- Advertisement -

Greiða á skuldina við aldraða og öryrkja og hætta að níðast á þeim

Síðan hefur yfirstéttin mokað til sín fjármunum. Yfirstéttin gleymir ekki sínum.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna 2009-2013 fékk það erfiða verkefni að afstýra þjóðargjaldþroti, sem var yfirvofandi.

Stjórnin þurfti að rétta fjárhag ríkisins við og gerði margar sársaukafullar ráðstafanir í því skyni. Til dæmis hækkaði hún skatta og skerti tekjur (kjör) margra. Laun embættismanna, þingmanna og ráðherra voru skert en það sem var þó allra verst var, að kjör aldraðra og öryrkja voru einnig skert. Þeim, var að vísu hlíft , sem voru á „strípuðum“ lífeyri. Kjör þeirra voru ekki skert. En annarra aldraðra og öryrkja. Til dæmis var grunnlífeyrir skertur hjá þeim, sem höfðu góðan lífeyrissjóð og frítekjumark vegna atvinnutekna var skert úr 109 þús. krónur á mánuði í 40 þús. á mánuði og fl.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Embættismenn, þingmenn og ráðherrar fengu strax leiðréttingu á launaskerðingu sinni

Þessir aðilar voru að vísu ekki þeir verst stöddu meðal aldraðra og öryrkja. En ei að síður mótmælti ég þessum ráðstöfunum innan Samfylkingarinnar. Ég taldi, að ekki hefði átt að skerða kjörin neitt hjá öldruðum og öryrkjum. Ég gagnrýndi þetta einnig harðlega í blaðagreinum. Kjaranefnd Félags eldri borgara í Rvk. mótmælti þessu einnig harðlega.

Embættismenn, þingmenn og ráðherrar fengu strax leiðréttingu á launaskerðingu sinni tveimur árum síðar. Yfirstéttin gleymir ekki sínum. En ekki er enn búið að leiðrétta að fullu kjaraskerðinguna, sem aldraðir og öryrkjar urði fyrir 1. júlí 2009. Grunnlífeyrir var tekinn upp á ný að hluta 2013 en felldur alveg niður aftur 1. janúar 2017.

Hringlað hefur verið með frítekjumark vegna atvinnutekna fram og aftur og látið nú eins og mikil afrek hafi verið unnin á því sviði. Þó er frítekjumarkið ekki einu sinni komið upp í það sama og það var fyrir hrun.

Það sem skiptir þó mestu máli er eftirfarandi: Kjaragliðnun krepputímans, 2009-2013, hefur ekki verið leiðrétt: Laun hækkuðu miklu meira en lífeyrir á þessu tímabili. Í því fólst kjaragliðnunin. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur lofuðu því fyrir kosningar 2013 að leiðrétta kjaragliðnunina með hækkunum lífeyris, ef þeir kæmust til valda. SVIKU ÞAÐ BÁÐIR.

Síðan hefur yfirstéttin mokað til sín fjármunum, þingmenn hækkað um 70% í launum, ráðherrar um 64% og embættismenn um 48% og 18 mánuði afturvirkt! En það er ekki enn farið að skila öldruðum og öryrkjum kjaraskerðingunni frá 1. júlí 2009 að fullu.-

Það er tímabært að gera upp við aldraða og öryrkja; greiða skuldina við þá að fullu, hætta að níðast á þeim og borga þeim skuldina. Þeir hafa ekki efni á að lána ríkinu þetta lengur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: