- Advertisement -

„Eymdin, fátæktin er að aukast“

Sjáum til þess að þeir sem þurfa mest á því að halda fái hjálp, en ekki allir.

„Eymdin, fátæktin er að aukast,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi í dag. Grípum niður í ræðu hans:

„Þarna var eingöngu verið að tala um atvinnulausa. Og hvað gerir hún kröfu um að atvinnulausir hafi? Jú, um að grunnvísitölubætur verði 95% af lægstu launum á vinnumarkaði samkvæmt kjarasamningum, eða 318.250 kr. fyrir skatt. Það er engin ofrausn, en það er ömurlegt að tóra á 240.000 kr. eftir skatt. Þarna er verið að biðja um að hækka bætur í t.d. 260.000 kr. á mánuði. Það er engin ofrausn en það hjálpar. En hvað er þá hægt að segja um eldri borgara og öryrkja sem verða að sætta sig við að svelta á 220.000 kr. á mánuði eftir skatt? Sú upphæð skerðist núna vegna hækkunar á matvörum og öðrum nauðsynjum. Fólk í áhættuhópum gagnvart veirunni verður að vera inni í einangrun og fá matvöru og aðrar nauðsynjar sendar heim með tilheyrandi kostnaði, en það hefur ekki efni á því. Það verður að fara út í búð, er óvarið vegna þess að það hefur ekki efni á að kaupa grímur. Hvaða skilaboð fá eldri borgarar og veikt fólk sem er sára fátækt í boði ríkissjóðs? Jú, ríkisstjórnin ætlar að verja stöðuna, verja það að stór hópur fólks reyni að lifa af við þessar ömurlegu aðstæður. Þvílíkur metnaður. Ekki þýðir að senda fólkið á hjálparstofnanir því að það er aukningin frá 50% upp í 200%. Ekki geta allir heilsu sinnar vegna komið þangað. En hvað segir það okkur? Eymdin, fátæktin er að aukast.“

Síðar í ræðu sinni sagði Guðmundur Ingi:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á hvaða leið erum við?

„Er ekki ömurlegt að metnaðarlaust markmið þessarar ríkisstjórnar eigi áfram að bitna á þeim sem verst eru staddir? Jú, það er stór hópur þarna úti sem er í þeirri ömurlegu aðstöðu að lifa við það að vera launalaus, t.d. listamenn, þeir eru algerlega launalausir. En það er annar hópur fólks sem reynt hefur það á eigin skinni að þurfa að lifa mánuði, jafnvel ár, gjörsamlega launalaus, veikur. Þetta fólk er á almannatryggingakerfinu og hefur einhverra hluta vegna hlotnast einhver smápeningur sem síðan er tekinn, króna á móti krónu, af þeim aftur. En núna er metnaðurinn 65 aurar á móti krónu. Metnaðurinn er svo mikill hjá þessari ríkisstjórn að við samþykktum nauðug núna í haust krónu á móti krónu skerðingar aftur inn í kerfið fyrir þá sem eru með búsetuskerðingar. Hvað segir þetta okkur? Á hvaða leið erum við? Ég segi: Breytum þessu strax. Sjáum til þess að þeir sem minnst mega sín og þurfa mest á því að halda fái hjálp, en ekki allir.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: