- Advertisement -

„Féflettar“ borgi auðlegðarskatta

Nú hafa svonefnd „fasteignafélög“ skráð sig á markað.

Ragnar Önundarson skrifar:

Áður efnuðust menn á atvinnurekstri. Þeir vörðu sínu eigin fé í framleiðslutæki og sköpuðu öðrum atvinnu. Þeir höfðu flestir, kannski næstum allir, í æsku sinni þekkt hvað það var að þurfa að velta hverri krónu fyrir sér og þrátt fyrir velgengni bjó reynslan af fátæktinni alltaf í huga þeirra. Þeir vissu að fyrirtækin þeirra gátu ekki dafnað án góðra starfsmanna og mátu þá þess vegna mikils. Það mætti telja upp ótal frumkvöðla sem þetta gildir um.

Í seinni tíð hafa menn auðgast með allt öðrum hætti. Samheitið „eignatilfærslur“ hefur verið notað um aðferðir sem sérfróðir fjármálamenn nota til að raka til sín auði sem aðrir hafa skapað. Rifjum upp nokkrar:

Þú gætir haft áhuga á þessum
Aldraðir misstu ævisparnað sinn (almannafé) og lífeyrissjóðir þeirra (almannafé) voru rýrðir.
Mynd: Eberhard Grossgasteiger.

1). Verðbólgugróðinn árin ca. 1975-1985 varð vegna neikvæðra raunvaxta. Aldraðir misstu ævisparnað sinn (almannafé) og lífeyrissjóðir þeirra (almannafé) voru rýrðir. Það voru stjórnvöld sem ákváðu vextina, ungt fólk sem fékk lán þrýsti á um lága vexti og sá skuldir sínar gufa upp á fáum árum. Eignamyndun þess var skattfrjáls.

2). Úthlutun fiskveiðikvótans 1984, án afgjalds fyrir notkun hans, fól í sér ráðstöfun sem tók „margt smátt“ frá almenningi (almannafé) sem gerði „fátt stórt“ hjá nokkur hundruð útgerðum. Tilfærslan fólst í afgjaldsleysinu.

3). Framseljanleiki kvótans 1991 fól líka í sér eignatilfærslu af sömu ástæðu. Kvótinn tók afgjaldslaust að þjappast saman. Á móti kom að vegna þeirrar hagræðingar í sjávarútvegi sem af þessu leiddi styrktist raungengið og almenningur naut vaxandi kaupmáttar á móti. Um leið þrengdi gengið að greininni í heild, svo smærri útgerðir gáfust upp ein af annarri, sem keyrði samþjöppunina áfram. Þessi þróun varð mörgum byggðarlögum erfið en þjóðinni sem heild hagfelld.

4). Einkavæðing felur jafnan í sér að svonefndum „kjölfestufjárfestum“ eru afhentar ríkiseignir (almannafé) á vægu verði, sem þeir vinna svo með í fáein misseri og skrá á markaði. Oftast selja menn svo á háu verði, það eru einkum lífeyrissjóðirnir okkar (almannafé) sem kaupa. Fjárfestarnir stinga milljörðum af almannafé á sig, allt löglegt.

Framseljanleiki kvótans 1991 fól líka í sér eignatilfærslu af sömu ástæðu. Kvótinn tók afgjaldslaust að þjappast saman.

5). Eignarhald á bönkum felur mikil völd í sér. Ráðandi hluthafar úthluta lánum sem að miklu leyti eru fjármögnuð með sparifé almennings (almannafé). Vinir og vandamenn ráðandi hluthafa njóta forréttinda-aðstöðu, þeir stofna innantómar skeljar, svonefnd „eignarhaldsfélög“, skuldsetja þau án þess að setja veð sem aðrir þurfa að setja, kaupa bóluverðmæti (hlutabréf, fasteignir) sem þeir selja svo þegar hápunktur hagsveiflunnar nálgast. Hver kaupir? Við, þ.e. lífeyrissjóðirnir (hlutabréfin) og almenningur (fasteignirnar).

6). Óhóflegur gróði af nýbyggingum (nú um 50-100% álagning) er ekkert annað en eignatilfærsla frá almenningi, sem þarf að kaupa þak yfir höfuðið á uppsprengdu verði, til örfárra verktaka, í ljósi skortsins. Hið opinbera, sveitarfélög og félagsmálaráðuneyti, hafa með tómlæti sínu séð skortinn verða til fyrir framan nefið á sér.

Þetta eru helstu flokkar eignatilfærslna undangenginna ára. Nú hafa svonefnd „fasteignafélög“ skráð sig á markað. Þau hafa keppt við almenning í skortinum og haft betur. Afleiðingin er uppsprengt verð á örlitlum ófullkomnum markaði. Hverjum er ætlað að kaupa? Okkur! Lífeyrissjóðunum okkar.

Menn geta orðið milljónamæringar á atvinnurekstri á löngum tíma með mikilli áhættu og fyrirhöfn, en menn verða milljarðamæringar með eignatilfærslum á örstuttum tíma án nokkurrar fyrirhafnar. Það er alveg sjálfsagt mál að þessir „féflettar“ almennings borgi auðlegðarskatt. Þessi afstaða mín á ekkert skylt við öfund.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: