- Advertisement -

Er heilbrigðiskerfið okkar magnað kerfi?

Ásmundur Friðriksson á Landspítalanum.

„Íslenska heilbrigðiskerfið er ótrúlega magnað kerfi,“ skrifar þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson. Er það svo?

Við erum eflaust allt of mörg sem tökum ekki undir fögnuð þingmannsins. Mér er óljúft að skrifa um sjálfan mig, en ætla samt að gera það.

Fyrir nokkrum árum slasaðist ég nokkuð illa. Taugaskemmdir sjá til þess að ég er með stöðuga verki. Stundum allt of mikla. Oft óþolandi. Margt hefur verið reynt. Reykjalundur var það besta. Svo kom að verkasviði Landspítalans. Fyrir um ári var reynt að sprauta sterum þar sem verkirnir myndast. Það dugði örfáa daga. Þá var næst að reyna einhverskonar rafaðgerð. Svo kom Covid. Það var hringt og sagt að þess vegna yrði að fresta „aðgerðinni“. Ég beið og ég beið og ég beið.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Svo hringdi konan. Þá var sagt að læknirinn væri hættur.

Svo hringdi konan. Þá var sagt að læknirinn væri hættur. Lofað var að bera mitt mál undir aðra lækna og við yrðum strax látin vita. Nú bíð ég og bíð ég og bíð ég.

Kannski er íslenska heilbrigðiskerfið ótrúlega magnað kerfi. Það er kannski rétt hjá Ásmundi.

Þegar verkirnir verða hvað verstir hugsa ég mér hvort ekki sé léttast að hætta þessu bara. Stökkva fyrir björg. En það er ábyrgðarleysi. Þannig hugsunum verður að ýta frá sér. Þær er samt ekki hægt að deyða. Þær koma aftur og aftur og aftur.

Hvað með allt hitt fólkið sem er með ámóta verki og býr kannski ekki við góða félagslega eða fjárhagslega stöðu. Hefur það stokkið fyrir björg?

Betra er að segja nei strax en draga fólk á asnaeyrunum í langan tíma.

Aftur að þingmanninum:

„Ég fékk að reyna það fyrir tæpri viku síðan þegar ég fékk nýjan gervilið í vinstra hné,“ skrifar hann hrósi sigrandi. „Var fyrir með svokallaðan hálfan lið sem var settur í hnéð árið 1998 og síðan í hægra hnéð 2004 og hefur dugað ótrúlega vel miðað við það sem áætlað var á þeim tíma. Ég hef því farið í 3 liðskiptaaðgerðir á hnjánum og hálfi liðurinn í hægra hnénu verðu líklega skipt út á næstu árum.“

Rétt er að óska Ásmundi góðs bata. Samt verður hann að vita að heilbrigðiskerfið er ekki eins stórfenglegt og hann heldur. Alls ekki.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: