- Advertisement -

Fólk fjármagni aðstoðina úr eigin vasa

Var ekki ráð að lækka skattaálögur á einstaklinga frekar en banka?

Álfheiður Eymarsdóttir:

Ég heyri of mikinn enduróm af aðgerðum í og eftir efnahagshrun frá þessari ríkisstjórn. Þar er einkum tvennt sem er gagnrýni vert.

Í fyrsta lagi eiga bankarnir (aftur) að taka ábyrgð á ákvörðunum um hvaða fyrirtæki og einstaklingar fá grið og hverjir ekki. Ég tel að bankarnir hafi sýnt það fyrir hrun, í hruninu og eftir hrun að þeim er ekki treystandi til að taka þessar ákvarðanir. Hér gildir að hafa skýr viðmið um hvað teljist arðbær fyrirtæki og hver ekki og geta rökstutt hverja einustu ákvörðun byggða á þessum viðmiðum -sem var aldrei gert í kringum hrunið, heldur virtist ákvarðanataka bankanna mjög handahófskennd og því mikil tortryggni almennings um mismunun, greiða fyrir vini og vandamenn og að almenn græðgi og annarleg sjónarmið réðu ferðinni frekar en skýr og fagleg viðmið. Þessi tortryggni var oft á rökum reist.
Það er ekkert sem bendir til þess að bönkum og fjármálastofnunum lánist betur í þetta sinn. Þau fá aflétt bankaskatti og rýmkaðar reglur um eiginfjárhlutfall sem gera það að verkum að það er hægt að fara illa með enn meira fé en áður. Það er alls ekki víst að þetta skili sér til „réttra “ fyrirtækja, hvað þá einstaklinga/launþega.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í öðru lagi er einstaklingum (aftur) gefinn kostur á að taka út séreignasparnað til að létta sér róðurinn. Séreignasparnaður eru fjármunir sem aldrei má taka af þér. Þó einstaklingur verði gjaldþrota þá er séreignasparnaðurinn alltaf verndaður til elliáranna. Það er hægt að taka allt af þér, lendir þú í vandræðum, nema séreignasparnaðinn (og annan lífeyrissparnað).

Það er því sama sagan: Handvalin fyrirtæki (sum, alls ekki öll) fá aðstoð ef bönkunum þóknast – en einstaklingar skulu fjármagna aðstoð sína sjálfir í gegnum eigin séreignasparnað.

Af hverju fá bankar aflagðan bankaskatt ? Var ekki nóg að rýmka bindiskylduna? Var ekki ráð að lækka skattaálögur á einstaklinga frekar en banka?

Ps. Fagna öðrum úrræðum eins og hlutastarfalausn en önnur virðast súrrealísk eins og gjafabréf í ferðalög innanlands.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: