
Vilborg Kristín Oddsdóttir:
Af hverju leyfum við þessum fyrirtækjum að stafla upp innheimtukostnaði hjá fátæku fólki með þeim hætti sem þau gera? Er ekki kominn tími til að háttvirt Alþingi fari af alvöru að skoða þessi mál áður en fleiri einstaklingar og fjölskyldur lenda í þessari skuldasúpu sem nánast ómögulegt er að krafsa sig út úr?“
„Einstæð tveggja barna móðir á lægstu launum sem er alin upp í fátækt og með mjög brotinn félagslegan bakgrunn stendur frammi fyrir því að þegar dóttir hennar er að fara í útskriftarferð með skólanum þá á hún ekki fyrir því sem upp á vantar þar sem fjölskyldan er hvorki stór né öflug,“ þetta sagði Vilborg Kristín Oddsdóttir sem situr nú Alþingi sem varaþingmaður.
Við þekkjum öll til Vilborgar sem hefur með miklum sóma annast um hjálparstarf kirkjunnar.
Hér er framhald af þingræðu Vilborgar:
Þannig vatt þetta upp á sig.
„Viðskiptabanki neitar að aðstoða hana þar sem hún er með mjög lágt lánshæfismat eða C1. Móðirin er komin út í horn og hennar eini möguleiki er að taka skyndilán. Það vantaði í þessu tilviki 45.000 kr. til að dóttir hennar kæmist með í útskriftarferðina. Til að fá þessa upphæð var henni sagt að hún þyrfti að taka þrjú lán sem innheimt voru í þrennu lagi með þreföldum innheimtukostnaði.
Um næstu mánaðamót, þegar upphæðin og kostnaður var greiddur, voru ekki til peningar fyrir mat. Þá tók hún skyndilán hjá öðru fyrirtæki. Síðan barst henni tilkynning um að hún hefði heimild upp á allt að 100.000 kr. hjá því fyrirtæki. Eftir að hafa alla tíð barist í bökkum og varla átt fyrir einu né neinu þá var þetta tilboð sem ekki var hægt að standast og tók hún því þetta lán og keypti sumarföt á börnin, ný föt, sem nánast aldrei gerðist.
Þannig vatt þetta upp á sig. Til að geta átt fyrir mat tók hún lán og svo annað lán til að geta greitt af því sem hún skuldaði. Eftir smátíma var upphæðin orðin það há að eftir að húsaleiga var greidd átti hún ekki einu sinni fyrir því sem hún skuldaði þessum fyrirtækjum. Þegar þarna er komið sér hún að þetta er hræðilegur vítahringur sem hún er föst í og þarf að koma sér út úr.
…aukakostnað og innheimtugjald.
Að sjálfsögðu byrjaði hún á að hafa samband við þau fyrirtæki sem hún hafði tekið lánin hjá en þar sem hún hafði hingað til getað greitt af þeim eru þau ekki til í að semja heldur svara því að ef hún greiði ekki verði hver og einn reikningur sendur til innheimtufyrirtækis sem leggur á aukakostnað og innheimtugjald. Það er sama hvert hún leitar, hún fær höfnun um aðstoð til að takast á við þennan vanda. Sama hvaða tillögur hún kemur með til viðskiptabanka síns til að fá aðstoð til að komast út úr þessum vítahring þá er svarið nei. Þá er aðeins einn möguleiki eftir, að leita til umboðsmanns skuldara.
Frú forseti. Ég spyr: Af hverju látum við hér í þessum sal viðgangast að skyndilánafyrirtæki herji á viðkvæman hóp í okkar samfélagi með gylliboðunum sem ég lýsti hér að framan? Af hverju leyfum við þessum fyrirtækjum að stafla upp innheimtukostnaði hjá fátæku fólki með þeim hætti sem þau gera? Er ekki kominn tími til að háttvirt Alþingi fari af alvöru að skoða þessi mál áður en fleiri einstaklingar og fjölskyldur lenda í þessari skuldasúpu sem nánast ómögulegt er að krafsa sig út úr?“