Fyrir skömmu var til umfjöllunar hörð gagnrýni embættis innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar varðandi sleifarlag í undirbúningi samninga um bensínstöðvalóðir.
Einar Þorsteinsson.
Borgarráð: „Reykjavíkurborg er að fara nýja leið í húsnæðis- og innviðauppbyggingu. Unnið verður með samstarfsaðila í innviðafélagi þar sem markmiðið er að byggja upp innviði í nýju hverfi hraðar en hefur þekkst, þannig að íbúðir og hverfi rísi hratt en örugglega upp,“ segir í bókun meirihlutans í borgarráði.
Þar segir og: „Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir tekjulága og unga íbúa sem þarf að byggja fyrir. Vinna þessi hófst með áherslum í samstarfssáttmála þar sem framkemur að: Hröð húsnæðisuppbygging og örugg heimili fólks eru lykilmál nýs samstarfs í borginni. Efnt verður til sameiginlegrar vinnu Reykjavíkur og verkalýðsfélaga með það að markmiði að stofna félag um þróun nýrra svæða og fara nýjar leiðir við skipulag, uppbyggingu innviða og fjármögnun þeirra. Tillagan sem var samþykkt í dag felur í sér að skipaður verði starfshópur sem verði falið að hefja undirbúning að samstarfi við innviðafélag um þróun og uppbyggingu nýs íbúðarhverfis í Höllum.“
Borgarráðsfólk Sjálfstæðisflokksins sat hjá. Það gerði Einar Þorsteinsson Framsóknarflokki alls ekki. Hann sagði:
„Borgarfulltrúi Framsóknar gagnrýnir harðlega stjórnsýslu meirihlutans í þessu máli. Það er vanvirðing við borgarráð að kynna svona ákvörðun í fjölmiðlum áður en borgarráði hefur gefist tækifæri til að fjalla um málið. Borgarstjóri er þannig umboðslaus á blaðamannafundi í gær að kynna áætlun sem varðar hagsmuni borgarbúa sem nema milljörðum. Borgarfulltrúi Framsóknar gagnrýnir einnig að þessi tæplega 200 blaðsíðna skýrsla skuli ekki vera formlega kynnt í borgarráði. Eðlilegast hefði verið að fulltrúar frá fjármála- og áhættustýringarsviði, áhættustjóri borgarinnar, borgarlögmaður auk fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs hefðu kynnt ólíkar sviðsmyndir og gert borgarráði ítarlega grein fyrir því hvers vegna meirihlutinn ákveður að velja eina sviðsmynd umfram aðra. Þá gerir Framsókn athugasemd við að gögnin eru óskýr og ósamræmi um stærð uppbyggingarsvæðis og fjölda íbúða. Fyrir skömmu var til umfjöllunar hörð gagnrýni embættis innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar varðandi sleifarlag í undirbúningi samninga um bensínstöðvalóðir. Ljóst er að meirihlutinn tekur ekkert mið af alvarlegum ábendingum embættisins í því máli.“
…laumað inn í borgarráð undir sakleysislegu yfirbragði…
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Viðreisn bókaði: „Það er forkastanlegt að risamáli eins og húsnæðisuppbyggingu, mögulegu innviðafyrirtæki og nýjum leiðum í uppbyggingarmálum sé kastað inn í borgarráð með litlum sem engum fyrirvara. Stóru uppbyggingarmáli laumað inn í borgarráð undir sakleysislegu yfirbragði starfshóps en er í raun stefnumiðandi ákvörðun um leiðir og aðferðir í dýrri húsnæðisuppbyggingu í Úlfarsárdal. Borgarfulltrúi Viðreisnar fór fram á að málinu sé frestað og borgarráð fái góða kynningu á málinu og hafi tækifæri til að ræða leiðir sem fara á í þessu annars spennandi verkefni. Borgarfulltrúi mótmælir harðlega svona hraðvirknis vinnubrögðum samstarfsflokkanna.“