- Advertisement -

Ekki bara fjármunir og eignir sem var stolið af fólki heldur hreinlega lífið sjálft

„Þúsundir heimila hafa verið hunsaðar í 17 ár og kominn tími til að þau fái uppreisn æru eftir að hafa setið með skömmina öll þessi ár. Raddir þeirra verða að fá að heyrast.“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.

Alþingi Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, sagði á Alþingi:

„Í gær voru 17 ár frá bankahruninu og enn er ekki búið að gera það upp. Nýju bankarnir fengu gríðarlega afslætti af lánasöfnum sem þeir yfirtóku en í stað þess að láta þá ganga til viðskiptavinanna nýttu þeir sér afslættina til að mynda hjá sér hagnað til framtíðar. Reikningurinn af misgjörðum fjármálavíkinga var sendur á fórnarlömb þeirra og heimilum í þúsundatali fórnað á altari bankanna og margir hafa aldrei náð að bera sitt barr síðan. Þetta voru einstaklingar og fjölskyldur sem báru nákvæmlega enga ábyrgð á því sem gerðist en var hegnt eins og verstu glæpamönnum. Fjárhagslegar afleiðingar þess að missa heimili sitt eru skelfilegar en það voru ekki bara fjármunir og eignir sem var stolið af fólki heldur hreinlega lífið sjálft, eins og í þessari frásögn sem eitt af tugþúsundum fórnarlamba bankahrunsins sendi mér og ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta:

„Árið 2015 var húsið okkar selt á nauðungaruppboði en þá vorum við búin að leita allra leiða og búin að gefast upp. Ég sat inni á baðherbergi í vinnunni og nötraði og skalf á milli þess sem ég kastaði upp meðan á uppboðinu stóð. Uppsöfnuð vanlíðan, spenna og óöryggi síðustu sjö ára fékk útrás þarna inni á þröngu baðherberginu. Tilfinningin sem helltist yfir mig þegar ég horfðist í augu við þann raunveruleika að baráttan væri töpuð og ekkert eftir var ólýsanleg. Verst finnst mér samt skömmin sem ég upplifi frá samfélaginu og eigið samviskubit, skömmin yfir að vera í þessum aðstæðum, skömmin yfir að vera á svörtum lista fjármálastofnana, samviskubitið yfir að hafa misst af dýrmætum árum sem ég hefði getað notað til að safna upp fyrir ýmsu, gera hluti sem mig dreymdi að gera með börnunum mínum og skapa þannig góðar minningar og geta ekki stutt þau fjárhagslega núna þegar þau eru komin á þann aldur að flytja að heiman og fara að búa sjálf, ég fæ þessi ár ekkert aftur, skömmin yfir að vera komin á fimmtugsaldur og eiga ekkert og hafa misst allt sem hægt er að kaupa fyrir peningana.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Hagsmunasamtök heimilanna hafa lengi barist fyrir því að gerð verði rannsóknarskýrsla Alþingis um það sem gerðist eftir hrun sem væri kennd við heimilin. Þúsundir heimila hafa verið hunsaðar í 17 ár og kominn tími til að þau fái uppreisn æru eftir að hafa setið með skömmina öll þessi ár. Raddir þeirra verða að fá að heyrast,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: