissandi láglaunakonur. Og enginn sér sóma sinn í því að senda þeim þá virðingar-kveðju sem álagsgreiðsla sannarlega væri. 

Ég er sorgmædd yfir hinu einbeitta áhugaleysi sem ávallt mætir konunum sem gæta barnanna okkar. Djöfull er það ömurlegt. Og til skammar fyrir samfélagið okkar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: