- Advertisement -

Hækkun skatta á hin ríku er í raun lækkun skatta á hin ríku

Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn getur fært hinum ríku veglega skattalækkun.

Gunnar Smári skrifar:

Hæstu verðtryggðir vextir á bankareikningum í Landsbankanum, bundnir reikningar barna fram að 18 ára aldri, eru 0,5%. Með því að hækka frítekjumarkið úr 150 þús. kr. í 300 þús. kr. verða vaxtatekjur barna sem eiga meira en 30 m.kr. inn á bankareikningi ekki aðeins skattfrjálsar heldur barna sem eiga allt að 60 m.kr. í banka. Hafið það í huga sem lásuð þessa fyrirsögn og hélduð í smástund að þarna væri Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, að efna gamalt loforð til eftirlaunafólks. Neibb, hann var ekki með það fólk í huga, hefur ekki hugsað til þess síðan fyrir síðustu kosningar þegar hann lofaði þessu síðast. Hann er að hugsa um börn ríka fólksins.

En Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti þetta auðvitað ekki svona.

Og auðvitað ríka fólkið sjálft. Þegar ríkisstjórnin tók við þurfti launamaður sem var með 5 m.kr. á mánuði í fjármagnstekjur að borga tæpa milljón í skatt (997.500 kr.) á meðan sá sem var með 5 m.kr. á mánuði þurfti að borga rúmar tvær milljónir (2.072.047 kr.). Sá sem lifði á auð sínum þurfti því að borga minna en helming þess í skatt sem sá sem lifði á vinnu sinni þurfti að gera, eða 48%. Með öðrum orðum 52% afslátt á sköttum sínum.
Í stjórnarsáttmálunum var kveðið á um fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður lítillega, úr 20% í 22%. Það eitt og sér hefði hækkað skattgreiðslur þess með fjármagnstekjurnar um 100 þús. kr. á mánuði, fært skattgreiðslur hans upp í 1.097.250 kr. sem eru 53% af skattgreiðslum launafólksins. Sá sem lifir á auð sínum fær því enn að halda um 47% af skattgreiðslum sínum, fær 47% afslátt frá fjármálaráðherra.

En Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti þetta auðvitað ekki svona. Þeir settu sem skilyrði að frítekjumarkið hækkaði og að stofn fjármagnstekjuskatts yrði ekki miðaður við nafnávöxtun heldur raunávöxtun. Það þarf ekki að taka fram að slíkt er hvergi gert á byggðu bóli, þetta er séríslenskt trix til að leyfa VG að kynna skattahækkun á hin ríku þegar hin ríku eru í raun að fá skattalækkun.

Tökum áfram dæmi af fimm milljón króna manninum. Í síðasta mánuði var hækkun neysluvísitölu 3,6% tólf mánuði þar á undan. Ef við gerum ráð fyrir að fimm milljón króna maðurinn hafi haft 5% árlega ávöxtun af eignum sínum þá á hann um 1.200 m.kr. sem skila honum 60 m.kr. á ári eða 5 m.kr. á mánuði. Með gamla laginu hefðu þessar 60 m.kr. orðið að skattstofni. En nú á að breyta því. Fyrst er reiknað með áhrif verðbólgu á eignir hans. 1.200 m.kr. í ársbyrjun eru að raunvirði sama og rúmar 1.243 m.kr. í árslok í 3,6% verðbólgu. Verðbreytingin er því dregin frá ávöxtuninni áður en fjármagnstekjur er lagður á. Í stað þess að skattleggja 60 m.kr. er verðbreytingin dregin frá, 43,2 m.kr., svo eftir stendur skattstofn upp á 16,8 m.kr. sem ber 22% skatt eða 3.696 þús. kr. á ári eða 308 þús. kr. á mánuði. Og þegar búið að hækka frítekjumarkið (sem er veigalítil aðgerð í samanburði við verðtryggingu höfuðstólsins) þá er ráðgert að fimm milljón króna maðurinn borgi 302.500 kr. í skatt á mánuði, 695 þús. kr. minna en hann gerði áður en breytingarnar í stjórnarsáttmálunum tóku gildi og tæplega 1.770 þús. kr. minna á mánuði en ef hann lifði af vinnu sinni en ekki auð. Skattaafsláttur auðfólksins hækkar því úr 52% í 85%.
Og þetta er kynnt sem skattahækkun af VG.

Hvers vegna ætla Íslendingar í þennan leiðangur?

Það er erfitt að finna útfærslu fjármálaráðuneytið á verðlagsútreikningum fjármagnstekjuskatts, ég bara finn hann ekki hjá ráðuneytinu né í skiljanlegri framsetningu í fréttum fjölmiðla. Ég hef því notað hér einföldustu leið til útreiknings, geri ráð fyrir að hún nái utan um heildarmyndina. Það sem raskar svona útreikningi mest er ávöxtunin á höfuðstólinn, hvort fimm milljón manna maðurinn var að ávaxta sitt pund um 5, 10 eða 25%. Sá sem á 240 m.kr. og ávaxtar þær um 25% á ári hefur sömu tekjur og sá sem ávaxtar 1.200 m.kr. um 5% en mun samkvæmt þessum séríslensku reglum til útreiknings fjármagnstekna borga hærri skatt. Það er ástæða þess að alls staðar í okkar heimshluta er skatturinn reiknaður út frá nafnávöxtun og engin skattyfirvöld standa í útreikningum á raunávöxtun fjármagnstekna. Ekki frekar en einhverju mati á raunvirði launatekna. Verðbreytingum er mætt með því að hækka viðmiðunarupphæðir eða jafnvel skattprósentuna.

En hvers vegna ætla Íslendingar í þennan leiðangur, að reikna raunávöxtun til að finna út skattstofn fjármagnstekna? Nú, svo að VG geti kynnt landsmönnum skattahækkun á hin ríku á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn getur fært hinum ríku veglega skattalækkun. Það er með öðrum orðum verið að fífla ykkur. Enn og aftur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: