- Advertisement -

Flokkarnir sem áttu að þjóna verkafólki

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: Á síðustu öld náði almenningur miklum árangri í gegnum baráttu sína innan verkalýðshreyfingarinnar; tókst að hafa afgerandi áhrif á mótun heilbrigðis- og menntakerfisins, náði vissum árangri í uppbyggingu félagslegra íbúða, tókst að tryggja lífeyri fyrir þau sem gátu ekki unnið vegna öldrunnar, fötlunnar eða veikinda, einnig framfærslu fyrir nemendur. Ekki tókst að umturna þjóðskipulaginu, hin ríku voru enn valdamikil og fátt var gert sem þau sættu sig ekki við. En með samtakamætti tókst almenningi að vinna sigra á afmörkuðum svæðum; stytta vinnutíma, innleiða sumarfrí, tryggja atvinnuleysisbætur og verja tiltekin svæði samfélagsins fyrir gróðasókn hinna ríku; heilbrigðis- og menntakerfin og hluta húsnæðiskerfisins.

Hin ríku styrktust

Hluti af baráttunni fór fram á þingi og í sveitastjórnum þar sem fulltrúar þeirra flokka sem spruttu af verkalýðsbaráttunni höfðu forystu um að lögleiða sumt af kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Þegar klofnaði á milli verkalýðshreyfingarinnar og þeirra stjórnmálaflokka, sem hún hafði getið af sér og ætlað var að þjóna félögum hreyfingarinnar, dró fljótt úr árangrinum af baráttunni. Hin ríku náðu að styrkja stöðu sína og tóku til við að grafa undan réttindum launafólks, velferðarkerfinu, hinu félagslega húsnæðiskerfi og framfærslu þeirra sem ekki gátu unnið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nýfrjálshyggjan stráði efasemdum

Eitt af tækjum nýfrjálshyggjunnar til að grafa undan samfélaginu voru efasemdir um umboð fólks til að tala í nafni almannahagsmuna. Efaðist var um umboð forystu verkalýðsfélaga til að gera kröfur um uppbyggingu velferðarkerfsins eða húsnæðis sem þjóni almenningi. Nýfrjálshyggjan efaðist líka um umboð kjörinna fulltrúa flokkanna, þeirra sem urðu til af baráttu verkalýðshreyfingarinnar, til að tala máli launafólks og almennings. Bæði verkalýðshreyfingin og stjórnmálaflokkarnir sem hún gat af sér sættust við þessar kenningar nýfrjálshyggjunnar. Verkalýðshreyfingin dró sig inn í skel og stjórnmálaflokkarnir fóru að leita að nýju erindi og umboði, einkum á miðju stjórnmálanna og hjá millistéttinni. Verkalýðsbaráttan var ekki lengur krafa um breytt samfélag heldur fyrst og fremst samningar um launakjör. Stjórnmálabaráttan var ekki krafa um að samfélagið yrði mótað að hagsmunum hinna verst settu, hinna kúguðu og valdalitlu, heldur einskonar uppboðsmarkaður hugmynda sem ætlað var að vekja áhuga hinnar ímynduðu miðju; meðaltalsins, hins almenna sem átti þó ekki að hafa andstæðastæða hagsmuni gegn peningavaldi hinna ríku.

„Bæði verkalýðshreyfingin og stjórnmálaflokkarnir sem hún gat af sér sættust við þessar kenningar nýfrjálshyggjunnar.“

Erindisleysið afhjúpast

Nú er verkalýðshreyfingin að vakna upp af nýfrjálshyggjunni. Út um allt land er fólk að móta kröfur um réttlátara skattkerfi, húsnæðiskerfi sem þjónar almenningi og um að meginkerfi samfélagsins þjóni hinum mörgu en ekki fyrst og síðast hinum fáu. Í þessari vakningu er falin von um umbreytingu stjórnmálanna, að þau kunni að snúast um hagsmuni hinna verr stæðu á næstu áratugum.

En við þessa vakningu afhjúpast erindisleysi þeirra stjórnmálaflokka, sem eitt sinn voru tengdir verkalýðshreyfingunni baráttuböndum; flokka sem fyrr mátu árangur sinn eftir því hversu vel þeir gátu þjónað félögum verkalýðshreyfingarinnar.

Þingflokkur Vinstri grænna.
„Seta Vg í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins verður fráleitari með hverjum deginum.“ Ljósmynd: RÚV.

Staða Vg fráleit

Seta Vg í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins verður fráleitari með hverjum deginum. Veik stjórnarandstaða Samfylkingarinnar og getuleysi flokksins til að styðja þær kröfur sem eru að byggjast upp til innan verkalýðshreyfingarinnar afhjúpar flokkinn sem tækifærissinnaðan miðjuflokk. Vera beggja flokka í meirihlutasamstarfi í Reykjavíkurborg með Viðreisn, stjórnmálaarmi SA (Samtök arðræningja), dregur fram að hugmyndastefna þessara flokka skarast ekki að ráði viðstefnu þeirra flokka sem halda harðast fram óblandaðri nýfrjálshyggju.

Verja hagsmuni hinna ríku

Það er margt sem hrundi 2008. Eitt af því er sú stjórnmálamenning sem ríkti áratugina fyrir Hrun. Þetta á ekki aðeins við um Ísland heldur um öll Vesturlönd. Sú hugmyndalega endurnýjun sem víða má sjá innan sósíalískra flokka er að skjóta rótum í verkalýðshreyfingunni. En hinir fyrrum sósíalísku flokkar, Samfylkingin og Vg, hafa ekki náð að endurnýja sig. Í stað þess að taka þátt í upprisu láglaunafólks og taka undir kröfur þess reyna þessir flokkar að verja hagsmuni hinna ríku í ríkisstjórn og borgarstjórn.

Fólk sem býr við efnahagslega stöðnun

Bæði ríki og borg beita launafólk harðkjarna láglaunastefnu og veigra sér ekki við að skipta við starfsmannaleigur til að brjóta niður réttindi launafólks og grafa undan lífskjörum þeirra. Ríki og borg eru í bandalagi um aðgerðarleysi gagnvart húsnæðiskreppunni sem grefur undan lífskjörum fólk með lág laun og lægri miðlungslaun og fólk á lífeyri eða námslánum.

„Ríki og borg eru í bandalagi um aðgerðarleysi gagnvart húsnæðiskreppunni sem grefur undan lífskjörum fólk með lág laun og lægri miðlungslaun og fólk á lífeyri eða námslánum.“

Húsnæðiskreppan ásamt hrörnun skattkerfisins á umliðnum árum hefur leitt til þess að allur ávinningur láglaunafólks af lengsta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar hefur orðið enginn. Þetta fólk býr við algjörlega efnahagslega stöðnun og er skiljanlega að rísa nú upp.

Hvert er erindi þessa fólks?

Og þegar línurnar í samfélagsátökunum eru að skýrast og ljóst verður um hvar víglínurnar munu liggja á komandi árum verður erindisleysi stjórnmálafólksins sem tók yfir flokkanna, sem verkalýðshreyfingin gat af sér á síðustu öld, sorglegt og sláandi. Hvaða erindi á fólk í þessum flokkum á þing eða í sveitastjórnir ef ekki til að þjóna verkalýðshreyfingunni? Ekkert. Og það sést nánast daglega.

Fyrirsagnir og myndaval er Miðjunnar.

„Hvaða erindi á fólk í þessum flokkum á þing eða í sveitastjórnir ef ekki til að þjóna verkalýðshreyfingunni? Ekkert. Og það sést nánast daglega.“

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: