„Ég var kjörin í stjórn VR fyrir tveimur árum, gegndi síðan embætti varaformanns og tók við formennsku VR í lok síðasta árs. Í starfi innan stjórnar VR hef ég beitt mér fyrir aukinni þekkingu og slagkrafti í umræðu um efnahagsmál, enda hafa þau gríðarleg áhrif á kjör launafólks. Ég hef sérstaklega gagnrýnt hávaxtastefnuna, sem hefur þegar kostað félagsfólk VR á bæði eigna- og leigumarkaði háar fjárhæðir, og hina viðvarandi tilhneigingu til að kjarabætur séu teknar til baka í gegnum verðhækkanir, gjöld og þjónustuskerðingu. Sem dæmi má nefna að ég hef undir höndum bréf frá banka þar sem lántakanda er tilkynnt um 172 þúsund króna hækkun á mánaðarlegri greiðslubyrði af heimili fyrir fjögurra manna fjölskyldu, á sama tíma og við þurfum öll að borga meira fyrir mat, rafmagn, tryggingar og opinbera þjónustu, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir í yfirlýsingu Höllu Gunnarsdóttur formanns VR.
„VR stendur frammi fyrir flóknum viðfangsefnum á næstu misserum. Áhætta var tekin með því að undirrita kjarasamninga til lengri tíma í umhverfi verðbólgu og ofurvaxta. Launafólk er orðið langeygt eftir raunverulegum vaxtalækkunum og langþreytt á dýrtíð. Það er tímabært að atvinnurekendur og stjórnvöld axli sína ábyrgð á stöðunni. Við höfum greitt fyrir þetta efnahagsástand alltof dýru verði á meðan bankastofnanir og fjármagnseigendur græða á tá og fingri. Á sama tíma er gerð atlaga að skipulagðri baráttu launafólks, til dæmis með stofnun gervistéttarfélaga og beitingu verkbannsvopnsins án ábyrgðar, sem og órökstuddum hugmyndum um að auka valdheimildir ríkissáttasemjara. Sporin hræða og í löndum þar sem verkalýðshreyfingin hefur verið brotin á bak aftur með þessum hætti býr vinnandi fólk við mun lakari kjör, afkomuóöryggi og jafnvel fátækt þrátt fyrir fulla vinnu.
➔ Við verðum að halda bæði stjórnvöldum og atvinnurekendum við efnið og tryggja að vextir lækki og verðhækkanir séu stöðvaðar. Ákvarðanir í efnahagsmálum sem varða okkur öll eiga ekki að vera teknar á grunni gróðahyggju eða úreltra hagfræðikenninga.
➔ Við verðum að ráðast til atlögu við húsnæðiskrísuna og tryggja að allt vinnandi fólk geti átt öruggt heimili á viðráðanlegum kjörum.
➔ Við verðum að standa vörð um og efla verkalýðshreyfinguna og VR gegnir þar lykilhlutverki sem stærsta stéttarfélag landsins.“
Yfirlýsing Höllu er lengri.