- Advertisement -

Endurskoðendum vísað frá dómi

- dómarinn segir málið vanreifað og tók það ekki til dóms

Þessi „þögn“ leiddi síðan til þess að stefnandi vísaði í málflutningi til málsástæðna um brostnar forsendur og vanefndir, sem á engan hátt koma fram í stefnu.

Símon Sigvaldason, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefur vísað frá dómi tveimur málum sem Íslenskir endurskoðendur hófu gegn Endurskoðendaþjónustunni.

„…er mál þetta stórlega vanreifað af hálfu stefnanda. Atvika er nánast í engu getið,“ segir orðrétt í báðum dómunum.

Tekist var á um talverða peninga. Íslenskir endurskoðendur vildu að hinir greiddu annars vegar  6.879.429 krónur ásamt dráttarvöxtum og til greiðslu innheimtuþóknunar að fjárhæð 601.230 krónur ásamt dráttarvöxtum, auk málskostnaðar. Og hins vegar að Endurskoðendaþjónustan greiddi 4.861.280 krónur ásamt dráttarvöxtum og eins innheimtuþóknun að fjárhæð 520.027 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt , sem og málskostnaðar.

Símon dómari segir í forsendum dómsins: „Um alla þessa þætti er hér að ofan greinir er mál þetta stórlega vanreifað af hálfu stefnanda. Atvika er nánast í engu getið. Þessum samningum, sem mynda réttarsamband aðila, er ekki lýst eða þeir lagðir fram. Þar er þó að finna ákvæði um þóknun á milli aðila, sem ágreiningur er um. Ágreiningur er um hvort samningum hafi verið rift og þá hverjum þeirra. Ekkert er um þetta fjallað eða út frá hvaða reglum samninga aðila rétt sé að krefja um þóknun. Þessi „þögn“ leiddi síðan til þess að stefnandi vísaði í málflutningi til málsástæðna um brostnar forsendur og vanefndir, sem á engan hátt koma fram í stefnu. Með hliðsjón af þessu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi án kröfu. Stefndi hafði uppi frávísunarkröfu í greinargerð sem hann féll síðar frá. Hann reifaði þó atriði tengd frávísun í málflutningi og gafst aðilum því færi á að reifa sjónarmið um vanreifun.“

Sem fyrr segir voru málin tvö, keimlík. „Rétt hefði verið að höfða eitt mál um þessi sömu sakarefni,“ skrifar Símon dómari Sigvaldason.

Lögmaður Íslenskra endurskoðenda var Ólafur Karl Eyjólfsson héraðsdómslögmaður og Hjalti Steinþórsson hæstaréttarlögmaður var lögmaður Endurskoðendaþjónustunnar.

 

Fyrri dóminn má lesa hér og þann síðari hér.

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: