- Advertisement -

„Ég er í framboði“

Þórdís Kolbrún er bersýnilega að staðfesta sögusagnir fjölmiðla um að formannskjör er framundan í Sjálfstæðisflokknum.

Össur Skarphéðinsson skrifaði:

Össur Skarphéðinsson.

Skap mitt mildast með árunum en það fauk í mig þegar ég kom síðla dags heim á Vestó og renndi yfir drottingarviðtal við varaformann Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaði Helga Magnússonar. Ég geri engan ágreining við þá skoðun Þórdísar Kolbrúnar, sem berlega birtist í viðtalinu, að formennska Bjarna Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum sé komin á síðasta söludag. En öðru vísi er ekki hægt að skilja viðtalið. Það hefði allt eins mátt birta undir fyrirsögninni: „Ég er í framboði.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einbeittur framboðsvilji birtist svo í því að ráðherrann segist vitanlega eiga heima í báðum örmum.

Þórdís Kolbrún er bersýnilega að staðfesta sögusagnir fjölmiðla um að formannskjör er framundan í Sjálfstæðisflokknum.

Orkupakkaræfillinn hefur orðið Sjálfstæðisflokknum miklu snúnari en efni stóðu til. Þórdís Kolbrún hefur öðrum fremur borið hann fram af elju og ástríðu. Fyrir einbeitta málafylgju við þann ræfil allra ræflna hefur varaformaðurinn uppskorið pústra og lamstur veðra. Þau hafa fyrst og fremst blásið úr Hádegismóum.

Í því ljósi er kannski skiljanlegt að Þórdís Kolbrún vilji skilgreina sig upp á nýtt fyrir flokksmönnum í ljósi þeirrar formannskosningar sem hún telur greinilega að verði á dagskrá næsta landsfundar. Sá fundur virðist geta brostið á fyrr en ætlað var miðað við hversu ráðherranum virðist liggja á og vísast veit það enginn betur en forysta flokksins.

Viðtalið, sem er málefnalega ágætt, er einsog teiknað eftir forskrift útspekúleraðra PR-mógúla. Hún brosir í allar áttir einsog vera ber. Það gera þeir eðlilega sem eru að fara í stærsta framboð ævi sinnar.

Meginboðskapur viðtalsins er þríþættur: Í fyrsta lagi að upplýsa lesendur um að Þórdís Kolbrún á heima alls staðar í flokknum. Hún á þar vini og stuðningsmenn á hverjum paldri. Í öðru lagi að hún hafi verið góður ráðherra. Í þriðja lagi er viðtalið hallærisleg tilraun til að friðmælast við andskota hennar í Hádegismóum sem alla daga djöflast á henni fyrir ræfilstuskuna sem ekkert er, orkupakka 3. Naktara getur framboðsviðtal varla verið.

Það vekur svo athygli gamalreynds orkumálaráðherra að engin tilraun er gerð til að skýra rök ráðherrans fyrir því að stuðningurinn við orkupakkaræfilinn sé þess virði að reyna á þanþol eigin flokks og friðar í landinu.

Ráðherrann skilgreinir réttilega Sjálfstæðisflokkinn þannig að hann hafi í 90 ár skipst á milli íhaldsarms og frjálslynds arms sem alla tíð hafi slegist. Það hefur Sjálfstæðisflokkur vorra daga hingað til ekki viljað fallast á. Að því leytinu staðfestir Þórdís Kolbrún gamla söguskýringu mína og Svavars Gestssonar af Þjóðviljanum.

Einbeittur framboðsvilji birtist svo í því að ráðherrann segist vitanlega eiga heima í báðum örmum. Hún sé nefnilega í eðli sínu íhaldssöm en vinkonur hennar segi að hún eigi vel heima í frjálslynda vængnum!

Best er þó að hún er ekki aðeins fulltrúi unga fólksins – heldur líka ellibelgjanna. Í Sjálfstæðisflokknum eru Samtök eldri Sjálfstæðismanna mikilvægasti drifkrafturinn í kosningum innan flokksins. Helsti skoðanamótandi þeirra er Styrmir Gunnarsson, sem nánast opinberlega hefur sagst ætla að standa yfir pólitískum höfuðsvörðum hennar og Bjarna Benediktssonar fyrir einarðan stuðning við orkupakkaræfilinn.

Þetta gerir kandídatinn með því að brenna reykelsi og mirru á altari tyftarans á Mogganum, Davíðs Oddssonar.

Þá vill hins vegar svo heppilega til – einsog Þórdís Kolbrún upplýsir um við lesendur Fréttablaðsins – að hún hefur alltaf átt sérlega gott með að tala við eldri Sjálfstæðismenn. Þeir séu í rauninni í hennar stuðningsliði enda sæki hún reglulega fundi SES í Valhöll. Okkar kona tikkar í öll box!

Viðtalið brýst þó fyrst gegnum glerþakið þegar varaformaðurinn gerir sitt besta til að sleikja upp þann karlinn sem lemur hana og forystu Sjálfstæðisflokknum með freðnu hrísi úr Hádegismóa í hverju Reykjavíkurbréfi á fætur öðru. Ótaldir eru þá reglulegir leiðarar að ógleymdum iðurvellandi Staksteinum.

Þetta gerir kandídatinn með því að brenna reykelsi og mirru á altari tyftarans á Mogganum, Davíðs Oddssonar. Honum færir höfuðdrúpandi kandídat eftirfarandi lofgjörð um hann og úrslitaáhrif hans á einn sögulegasta samning lýðveldistímans, EES:

“Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem leiddi okkur inn í það samstarf undir forsæti Davíðs Oddssonar.”

Á semsagt að ljúga sögulega forystu um EES af Alþýðuflokknum og Jóni Baldvin til að kaupa frið við versta kvalara kandídatsins? Heldur hún virkilega að ritstjóri Moggans, þrátt fyrir allt, sé þeirra sanda og sæva að lúta að slíku?

Það kann vel að vera að nú um stundir sé til vinsælda fallið að níða skóinn niður af hinum aldna leiðtoga, JBH.

Lægara sökkva þó forystumenn Sjálfstæðisflokkurinn varla en reyna að stela af honum EES-samningnum.

Skrifin birtust á Facebooksíðu Össurar.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: