- Advertisement -

Grófar falsanir Þorsteins

Björgvin Guðmundsson.

Umræðan Félagsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, birtir grein í Fréttablaðinu í dag með grófum fölsunum um kjör aldraðra. Þar segir hann, að aldraðir séu í forgangi og kjör þeirra hafi verið bætt mikið!!

Ráðherrann telur sig sennilega vita betur hvernig kjör þeirra eru en þeir sjálfir.Ráðherra heldur áfram að segja,að „heildartekjur“ aldraðra hafi aukist um 24% 2017. Þar telur hann með lífeyri frá almannatryggingum, fjármagnstekjur, atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur o.fl. og gefur til kynna að það sé verk stjórnvalda að aðrar tekjur eins og lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur hafi hækkað, sem er alger fölsun. Það er mjög einfalt að sjá hvað lífeyrir aldraðra hækkaði vegna nýju laganna frá síðustu áramótum.

Lífeyrir aldraðra í hjónabandi hækkaði um 12 þúsund kr á mánuði, í 197 þúsund kr eða um 6,5% en ekki 24% eins og ráðherra heldur fram. Hér er átt við þá eldri borgara, sem höfðu eingöngu tekjur frá TR. Laun félagsmálaráðherra hækkuðu hins vegar um 45% og fóru í 1,8 millj. á mánuði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það friðar ef til vill samvisku félagsmálaráðherra, þegar hann sér, að aldraðir hafa 197 þús kr á mánuði, að halda því fram að þeir hafi hækkað um 24% en ekki 6,5%. En þeir, sem hafa aðeins 197 þúsund á mánuði eiga ekkert auðveldara með að framfleyta sér þó ráðherra fari í þessa talnaleikfimi. Síðan heldur ráðherra því einnig áfram að tala um hvað stjórnvöld láti marga milljarða í málefni aldraðra og segir, að fram til 2018 hækki upphæðin um 24 milljarða. Það er einnig fölsun.

Eins og ég hef þegar sýnt fram á með tölum frá velferðarráðuneytinu sjálfu (kostnaðarmati með frumvarpinu að nýju lögunum) eykst kostnaður um 3,3 milljarða á ári en ekki 24 milljarða eins og ráðherra segir.

Ráðherra segir einnig,að það sé ekki óhagstæðara að vinna fyrir aldraða nú en áður. Þar lemur hann einnig hausnum við steininn. Þegar hver eldri borgarinn á fætur öðrum hefur komið fram og sagt, að það borgi sig ekki lengur að vinna, kemur féagsmálaráðherra og segir, að það sé rangt. Það sé ekkert verra að vinna en áður! Þetta eru ný vinnubrögð í stjórnmálum á íslandi: Að segja að hvítt sé svart og svart sé hvítt og endurtaka lygina síðan nógu oft!

Björgvin Guðmundsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: