- Advertisement -

Halldór Auðar Svansson hættir í borgarstjórn

Umræðan Halldór Auðar Svansson, borgarfultrúi Pírata, sækist ekki eftir endurkjöri til borgarstórnar.

„Á aðalfundi Pírata í Reykjavík tilkynnti ég nú rétt í þessu um erfiða ákvörðun sem hefur verið lengi í fæðingu. Hún hefur – líkt og allar ákvarðanir – sína kosti og galla en ég tel að hún sé hreinlega sú rétta. Ákvörðunin er sú að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi setu í borgarstjórn að núverandi kjörtímabili liðnu.

Ég fór alltaf inn í þessa vinnu með það fyrir augum að vera í mesta lagi tvö kjörtímabil og meta eftir því sem á liði hvort ég treysti mér í tvö eða bara eitt. Ég tek hér strax fram að ég kem að sjálfsögðu til með að taka áfram virkan þátt í grasrótarstarfi Pírata. Ég er ekki að fara neitt nema úr borgarstjórn en það geri ég ekki fyrr en kjörtímabilinu lýkur. Í nafni heiðarleika og gagnsæis tilkynni ég þessa ákvörðun mína núna. Það eru spennandi tímar í vændum og ég mun miðla af minni reynslu til þeirra sem bjóða sig fram til að taka við keflinu.

Píratar fóru fram í Reykjavík með frekar einfaldar og hnitmiðaðar áherslur sem ég tel að hafi skilað sér ágætlega á kjörtímabilinu. Ég hef nýtt öll tækifæri sem ég sé til að koma þessum áherslum inn í borgarkerfið með varanlegum hætti, með því að leiða stefnumótunarvinnu í upplýsingamálum og þjónustu, og með því að koma á rafrænni þjónustumiðstöð sem vinnur þvert á borgarkerfið við að nýta nútímatækni til að bæta þjónustuferla borgarinnar – íbúum hennar og starfsfólki til hægðarauka. Einnig get ég verið stoltur af því að bókhald borgarinnar hefur verið opnað bæði á gagnvirkri gátt á vefnum og með útgáfu þess í formi opinna gagna. Allt eru þetta verkefni sem hafa notið góðs þverpólitísks stuðnings, sem er mjög mikilvægt upp á að þessar kerfisbreytingar verði varanlegar. Ég hef alla trú á því að þær muni á næstu árum skila sér í miklum sýnilegum breytingum á ásýnd stjórnsýslu borgarinnar og öllum hennar stjórnsýsluferlum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég held sumsé að þessar áherslur Pírata hafi verið hárréttar. Skilvirk upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum eru frumforsenda fyrir slíkri aðkomu og það er einmitt þess vegna sem Píratar leggja mikla áherslu á gagnsæi. Næstu skref munu án efa felast í því að nýta þennan grunn til að opna enn frekar á aðkomu íbúa borgarinnar að stjórnsýslu hennar. Við stjórnendur hennar höfum verið að fikra okkur áfram í þá átt, meðal annars með því að nýta Betri Reykjavík til að fá fram skoðanir almennings á menntastefnu borgarinnar, sem nú er í mótun.

Sitthvað mælir með því að það verði ég sem stend áfram í brúnni til að fylgja allri þessari vinnu fast eftir – en málið er að það er ekki bráðnauðsynlegt að það verði ég. Aðalmálið er að Píratar komi sér upp góðri stefnu fyrir Reykjavík og sveitarstjórnarstigið almennt og keyri hana áfram næsta vor. Það er líka mjög í anda okkar aðferðafræði að pólitík eigi ekki að vera flókið fag sem krefst atvinnumennsku heldur eigi kerfið að virka þannig að fólk geti stokkið inn í að vinna með það með tiltölulega lítilli fyrirhöfn, sé það sæmilega klárt. Mín þekking og reynsla munu gagnast þó ég verði ekki í framlínunni. Að sinna því hlutverki hefur bæði verið töluvert álag en ég hef líka öðlast gríðarlega dýrmæt reynsla. Ég er hrærður yfir því að hafa verið veitt þetta einstaka tækifæri og ég hef kynnst og unnið með mörgu frábæru fólki – bæði innan borgarinnar og utan hennar. Starf hins kjörna fulltrúa er erfitt og snúið en þannig á það líka að vera.

Eins og áður segir er ég auðvitað ekki alveg farinn. Síðasta stærsta verkefni mitt verður að tryggja að kláruð verði almenn lýðræðisstefna fyrir borgina. Ég held sem fyrr segir að gildi formlegrar stefnumótunar sem tæki til að innleiða breytingar verði síst vanmetið. Þegar þessi verkefni eru komin í gegn get ég gengið sáttur frá borði og mun bjóða nýja félaga velkomna í stýrishúsið í vor, sem verða samkvæmt hefðum og reglum Pírata valdir af félagsmönnum í prófkjöri,“ segir hann á Facebook.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: