Tilefnið er ójöfn staða kynjanna. :
Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hér eftir nefndur JGH.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, hér eftir nefnd ÞSG.
JGH segist ekkert skilja:
Á einu langar mig þó að fá útskýringu hjá hæstvirtum ráðherra og varðar fjórða hlutann, hugræna vinnu kynjanna. Með leyfi forseta:
…að fanga kynjamynstur hugrænnar vinnu á Íslandi.
„Unnið verði að því að fanga kynjamynstur hugrænnar vinnu á Íslandi. Unnin verði eigindleg rannsókn á hugrænni vinnu með viðtalsviðbót við megindlega tímarannsókn sem Hagstofa Íslands gerði fyrir forsætisráðuneyti. Í eigindlegu rannsókninni verði rýnt betur í niðurstöður megindlegu rannsóknarinnar sem endurspegla hugræna vinnu og ósýnilega verðmætasköpun hennar. Markmið aðgerðarinnar verði að fanga umfang hugrænnar vinnu kynjanna á Íslandi.“
Ekki skánar það nú þegar farið er í útskýringarnar en ég hélt kannski að ég fengi einhverja útskýringu á þessum texta þar.
„Því er lagt til að unnin verði eigindleg rannsókn í formi viðtalsbókar til þess að ná betur utan um eðli hugrænnar vinnu. Þetta er í takt við áhersluatriði megindlegrar tímanotkunarrannsóknar Hagstofu Íslands og forsætisráðuneytis. Slík eigindleg rannsókn gæti fangað kynjaðan raunveruleika og nýst við stefnumótunarvinnu á sviði kynjajafnréttis.“
Virðulegur forseti. Það er margt gott í þessu en mér er algjörlega um megn að skilja og átta mig á hvað hér er á ferðinni. Ég vona að hæstvirtur dómsmálaráðherra geti útskýrt fyrir mér, og líklega mörgum öðrum sem eru að velta því fyrir sér, hvað þessi texti felur eiginlega í sér.“
…hversu framandi þessar hugmyndir eru honum…
ÞSG svarar:
„Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrir fyrirspurnina og áhugann á efninu. Þegar við erum að tala um kynjamynstur á Íslandi erum við t.d. að tala um ólíkan veruleika kynjanna. Ég vil t.d. kynna fyrir þingmanninum hugtakið þriðja vaktin. Mér finnst umhugsunarvert hversu framandi þessar hugmyndir eru honum, en þetta snýst um að veruleiki karla, kvenna og kynjanna er ekki hinn sami. Það megi rýna og rannsaka það. Flóknara er það nú kannski í sjálfu sér ekki.“
JGH fær orðið á nýjan leik:
„Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir að útskýra þetta sem einhvers konar útskýringu á þriðju vaktinni. Það hefði verið ágætt að benda ágætum embættismönnum á að það hefði kannski verið hægt að koma þessu á meira mannamál en þetta er kostnaðaráætlun upp á 3 milljónir.
Svo langar mig aðeins að velta fyrir mér lið 16, með leyfi forseta:
„Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða við úthlutanir úr Loftslags- og orkusjóði.
Unnið verði að greiningu á fyrirliggjandi kyngreindum gögnum í tengslum við styrkveitingar Loftslags- og orkusjóðs til kaupa einstaklinga á rafbílum, með sérstakri áherslu á að meta hvaða áhrif styrkveitingar hafi haft á jafnrétti kynjanna.“
Hér ræðir um úthlutanir styrkja til kaupa á rafbílum. Ég reyndi að lesa útskýringarnar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
„Kyngreind gögn um eignarhald nýskráðra bíla eftir orkugjafa sýna að karlar eru töluvert líklegri til þess að vera skráðir eigendur nýrra rafbíla.“
Það er ýmislegt og margt gott í þessu plaggi og vert að ræða betur í nefnd og annað en, virðulegur forseti, hér erum við komin út í — ég veit ekki alveg hvert við erum komin þegar við erum farin að kyngreina t.d. kaup á rafbílum og hvaða áhrif rafbílakaup munu hafa á kynin. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra bæði hvort það sé ekki ýmislegt hér sem við gætum alveg sleppt og einbeitt okkur að öðru sem skiptir meira máli og hvort þetta sé stóra málið, kyngreining á bílakaupum, á rafbílum.“
Hún er ekki stóra málið en hún er hluti af myndinni.
ÞSG fær orðið:
Háttvirtur þingmaður spyr: Er þetta stóra málið? Nei, þetta er ekki stóra málið en þetta er eitt þeirra mála sem hér er undir og er tillaga sem kemur úr umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Þingmaðurinn kemur hér upp og lúsles texta og virðist einhvern veginn markvisst vinna að því að svipta hann öll samhengi en er það veruleiki í málinu að konur og karlar hafa, eins og ég nefndi í framsöguræðu minni, ekki verið með sömu tekjur? Hefur það verið veruleiki, t.d. bara í hjónaskilnuðum, að karlinn hafi verið skráður fyrir eignunum? Getur verið að þetta birtist líka með þeim hætti í þessu samhengi? Auðvitað er hægt að taka svona klásúlu, lesa hana eins og við búum í samfélagi þar sem allir eru jafnir og engar mannlegar breytur hafi þýðingu og komast að því að tillaga 16 og 40 séu ekki stóra málið. Það er alveg hægt. Það er alveg hægt að lesa það þannig en þetta er ein tillaga af 40. Hún er ekki stóra málið en hún er hluti af myndinni.“
Endir.