- Advertisement -

Eitruð hnífsstunga í Valhöll

Enginn ábyrgur maður er ánægður með þetta.

Haukur Arnþórsson skrifar um Sjálfstæðisflokkinn.

Enginn stjórnmálaflokkur hér á landi hefur verið samheldnari en Sjálfstæðisflokkurinn. Það segir sig samt sjálft að skiptar skoðanir hafa verið um flest mál í jafn stórum flokki. Vinstri menn hafa oft horft öfundaraugum á hvað flokksmenn hans hafa getað stillt sig um að vinna gegn stefnu flokksins.

En nú ber nýrra við. Komið er fram klofningsmál í Sjálfstæðisflokknum þar sem óbilgjarnir menn fara fram með undirskriftasöfnun gegn forystunni – og vilja knýja fram kosningu innan hans um O3. Mjög erfitt er að sjá hvað fyrir þeim vakir, ef þeir vinna málið gæti komið upp krafa um að endurnýja í forystusveitinni. Er það það sem þeir vilja? Þannig er þessi undirskriftasöfnun einhver versta hnífsstunga sem forysta íslensks stjórnmálaflokks hefur orðið fyrir.

Undirskriftasöfnunin er einhver versta hnífsstunga sem forysta íslensks stjórnmálaflokks hefur orðið fyrir.

Enginn ábyrgur maður er ánægður með þetta. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið hægri sinnaður frá 1991 og veikur fyrir markaðsvæðingu og nýfrjálshyggju – á hann sögu sem stór miðjuflokkur. Jafnvel mátti líkja honum við sósíaldemókrataflokka Norðurlandanna í nokkrum mæli, en hann hefur myndað flesta félagsmálapakka síðustu áratugina – enda jafnan við stjórn í landinu. Flokkurinn átti drjúgan þátt í Breiðholtsverkefninu sem er eitt það besta sem stjórnvöld hafa gert fyrir fátækt fólk.

Og raunar er það þannig að núverandi forysta virðist ekki hægri sinnaðri en þingmenn annarra stjórnmálaflokka – heldur virðast kynslóðaskiptin í flokknum hafa skilað honum vönduðu nútímalegu framfarafólki á borgaralegan mælikvarða.

Við vitum ekki hvað við fáum ef Sjálfstæðisflokkurinn veikist mikið. Það er ekki spennandi að fá þjóðernissinnaðan eða mjög hægrisinnaðan öfgaflokk eða öfgaflokka. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Ég veit ekki á hvaða vegferð DO og SDG eru – og hvaðan sá uppreisnarandi kemur sem nú skekur Sjálfstæðisflokkinn. En mér er ljóst að biðlað er til fátæks fólks og þeirra sem hafa minnst traust til valdhafa yfirleitt, til eldra fólks og hræddra þjóðernissinna til hægri og vinstri – en hvert ferðinni er heitið mun koma í ljós. Það er verið að biðla til þess fólks sem vinstri menn hafa samkvæmt hefð haft í sínum röðum – og sósíalistar þurfa að bregðast við.

Þar sem O3 varðar einkum sameiginleg orkumál Evrópu og hefur lítið með Ísland að gera er allur málatilbúnaður gegn honum nálægt því að vera falsfréttir – hann virðist bara yfirvarp til þess að beina atkvæðum í ákveðnar áttir og veikja ábyrg stjórnvöld.

Ágæti lesandi – nei, ég er ekki sjálfstæðismaður, en það þjónar tæplega hagsmunum fátæks fólks að lýðskrumarar og þjóðernissinnar kljúfi Sjálfstæðisflokkinn og fái aukin völd.

Fyrirsögnin er Miðjunnar. Grein er fengin af Facebooksíðu Hauks.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: