- Advertisement -

Heima er bezt: Heimilið á að vera griðastaður hvers einasta manns

Hér fer á eftir viðtal við Ingibjörgu Thors, eiginkonu Ólafs Thors. Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Frúnni 1963 og svo í Heima er bezt á síðasta ári. Blaðamaðurinn þéra Ingibjörgu.

Ingibjörg og Ólafur Thors.

Ingibjörg Indriðadóttir Thors var fædd í ágúst 1984 og lést í ágúst 1988. Maður hennar, Ólafur Thors fæddist desember 1892 og lést í desember 1964. Viðtalið sem hér fer á eftir er fengið úr blaðinu Frúnni frá árinu 1963. Ljóst er að viðhorf blaðamannsins voru i anda þess tíma þegar viðtalið var tekið. Viðtalið er svona:

Að Garðastræti 41 búa íslensku forsætisráðherrahjónin, Ólafur Thors og kona hans, Ingibjörg Thors. Frú Ingibjörg Thors er dóttir Indriða Einarssonar, fyrsta íslenska hagfræðingsins, og konu hans Mörthu Maríu Pétursdóttur Gudjohnsen. Indriði Einarsson var, eins og alþjóð er kunnugt, brautryðjandi um leikritaskáldskap og leikmennt og aðalhvatamaður að stofnun þjóðleikhúss á íslandi og hefur leiklistaráhugi fylgt ætt hans, til dæmis að taka, eru hinar þjóðkunnu leikkonur, Guðrún og Marta Indriðadætur, dætur Indriða Einarssonar og Indriði Waage, leikari, er dóttursonur hans. Í móðurætt frú Ingibjargar er hinsvegar ríkjandi sterk tónlistargáfa, sem kunnugt er.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég hef aldrei litið á okkur hjónin sem stjórnmálamann og konu stjórnmálamanns. Þess vegna tel ég mig ekki hafa veitt honum neinn styrk í þeirri baráttu.

Þegar blaðamaður „Frúarinnar“ var á leið upp Garðastræti að heimili forsætisráðherrahjónanna, var honum þó ekki listsköpun í huga, heldur var það ásetningur hans, að leggja fyrir forsætisráðherrafrúna nokkrar spurningar, sem fyrst og fremst vörðuðu veraldleg efni. Blaðamanninum var vel tekið af frú Ingibjörgu Thors, og leysti hún vinsamlega úr öllum spurningum blaðamannsins.

Blaðamaðurinn spyr: Á hvern hátt teljið þér að eiginkona geti veitt manni í stjórnmálabaráttu mestan styrk?

Ég hef aldrei litið á okkur hjónin sem stjórnmálamann og konu stjórnmálamanns. Þess vegna tel ég mig ekki hafa veitt honum neinn styrk í þeirri baráttu. Hins vegar hef ég alltaf haft áhuga á starfi mannsins míns frá því fyrsta, hvort hefur verið um stjórnmál að ræða eða annað. Á fyrstu hjúskaparárum okkar sinnti hann ekki stjórnmálum. Þá var hann framkvæmdastjóri og meðeigandi Kveldúlfsfyrirtækisins. Maðurinn minn hefur alltaf unnið á sama hátt og hann gerir nú, hann er ávallt vakinn og sofinn í starfinu, hvað sem það er. Ég gerði mér alls ekki grein fyrir því, að ég hefði gifst stjórnmálamanni. Hins vegar hafa stjórnmálin komið inn í okkar líf skref af skrefi, þannig að þau hafa aldrei valdið neinni gjörbyltingu í heimilislífinu. Þess vegna er ekki um neinn styrk að ræða af minni hálfu, sem beinlínis mætti heimfæra upp á stjórnmálabaráttu hans.

Teljið þér, að eiginkonur stjórnmálamanna eigi að taka þátt í stjórnmálum út á við með mönnum sínum?

Ég myndi svara þessu þannig, að hver venjuleg kona vilji styrkja og styðja sinn mann, hvort sem það er á sviði stjórnmála eða öðrum sviðum. Ef stjórnmál eru aðaláhugaefni konunnar, sé ég ekkert á móti því, að hún veiti sér þá ánægju að taka þátt í þeim opinberlega, ef hún hefur aðstæður til þess vegna heimilisins. Hjón heyja yfirleitt lífsbaráttuna hlið við hlið og það er aðalatriðið.

Nei, hann getur ekki krafist neins. Ungur maður giftist ungri konu og ýmislegt getur breyst frá því sem gert var ráð fyrir í upphafi. Annars verður þetta að vera mál hverra einstakra hjóna og það er ekki hægt að gefa út neinar reglur um það.

Hvern álítið þér sterkastan þátt konunnar, við hlið stórvirks stjórnmálamanns?

Við því er víst ekkert algilt eða tæmandi svar til. Höfuðvandinn er, að skipta starfskröftum sínum milli heimilis og opinberra skyldna, svo að hvorugt verði vanrækt.

Oft getur þetta verið örðugt, en gengur eins og annað með góðum vilja.

Finnst yður, að eiginmaður í þessum aðstæðum geti krafist þess af eiginkonunni, að hún komi alls staðar fram með honum, þar sem honum þykir þess þurfa?

Nei, hann getur ekki krafist neins. Ungur maður giftist ungri konu og ýmislegt getur breyst frá því sem gert var ráð fyrir í upphafi. Annars verður þetta að vera mál hverra einstakra hjóna og það er ekki hægt að gefa út neinar reglur um það.

Lítið þér ekki á heimilið sem algjöran griðastað mannsins, sem hann geti dvalist ótruflaður á, þegar hann vill hvíla sig frá stjórnmálamönnum og hvernig er hægt að veita honum þá hvíld?

Ég álít að heimilið eigi að vera griðastaður hvers einasta manns, en hvort það verður það, fer líka eftir því, hvort hann vill sjálfur gera það að griðastað frá daglegum önnum. Hér er það þannig, að það eru tveir símar á heimilinu og maðurinn minn situr við þá og svarar ævinlega í þá sjálfur, jafnvel þótt hann ætli að hvíla sig. Það fylgir mikill órói síma á heimili og þetta get ég ekki komið í veg fyrir. Annars er manninum mínum ekki í nöp við símann, honum er síminn svo mikið hjálpartæki. Hann getur með hjálp símans afgreitt ýmis mál á miklu skemmri tíma, en ella myndi vera og oft héðan að heiman. Við verðum vissulega fyrir miklu ónæði af símanum, en hann vill hafa þetta svona og ég reyni ekkert að koma í veg fyrir það. En þegar rólegt er hjá okkur þá lesum við aðallega. Við höfum bæði mikla ánægju af góðum bókum og lestur þeirra er okkur helsta frístundagaman. Annars erum við farin að draga okkur meira út úr samkvæmislífinu, en hér áður fyrr og þess vegna gefst betra næði. Nú eru engin börn, sem þarf að sinna, þau eru öll búin að eignast sín eigin heimili.

Hvað viljið þér segja um barnauppeldi á jafn gestkvæmu heimili og ykkar hjónanna?

Ég sjálf lít yfir farin veg með ánægju og ég hef aldrei talið eftir mér, né séð eftir því, sem ég ef til vill hef lagt af mörkum að létta starf mannsins míns.

Ég ætla fyrst að segja yður frá því, hvers ég minnist frá þeim tíma, er ég var barn, og svo hinu á eftir. Ég minnist heimilis foreldra minna með mikilli ánægju. Við vorum 8 systkinin og það ríkti alltaf glaðværð í heim hópi og foreldrar okkar áttu ævinlega mikinn þátt í því, að börnin tækju þátt í samræðum og leikjum og faðir minn var óþreytandi að fræða okkur og segja okkur frá ýmsu, sem við höfðum áhuga á. Móðir mín var honum mjög samstillt á þessu sviði. Það var mjög gestkvæmt á heimili þeirra, en ég man það, að þegar setið var að borðum, ræddi faðir minn við okkur börnin jafnt og gestina. Þetta hefði ég viljað geta veitt mínum börnum, en á þessu heimili hefur ekki verið nægilega mikil kyrrð til þess að það væri hægt. Hér hafa einnig verið miklar gestakomur og þeir, sem hafa komið, hafa oft átt brýn erindi við manninn minn, sem hann hefur þá jafnvel orðið að afgreiða á matmálstímum undir borðum, og af umræðunum um stjórnmál hafa börn misjafna ánægju. Þetta sagði frú Ingibjörg Thors brosandi.

Og þar sem talið hafði nú einu sinni borist að borðhaldi, notaði ég tækifærið og spurði forsætisráðherrafrúna, hvort ekki væri svo með forsætisráðherrann og marga aðra, að hann hefði meiri mætur á einum rétti fremur öðrum. Hún svaraði brosandi:

Þessi spurning er víst í tísku núna, en því er til að svara, að hvorugt okkar er fyrir mikinn mat né íburðarmikinn. Maðurinn minn biður aldrei um neinn sérstakan mat og ef ég spyr hann, hvers hann óski í því efni, segir hann venjulega: „Gefðu mér sem allra minnst,“ og hann vill helst ekki sitja lengi við borðið.

Og að lokum: Hvaða heilræði vilduð þér gefa ungum konum giftum mönnum, sem starf  síns eða embættis vegna þurfa að koma fram opinberlega, ásamt konum sínum, við hin margvíslegu tækifæri?

Ég gef þeim ekkert heilræði, ég vorkenni þeim ekki, en ég gleðst ekki heldur þeirra vegna, því það getur bæði orðið þeim til ánægju eða ama. Ég sjálf lít yfir farin veg með ánægju og ég hef aldrei talið eftir mér, né séð eftir því, sem ég ef til vill hef lagt af mörkum að létta starf mannsins míns.

Um leið og blaðið þakkar frú Ingibjörgu Thors viðtalið, vill blaðamaðurinn bæta því við, að honum er kunnugt um að heimili forsætisráðherrahjónanna er rómað fyrir alúð og gestrisni og ræður þar mestu um þjóðkunn alúð og glaðværð húsbóndans og meðfædd íslensk gestrisni húsfreyjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: