- Advertisement -

Efnahagsstjórnin: Mesta verðbólgan, hæstu vextirnir og mesta atvinnuleysið

Þorbjörg Sigríður:

„Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega að verðlag hefur hækkað mest á Íslandi undanfarin misseri.“

„Mig langar til að byrja á því að draga saman nokkur atriði um stöðuna núna sem er grafalvarleg fyrir almenning og atvinnulíf,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á Alþingi í lok maí í vor.

„Verðbólgumarkmið Seðlabankans er að halda verðbólgunni sem næst 2,5% yfir hvert 12 mánaða tímabil. Frá því að ríkisstjórnin tók við völdum hefur verðbólgan verið mæld í 41 skipti. Í 36 skipti hefur hún verið yfir verðbólgumarkmiðinu sem segir okkur að það á við um flest þeirra fyrir það áfall sem heimsfaraldurinn færði okkur. Síðustu 12 mánuði hefur hún verið yfir markmiði og fjarlægst þessi viðmið enn frekar. Nýjasta mælingin sýnir verðbólgu upp á 4,6%. Ekki er nóg með að verðbólgan nálgist það að vera með öðrum orðum tvöfalt meiri eða tvöfalt hærri en sett markmið gera ráð fyrir heldur hefur hún hækkað hlutfallslega langmest á Íslandi miðað við helstu samanburðar- og samkeppnislönd innan OECD. Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega að verðlag hefur hækkað mest á Íslandi undanfarin misseri. Þar erum við farin að tala um veruleika og aðstæður sem hafa bein áhrif á lífskjör hér á landi,“ sagði Þorbjörg.

Hún hélt áfram:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Aftur sker Ísland sig frá samanburðarlöndunum.

Annar punktur er atvinnuleysið sem er í hæstu hæðum eins og við erum því miður öll meðvituð um. Atvinnuþátttaka hefur aldrei verið minni. Ný drög að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði því miður áfram töluvert. Þegar við skoðum áætlanir fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að atvinnuleysi hér á landi verði enn á bilinu 4–5%. Það eru óþægilegar og ógnvænlegar tölur, umtalsvert hærra en meðalatvinnuleysi síðastliðinna áratuga hér á landi og skýrt merki um viðvarandi hærra atvinnuleysi en við höfum áður kynnst. Aftur sker Ísland sig að þessu leyti úr frá samanburðarlöndunum, þ.e. með því að atvinnuleysi hefur hlutfallslega aukist mest hér undanfarin misseri. Þetta er alvarleg staða og staða sem á að fá langtum meiri athygli hér á þessum vettvangi af hálfu ríkisstjórnarinnar en verið hefur.

Annar punktur er vaxtastigið á Íslandi. Íslendingar þekkja það auðvitað vel að við búum að jafnaði við mun hærra vaxtastig en önnur Evrópuríki. Það er stundum talað um Íslandsálag í því samhengi, en þetta álag hefur haldið sér í þrengingum síðustu missera. Vissulega lækkuðu vextir og fyrir því fann almenningur en engu að síður, þrátt fyrir að við séum að upplifa lægri vexti en áður, eru þeir hærri en annars staðar. Nú er vaxtahækkunarferli hafið á Íslandi og við erum þar að taka vafasama forystu. Við þekkjum það auðvitað, og ég ætla ekki að orðlengja um það, hvað háir vextir gera heimilunum í landinu, fjölskyldunum í landinu og hvað þeir gera fyrirtækjunum og atvinnulífinu. Ég vil leyfa mér að segja, og held að ég sé ekki að tala glannalega í þeim efnum, að þetta er veruleiki sem hefur þau áhrif að lífskjör hér á landi eru verri að þessu leyti og þetta er stór þáttur í því hvar við stöndum í því að geta boðið upp á samkeppnishæf lífskjör fyrir almenning og fyrirtæki í landinu.

Annað atriði er staðan á fasteignamarkaði. Vextir hafa verið lágir, eins og ég nefndi, staðan hefur kallað fram mikla eftirspurn og markaðurinn hefur ekki getað sinnt eftirspurninni að fullu. Við sjáum nánast daglegar fréttir af því hvernig útlitið er á fasteignamarkaði og hvað er að gerast með verðlagningu þar. Nú blasir þessi staða við fólki sem er að reyna að koma sér inn á fasteignamarkaðinn og sömuleiðis því fólki sem er þegar komið þangað og kannski búið að skuldsetja sig með þeim hætti að þetta verður þungt. Þetta er ekki góð blanda og áframhaldandi þróun í þessa átt getur því miður hæglega leitt til þess að stór hópur fólks lendi í greiðsluerfiðleikum. Það á ekki síst við um þá sem síðast komu inn, nýjustu kaupendurna. Þetta eru staðreyndir sem sýna svo að ekki verður um villst að staðan hér á landi er að mörgu leyti erfiðari en annars staðar og sannarlega ekki sú að hér sé allt í himnalagi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: