- Advertisement -

Ég skil ekki þessa forherðingu

Hversu lengi getur fólk vænst þess að lifa? Ófaglærðar konur eru líklegastar til að hrökklast af vinnumarkaði með stoðkerfiskvilla og önnur veikindi. Heilsu þeirra hrakar hraðast allra hópa. Álagið sem fylgir vinnu og fjárskorti tekur sinn toll á þeim, mánuð fyrir mánuð, ár fyrir ár.

Háskólamenntaðir sjá fram á sífellt lengri ævi – en grunnskólamenntaðar konur hafa frá 2014 séð vænta ævilengd styttast, ár eftir ár.

Láglaunastefnan er ódýr fyrir launagreiðandann – en er borin af fólkinu og samfélaginu í heild.

Myndin sýnir áætlaða ævilengd við þrítugt, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.

Sólveig Anna skrifar:

Ég veit að við búum í veröld þar sem stéttaskipting og misskipting þykja sjálfsögðustu hlutir í heimi. Ég veit að við búum í veröld þar sem það að hlusta á láglaunafólk einfaldlega tíðkast ekki. Það er eins og það séu trúarbrögð að hlusta ekki á láglaunafólk. Í fámennu vellauðugu samfélagi er það til marks um gáfur, metnað og stjórnunar-færni að láta sem ekkert sé þegar láglaunafólk segir frá.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Sólveig Anna.

Þetta hefur afleiðingar. Það hefur afleiðingar að nýta fólk til vinnu og borga því ekki laun sem duga fyrir framfærslu. Það hefur afleiðingar að hafa fólk í líkamlegri og andlegri erfiðisvinnu og láta það lifa við endalausar áhyggjur. Það hefur afleiðingar að hlusta ekki þegar fólk segir frá aðstæðum og kjörum. Grafalvarlegar.

Heilsu fólks hrakar sem látið er þola endalausar fjárhagsáhyggjur til viðbótar við mikið starfsálag. Konur á mínum aldri sem starfað hafa við erfið umönnunarstörf eiga á hættu að missa heilsuna. Fjölgun þeirra sem fá örorkumat er mest í hópi kvenna um fimmtugt. Kvenna sem unnið hafa erfið störf fyrir smánarleg laun og hafa einnig, eins og við allar, þurft að axla mikla ábyrgð á sínum eigin heimilum og fjölskyldum. Í kvennaparadísinni eru það láglaunakonurnar sem þjást.

Hvernig getur manneskja ákveðið að hlusta ekki á aðra manneskju sem að segir frá lífi sínu og tilveru? Ég skil það í alvöru ekki. Til hvers að sækjast eftir völdum ef að þú ætlar ekki að nota þau til að lyfta þeim upp sem mest þurfa á því að halda? Til hvers að sækjast eftir völdum ef að fólkið sem minnst hefur milli handanna hefur það ekki betra ef að þú ert við völd?

Hver er hugsjónin? Hvernig er það ásættanlegt að arfleifðin sé áframhaldandi og algjör undirgefni við samræmda láglaunastefnu, kerfisbundið og grimmilegt vanmat á virði hefðbundinna kvennastarfa?

Ég skil ekki þessa forherðingu. Hef aldrei skilið hana og mun aldrei gera það. Ég er þakklát fyrir það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: