„Ég er búin að hafa mjög lítinn tíma til að pæla í því að ég sé forsætisráðherra og ég held að það sé bara fínt.“
Kristrún Frostadóttir.
Kratinn: „Þegar ég varð forsætisráðherra þá var það í fyrsta sinn sem ég hafði komið inn í forsætisráðuneytið. Ég hafði aldrei komið þarna inn. Ég hafði einhvern veginn aldrei verið í þannig stöðu. Ég hafði verið svo fjarri utan stjórnkerfisins að ég hafði aldrei einu sinni farið á fund inni í ráðuneyti.“
Þetta segir Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, í nýjasta hlaðvarpi Kratans aðspurð um hefði verið það fyrsta sem hún hugsaði um þegar hún gekk inn í stjórnarráðið og settist í stólinn í desember í fyrra.
Hún man sérstaklega eftir því að hafa gengið inn á salernið sem er innan af skrifstofu forsætisráðherra. „Ekki út af salerninu sjálfu heldur man ég eftir því hvernig mér leið þegar ég labbaði inn, lokaði að mér, leit í spegil og hugsaði bara, sjitt sko.“
…furðulegt að vera kölluð forsætisráðherra.
Kristrún segir að hlutirnir hafi gerst það hratt eftir kosningar og stjórnarmyndun að hún fékk ekki tíma til að móta sér fyrir fram ákveðnar skoðanir um hvernig það yrði að gegna starfi forsætisráðherra. „Ég var ekkert búin að hugsa um hvernig ráðherra ég yrði. Ég var einhvern veginn bara mætt í vinnuna. Og þannig hefur þetta eiginlega svolítið verið flesta daga, af því að þetta er búið að gerast svo hratt. Ég er búin að hafa mjög lítinn tíma til að pæla í því að ég sé forsætisráðherra og ég held að það sé bara fínt. Þú ert þá minna að hugsa um embættið og meira að mæta bara í vinnuna.“
Fyrstu dagana fannst Kristrúnu mjög furðulegt að vera kölluð forsætisráðherra. Að heyra bílstjórann segja í talstöðina að forsætisráðherra væri að koma eða að vera á viðburði þar sem hún var ávörpuð sem slíkur. „En þetta er bara embættistitill.“
Greinin er fengin. Úr Kratanum, málgagni Samfylkingarinnar.