- Advertisement -

Eiga að leiðrétta strax

Ef við fáum fjármagn, þá munum við flýta því eins fljótt og mögulegt er.

„Hvaðan fá stjórnvöld þær hugmyndir að þau geti haldið áfram með ólöglega framkvæmd? Það á strax að fara að greiða út eftir löglegum leiðum og bæta þann skaða sem hefur valdið mörgum ótrúlegum og óþörfum erfiðleikum um langan tíma,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Umboðsmaður Alþingis kvað upp úr um það síðasta sumar að áralöng framkvæmd TR við búsetuskerðingar stæðist ekki. Velferðarráðuneytið (nú félagsmálaráðuneytið) viðurkenndi niðurstöðu Umboðsmanns og metur það svo að sá hópur sem verður fyrir búsetuskerðingum sé hlunnfarinn um hálfan milljarð króna á ári. 

Félagsmálaráðherra og önnur stjórnvöld hafa haldið því fram að fara þurfi yfir mál hvers og eins einstaklings til þess að reikna út endurgreiðslu. Fram hefur komið að TR ætli að ráða hóp fólks til þess að sinna þessu. Ráðherra fullyrðir að unnið sé af hraða og að allir sem eiga muni fá leiðréttingar. Hann var hins vegar ekki afdráttarlaus í svörum sínum í frétt Stöðvar 2 af málinu í vikunni. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ef okkur tekst að afla fjármagns til þessa, þá munum við flýta því eins fljótt og mögulegt er en síðan á haustþingi gerum við ráð fyrir frumvarpi til þess að skýra framkvæmdina,“ sagði Ásmundur Einar.

Ekki til að auka traust

„Þetta er mjög stórt „ef“ og ekki til að auka traust að ráðherra geti ekki verið afdráttarlaus,“ segir Þuríður Harpa. „Svo vil ég nú bara spyrja hvernig stendur á því að ekki sé hægt að endurgreiða eða hætta þessari ólöglegu framkvæmd fyrr en búið sé að fara yfir mál hvers og eins. Hvernig er stjórnvöldum stætt á því að ætla að skerða hverja og eina af þessum manneskjum með sama ólögmæta hættinum og hingað til. Það sjá allir að þessi málflutningur stenst enga skoðun og stjórnvöld hafa engar heimildir til að skerða fólk með þessum hætti. Við erum að tala um rosalegar skerðingar hérna. Það eru dæmi um að fólk fái aðeins 80 þúsund krónur á mánuði til framfærslu. Auðvitað gengur þetta engan veginn upp,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Frétt af heimasíðu Öryrkjabandalagsins, obi.is.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: