- Advertisement -

HHG: Hvernig við nálgumst sannleikann

Ávarp Helgi Hrafn Gunnarsson, kapteinn Pírata, skrifar áramótaávarp í Morgunblaðið í dag.

Hér eru valdir kaflar í ávarpinu:

„…af ákveðinni auðmýkt og fórnfýsi…“

„Sannleikurinn getur virst flókið, jafnvel trúarlegt hugtak, en er þó í sjálfu sér mjög einfalt: Sannleikurinn er samræmi við það sem er. Kannski getur verið erfitt að samþykkja slíka skilgreiningu þar sem hún svarar því ekki hvað sé satt og hvað ekki, en það er heldur ekki hlutverk hugtaksins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrir skemmtilega kaldhæðni er sannleiksleitin hinsvegar ekki jafn auðveld og fólk gerir yfirleitt ráð fyrir, þrátt fyrir einfalda skilgreiningu. Til þess að finna sannleika þarf fólk oft að nálgast hann af ákveðinni auðmýkt og fórnfýsi. Fólk þarf að bera virðingu fyrir takmörkunum sínum og gera ráð fyrir skakkri heimsmynd. Fólk þarf fyrr eða síðar að gefa upp á bátinn eitthvað af fyrri hugmyndum sínum, jafnvel djúpstæðar sannfæringar sem eru því mjög dýrmætar. Fólk þarf að geta litið yfirvegað á heiminn út frá vondum hugmyndum, jafnvel beinlínis hættulegum. Síðast en ekki síst þarf fólk að vera reiðubúið til að hefja leikinn að nýju um leið og honum lýkur. Gera má hlé á sannleiksleitinni hvenær sem er, en meðan hún á sér stað mun hún aldrei veita þeim frið sem hana stunda.“

„…þá nær viðkomandi flokkur stundum inn fleiri mönnum á Alþingi…“

„Samkvæmt kenningunni eiga pólitíkusar að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og verja þau gegn gagnrýni annarra. Þá eru haldnar rökræður við hin ýmsu tækifæri, auðvitað fyrst og fremst í kringum kosningar en einnig út kjörtímabilið eftir atvikum, í útvarpi, í sjónvarpi og víðar. Kjósandinn ákveður síðan hvaða sjónarmið séu gildust, kýs flokk samkvæmt því og þá nær viðkomandi flokkur stundum inn fleiri mönnum á Alþingi. Þetta er grunnkenningin og hún er ekkert galin í sjálfu sér.“

Ekki einkaleyfi pólitíkusa

„Þá er ennfremur ágætt að minnast á annað, að pólitíkusar hafa ekkert einkaleyfi á þessari hegðun, heldur viðgengst hún líka í samfélaginu, enda koma pólitíkusar einmitt þaðan. Fólk hagar sér líka svona heima við eldhúsborðið, í kaffistofunni og vissulega á samfélagsmiðlunum. Munurinn er helst sá að þar er yfirleitt ekki um að ræða fólk í kastljósinu að óska eftir trausti landsmanna til að stjórna landinu, en eftir stendur að þetta er ekki bara einkenni stjórnmálanna heldur brestur sem hrjáir okkur sennilega öll ef við vinnum ekki meðvitað gegn honum.

Fólk notar heilabúið til að ná markmiðum, og ef markmiðið er ekki skilningur, þá verður skilningi ólíklega náð. Því þarf fólk að hafa það að markmiði að skilja hlutina rétt ef það ætlar að skilja þá rétt. Það gerist ekki sjálfkrafa.“

Legg til að við allavega reynum

„Því legg ég til á nýju ári að við íhugum meira hvernig við nálgumst sannleikann. Ekki nákvæmlega hvort að tiltekin hugmynd sé rétt eða röng, tiltekin fullyrðing sönn eða ósönn, heldur hvernig við nálgumst sannleikann í viðræðum við annað fólk og gagnvart okkur sjálfum. Það er órökrétt og varla heiðarlegt, sem dæmi, að túlka orð einhvers sem maður er ósammála með þeim hætti að hann hljóti að meina það á sem heimskulegastan hugsanlega máta. Reynum heldur að skilja hvert annað hvað best.

Við þjáumst öll af mörgum, víðtækum brestum og takmörkunum sem gera heiðarlega sannleiksleit erfiða. Frekar en að nýta þá bresti gegn hvert öðru væri samfélagi okkar hollast að við hjálpuðumst að við að yfirstíga þá. Í anda nýrra tíma legg ég til að við allavega reynum.“

Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: